Við fórum í lítinn hjólatúr áðan eftir matinn. Tókum nágranna og bekkjafélagann Alfreð með. Hann hafði með sér forlátt mini-kúbein. Mjög gerðarlegt og virtist geta þjónað fullum tilgangi sínum, að minnsta kosti þá fengu nokkrir morknir trjástofnar að kenna á því af fullum krafti. Hann sagði að það væri ansi margt hægt að kaupa í grænu skemmunni niður í Kristjaníu þar sem pabbi hans býr. Þar var líka hægt að kaupa dúkkur, sagði hann við Baldur. Svona stórar uppblásnar dúkkur fyrir stráka "som synest det er sjovt at bolle" . Geri ráð fyrir að valið hafi fremur hallast að kúbeininu þann daginn hjá pabbanum... Eftir að við sáum litla svarta eðlu voru allir sáttir og klárir til að koma heim í háttinn. Ég fékk heiðurinn að ferja kúbeinið heim í körfunni minni. Í huga mér formuðust óteljandi hugsanir og möguleikar tengdu svörtu verkfærinu sem glitraði svo bjart í kvöldsólinni.