Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá desember, 2008

Jólakveðja

Við hittum jólasveininn á förnum vegi í Tívolí um síðustu helgi. Hann var hress og rjóður og bað að heilsa. Fjölskyldan í Rundforbiparken sendir hátíðarkveðjur um veröldina víða. Við sjáumst kannski um jólin heima á Íslandi, við lendum á Keflavík eftir u.þ.b. sólarhring.

Allt er í heiminum hverfult

Það var undarleg tilfinning sem greip um okkur í morgun, rétt eftir að fyrsta tillaga til vöknunar hefði verið slegin út af borðinu með svokölluðum "snooze"-takka. Húsið gekk til í hægum bylgjuhreyfingum. Ég veit ekki með Finn en tilfinningin sem greip mig var hræðsla. Þeir sem þekkja mig vita hversu illa mér er við þetta afl jarðar og áður en ég hafði náð að hugsa þá var hjartað komið á fulla ferð. Hjartslátturinn þyngdist töluvert þegar ég gerði mér grein fyrir skjálftanum og eftir að honum lauk, þá sveif á mig gömulkunn máttleysistilfinning. En sem betur fer, eins og mörgum er einnig kunnugt, þá á ég svo óskaplega létt með svefn að ég náði að svífa inn í draumalandið á ný og ná jafnvægi í líkamsstarfsemi ;-) Ótrúlegt alveg, ég sem hélt að ég væri óhult fyrir skjálftum búsett í Danmörku þar sem engin eru skjálftasvæði.

Pund

Eins og eitt pund af flórsykri er núna búið að fara síðasta sólarhringinn í glassúrframleiðslu á piparkökurnar. Uppskrift númer 2 var flött út í gær og bökuð. Baldri þótti aðalatriðið að fá að hræra upp í glassúr og þekja kökurnar (já og þá meina ég þekja ). Ilmurinn af piparkökunum er svo sannarlega til marks um að jólin nálgast senn. Nú eru ekki nema 10 dagar í að við hlunkumst niður á flugbrautina í Keflavík, ætli það verði jafn hvasst og síðast? Í öllu falli verður spennandi að finna leiðina út úr völundarhúsi Leifs þar sem alltaf er verið að smíða, breyta og bæta. En svona er þetta víst á flestum flugvöllum, að minnsta kosti þeim sem ég hef dreypt fæti niður á undanfarið (dublin, seattle, chicago, fargo, skopje og kaupmannahöfn) þar eru tímabundnir veggir með tímabundnum leiðbeiningum. Ekkert er víst varanlegt í þeim bransa, eða í lífinu yfirleitt ef út í það er farið... En nú er skammt í að maður fari yfir strikið í vangaveltum þannig að ég set punkt hér .

Koma jólanna.

Við keyrðum í gær upp í sveit til að fagna komu jólanna með starfsfélögum Fuz og höfðum einmitt á orði að það væri ekkert voða jóló með græna grasið allt í kring. En jólin koma innan frá og því um að gera að njóta undirbúningsins í faðmi fjölskyldunnar á eftirfarandi hátt; jólatónlist, jólaskraut, jólaföndur, jólabakstur etc. Það versta er þegar spenningur í börnum verður svo mikill að þau passa ekki inn í fallegu myndina (rauðar, kaldar eplakinnar, kókó í bolla, nartandi í smákökur, föndrandi jólaskrautið við blíða röddu Svanhildar Jakobs....) og eru meira í að slást og rífast og vilja helst bara vera úti að leika með nágrannakrökkunum. Svona er það víst að verða fullorðinn. Með tilbúnar væntingar og búin að gleyma óþreyjunni sem fylgir komu jólanna.

Frábrugðið

Má ég fara með Alfreð í ballet? Heyrði ég rétt, ballet? Baldur kom inn rosa spenntur í dag og spurði hvort hann mætti fara með Alfreð skólabróður og nágranna sínum að horfa á systur hans í ballet í dag. Jú, jú mín vegna en ég verð að tala við mömmu hans og fá þennan ráðahag staðfestann. Úps, hún var víst á nærbuxunum en það var víst ekki stórtökumál þannig að við ræddum um skipan mála í flíspeysunni og sloggi nærbuxum. Baldur fór með Alfreð að horfa á ballet systurinnar. Aðeins frábrugðið... Ég er búinn að vera að dúlla svolítið í eldhúsinu í morgun, tja nánast bara allan dag. Núna er marsipaneplakakan að taka sig á borðinu og kjúklingurinn í marineringu við hlið piparkökudeigsins. Hjörtur og Kolbeinn eru á leiðinni uppeftir til okkar til að gera og græja piparkökur seinnipartinn. Jólaböllin og -skemmtanirnar eru að hefja innreið sína þetta misserið og nú eru Hanna og Ásta uppi í Birkeröd að taka þátt í jólafagnaði íþróttafélagsins Skjold þar sem Hanna kennir á miðvikudögum. Vonandi st