Fara í aðalinnihald

Sunnudagur til sælu - vonandi

Á fætur kl. 6 sagði:

Gærdagurinn var ekki alveg eins og við hefðum viljað. En er það ekki einmitt sem maður segir svo oft við börnin: "maður fær ekki alltaf allt sem manni langar í". Sem minnir mig á eitt sem við eigum í smá vandræðum með.....

 


Baldur Freyr er í sífellu að suða um e-ð; ís, batman með skikkju, sláttuvél með skóflu, kex, etc. Mér finnst þetta frekar erfitt, sérstaklega þegar við erum stödd á stað þar sem maður er ekki að höndla þetta suð, eins og t.d. í búðinni. Nú er málum háttað svo að börnin verða yfirleitt að vera með í búðinni. Við förum oftast í Netto sem er lágvöruverslun og því ekki ýkja mikið pláss fyrir konu með barnavagn og hugsanir hennar. Því reyni ég yfirleitt að spæna í gegnum búðina (og þá er eins gott að vera á réttum skónum í versluninni í Lyngby, því að gólfið er sleipt og ég spóla bara og næ engu gripi ef ég er í ákv. skóm) og kaupa það nauðsynlegasta. Ég hef fundið fyrir því að undanförnu að ég verð mjög nervös og hálftaugaveikluð ef ég lendi í þessum búðar-/suð- aðstæðum. Við ætlum að reyna að taka á þessu máli en ekki veit ég hvernig við eigum að fá herra BFF til þess að láta af þessu suði. Ætli við höfum látið of mikið undan í gegnum tíðina og þetta séu afleiðingarnar? Annað sem er svo erfitt í þessari stöðu er að maður er e-n veginn alltaf að segja "nei nei nei nei nei" eða "ég veit að þig langar í ýmislegt, en maður fær bara ekki alltaf allt sem manni langar í".

Laugardagurinn sem átti að vera svo mikill fjölskyldu- og slökunardagur varð eins og áður sagði ekki alveg eins og hann var hugsaður. Ég var búin að segja ykkur að við ætluðum til Roskilde en því var frestað vegna gleðilegrar ástæðu. Við ákváðum því að fara til Lyngby um morguninn, sinna erindum, koma heim um hádegi, láta ÁLF sofa, njóta þá tímans með BFF, fara svo út að hjóla og njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Fljótlega um morguninn þegar komið var til Lyngby ákvað BFF að dagurinn í dag skyldi vera dagurinn í vonda skapinu (kannastu e-ð við þetta mamma??) og dagurinn varð eftir því. Endalaust stríð um að láta systir sína vera, að það sé ekki í boði að öskra eða lemja og þar fram eftir götunum. En það sem er alltaf jafnótrúlegt er að þessi hegðun á sér aðeins stað innan veggja heimilisins. Hann er algjör draumur þegar út er komið, við fórum t.d. í hjólatúr í gær, þar sem við hjóluðum til Holte og niður við Furesøen, og þá var svo gaman að vera með honum. Eins fórum við í gönguferð fyrir kvöldmat, þá fórum við að skoða hestana og fórum í gegnum skóginn, og þá var hann í þessu fína skapi. Við reynum okkar besta en svo virðist sem það dugi ekki alltaf. En þetta lagast, eins og BFF segir sjálfur þegar hann eða e-r annar meiðir sig. Það voru því þreyttir foreldrar sem lögðust til hvílu um 22.30 í gærkvöldi.

Eins og ég skrifaði áðan þá fórum við í okkar fyrsta hjólatúr saman famílían og mikið var það nú gaman. Það er svo þægilegt að ferðast um á hjóli. Maður sér allt svo vel, kemst þokkalega hratt yfir og nýtur útiverunnar - allt á sama tíma.

Við ætlum nú á eftir að fara út á Amager í heimsókn til Dagnýjar & familie og þangað koma líka Ágúst og Hildur - ég hlakka svo, ég hlakka alltaf svo til.....

Sem minnir mig smá á jólin ;-) Og því sendi ég enn og aftur hlýjar kveðjur til útlendingastofnunar, vinnumálastofnunar (go Gizzur) og stéttarfélags Araba (go Báran).

Jæja ætli ég láti þetta ekki gott heita, ég þakka ykkur fyrir að skrifa "comment" því að óneitanlega er það skemmtilegt að vita að e-r lesi þetta. Verst ef það verður til þess að enginn vilji hringja ;-)

Verð svona í lokin að skella inn einni góðri Kidda-kveðju og segja: "jeg håber at vi ses her i Danmark til næste år!"

Ástarkveðjur til ykkar allra um allan geim.
Hanna

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...