Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá júní, 2005

Flutningar

Nú skal það gert heyrinkunnugt að við Hanna erum að flytja til Danmerkur með grislingana tvo. Þannig er mál með vexti að ég hef fengið vinnu hjá Microsoft, Vedbæk nánar tiltekið og mun byrja þar um miðjan ágúst. Já það er margt að gerast þessa dagana, Baldur bróðir flytur í Hafnarfjörðinn um mánaðarmótin. Þau verða á Hringbrautinni sem er bara rétt hjá Suðurbrautinni, verst að við skulum vera flytja burt...

Gifting

Það er ekki oft sem maður er gerður fullkomlega hlessa og kjaftstopp. En það tókst Baldri og Imbu sunnudaginn 29. maí þegar þau voru að skíra hana Emmu Ósk. Þannig var að þegar Pétur hafði klárað að skíra og hamingjuóskirnar höfðu farið hringinn, var lítið fararsnið á honum úr holinu við skírnarfontinn. Baldur bróðir var eitthvað svo þvalur á höndunum og ekki laust við að hann væri stressaður þegar hann sagði: "Heyrðu Finnur, talaðu aðeins við mig." Inn í svefnherbergi bak við luktar dyrnar teygði Baldur sig í hringaöskjur upp í hillu og spurði hvort ég væri til í að vera svaramaður ef þau Imba létu pússa sig saman. Já auðvitað. Ha núna? Já, núna. Svo hófst næsta athöfn, öllum að óvörum, og fyrr en varir voru Baldur og Imba gift! Það tók nú nokkra dagana að meðtaka þetta, en ég er rosa ánægður með þetta hjá þeim. Til hamingju!

Undir kalstjörnu

Undir kalstjörnu, Sigurð Á Magnússon. 1979. Eftir langan dvala í bókarlestri vegna mikilla anna og stórviðburða, þá fór ég í hálfrökkrinu í gærkvöldi upp í skáp og greip eina skrudduna úr Gummahillunni. Það reyndist vera Undir kalstjörnu eftir Sigurð Á Magnússon. Hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðulandaráðs 1980, árið eftir að hún kom út. Ég náði nú aldrei að klára þessa held ég. Það fór allt á fullt í að klára undirbúning Danmerkurflutninganna. Svo skilaði ég bókakassanum til eiganda síns, Gumma þ.a. að bókin var ekki lengur í mínum höndum.