Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá janúar, 2009

Komið...

Jæja þá er það yfirstaðið. Tveir nýjir einstaklingar kúra inni í hálminum í marglitu plastbúrunum sínum. Spennustiginu er aflétt um 3,37 og núna er áskorunin að leyfa litlu hnoðrunum að venjast nýjum heimkynnum þar sem skrækar barnsraddir og stór augu eru sífellt að kíkja í heimsókn. Já, fjölskyldan hefur stækkað við sig svo um nemur tveimur dverghömstrum. Kolla átti kollgátuna en Maggi fær viðbragðsverðlaunin fyrir andstutt símtal í hádeginu í dag. Hva, er kominn bangsi í ofninn? Nei, ekki var það svo... að sinni....eða...kannski?!

Fjölgun...

Nú eru spennandi tímar. Fjölgun á heimilinu er í nánd og allir núverandi heimilsmenn eru orðnir spenntir og þetta er rætt nánast upp á dag hér út frá margvíslegum vinklum. Í dag hreyfðum við svo við uppröðunni inn í barnaherbergi til að vera klár í tíma þegar dagurinn kemur. Krakkarnir eru sérstaklega spenntir yfir þessu öllu saman. Og við líka.

Úps!

Svið: Á leið heim í lestinni sunnudagskvöldið 4. janúar Persónur: fjölskyldan situr með 4 stk ferðatöskur, nýkomin úr flugi frá 2 viknar fríi á Íslandi Ásta Lísa (ÁL): Pabbi, ég þarf að pissa Pabbinn (ég): Ok, klósettið er bara hérna rétt hinu megin við hornið. Taktu í hendina á mér, lestin vaggar svolítið og við gætum dottið. Hérna er þetta. Prófaðu að ýta á takkan, þá opnast hurðin (ÁL ýtir á takkann og við blasir miðaldra feitlaginn maður sem situr á salerninu "í hægðum sínum") Ég: Úps, fyrirgefðu. Vissi ekki að það væri ólæst. (ýti aftur á takkan og loka hurðinni aftur. Það kemur ekki í veg fyrir að 2,27 rúmmetrar af geigvænlega fúlu þarmalofti sleppa fram í ganginn. Við röltum til baka og setjumst í sætin sposk á svip. Allir í vagninum skilja og finna lykt af því sem gerðist. Vandræðaleg brosin og allir reyna að láta sem ekkert hafi gerst. Þá kemur hreinskilni barnsins...) ÁL: Það er kúkafýla (sniff sniff, sogið upp í nefið til að vera viss) ÁL: Pabbi, það er vond lykt.

Íbúð til leigu

Gleðilegt árið og allt það. Nú er svo komið að íbúð okkar að Suðurbraut 16 í Hafnarfirði verður laus til útleigu í febrúarmánuði. Áhugasamir skulu hafa samband við mig í pósti finnur[at]finnur.com. Fín íbúð á sanngjörnum kjörum, hér eru helstu upplýsingar: Staðsetning: Suðurbraut 16, Hafnarfirði á 4. hæð, rétt við suðurbæjarlaugina Fermetrar: 91 í heildina, 86 íbúð með 5 fm geymslu á jarðhæð Herbergi: 2 svefnherbergi og stofa = 3 herb Svalir: Rúmgóðar (margra grilla) svalir sem snúa út að faxaflóa með útsýni upp á snæfellsjökul Endurbætur: Baðherbergi endurnýjað vorið 2005, blokk múrviðgerð, máluð ofl 2005 Rúmgóð og vel nýtt íbúð sem gott er að búa í. Skjótið póst eða bara hringið ef áhuginn er fyrir hendi.