Gærdagurinn var ekki alveg eins og við hefðum viljað. En er það ekki einmitt sem maður segir svo oft við börnin: "maður fær ekki alltaf allt sem manni langar í". Sem minnir mig á eitt sem við eigum í smá vandræðum með.....
Baldur Freyr er í sífellu að suða um e-ð; ís, batman með skikkju, sláttuvél með skóflu, kex, etc. Mér finnst þetta frekar erfitt, sérstaklega þegar við erum stödd á stað þar sem maður er ekki að höndla þetta suð, eins og t.d. í búðinni. Nú er málum háttað svo að börnin verða yfirleitt að vera með í búðinni. Við förum oftast í Netto sem er lágvöruverslun og því ekki ýkja mikið pláss fyrir konu með barnavagn og hugsanir hennar. Því reyni ég yfirleitt að spæna í gegnum búðina (og þá er eins gott að vera á réttum skónum í versluninni í Lyngby, því að gólfið er sleipt og ég spóla bara og næ engu gripi ef ég er í ákv. skóm) og kaupa það nauðsynlegasta. Ég hef fundið fyrir því að undanförnu að ég verð mjög nervös og hálftaugaveikluð ef ég lendi í þessum búðar-/suð- aðstæðum. Við ætlum að reyna að taka á þessu máli en ekki veit ég hvernig við eigum að fá herra BFF til þess að láta af þessu suði. Ætli við höfum látið of mikið undan í gegnum tíðina og þetta séu afleiðingarnar? Annað sem er svo erfitt í þessari stöðu er að maður er e-n veginn alltaf að segja "nei nei nei nei nei" eða "ég veit að þig langar í ýmislegt, en maður fær bara ekki alltaf allt sem manni langar í".
Laugardagurinn sem átti að vera svo mikill fjölskyldu- og slökunardagur varð eins og áður sagði ekki alveg eins og hann var hugsaður. Ég var búin að segja ykkur að við ætluðum til Roskilde en því var frestað vegna gleðilegrar ástæðu. Við ákváðum því að fara til Lyngby um morguninn, sinna erindum, koma heim um hádegi, láta ÁLF sofa, njóta þá tímans með BFF, fara svo út að hjóla og njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Fljótlega um morguninn þegar komið var til Lyngby ákvað BFF að dagurinn í dag skyldi vera dagurinn í vonda skapinu (kannastu e-ð við þetta mamma??) og dagurinn varð eftir því. Endalaust stríð um að láta systir sína vera, að það sé ekki í boði að öskra eða lemja og þar fram eftir götunum. En það sem er alltaf jafnótrúlegt er að þessi hegðun á sér aðeins stað innan veggja heimilisins. Hann er algjör draumur þegar út er komið, við fórum t.d. í hjólatúr í gær, þar sem við hjóluðum til Holte og niður við Furesøen, og þá var svo gaman að vera með honum. Eins fórum við í gönguferð fyrir kvöldmat, þá fórum við að skoða hestana og fórum í gegnum skóginn, og þá var hann í þessu fína skapi. Við reynum okkar besta en svo virðist sem það dugi ekki alltaf. En þetta lagast, eins og BFF segir sjálfur þegar hann eða e-r annar meiðir sig. Það voru því þreyttir foreldrar sem lögðust til hvílu um 22.30 í gærkvöldi.
Eins og ég skrifaði áðan þá fórum við í okkar fyrsta hjólatúr saman famílían og mikið var það nú gaman. Það er svo þægilegt að ferðast um á hjóli. Maður sér allt svo vel, kemst þokkalega hratt yfir og nýtur útiverunnar - allt á sama tíma.
Við ætlum nú á eftir að fara út á Amager í heimsókn til Dagnýjar & familie og þangað koma líka Ágúst og Hildur - ég hlakka svo, ég hlakka alltaf svo til.....
Sem minnir mig smá á jólin ;-) Og því sendi ég enn og aftur hlýjar kveðjur til útlendingastofnunar, vinnumálastofnunar (go Gizzur) og stéttarfélags Araba (go Báran).
Jæja ætli ég láti þetta ekki gott heita, ég þakka ykkur fyrir að skrifa "comment" því að óneitanlega er það skemmtilegt að vita að e-r lesi þetta. Verst ef það verður til þess að enginn vilji hringja ;-)
Verð svona í lokin að skella inn einni góðri Kidda-kveðju og segja: "jeg håber at vi ses her i Danmark til næste år!"
Ástarkveðjur til ykkar allra um allan geim.
Hanna
Ummæli