Nú tel ég mig vera jarðbundinn mann en af og til fer ég að hugsa hvort hjátrúin hafi læðst að mér aftan frá. Í gærkvöldi fór afmælisbarnið hún Ásta Lísa að sofa í allra fyrsta falli og Baldur líka. Þá lét ég þau orð falla í bríarí að það væri nú of gott til að vera satt (sbr orð Bigga Bjarna á sólbökuðu þakinu, veðrið var svo gott að það gæti ekki vitað á gott), eitthvað hrikalegt hlyti að vera að bresta á...
En ekki voru það neinar hamfarir sem dundu yfir okkur, heldur virðist sem Ásta Lísa ætli að hefja afmælisdaginn sinn í einhverjum veikindum. Hún er alla veganna búin að vera að vakna nokkrum sinnum í nótt og var ekki eins og hún á að sér að vera í morgun. Eitthvað tuskuleg greyið, gæti verið augntannapirringurinn. Hún var svo ómöguleg greyið að daman fékk stíl og lagðist til hvílu fyrir rúmlega 2 tímum síðan. Vonandi hressist daman og kemur skríkjandi niður og fer að rífa í allar skúffur og hurðir eins og hún er vön.
Það hefur nefnilega æði oft verið þannig að þegar við Hanna nefnum það hvað það er nú orðið langt síðan blessuð börnin veiktust að þá er það eins og við manninn mælt að það skellur á með hita og hor næsta dag. Tilviljun?
Mikið er gott að heyra í vinalegu röddunum af Rás 2, þó sérstaklega Sveini í hádegisfréttunum þrátt fyrir að umræðuefnið væri mér ekki nákomið: hækkandi fiskverð Icelandic Group í Asíu.
Jæja best að kíkja á hvernig skinkunni vegnar í soðferlinu og setja hjónabandssælurnar inn í frystinn. Hanna og Baldur eru úti í hjólatúr til Holte. Þau ættu nú aldeilis að fá loft í lungun því það blæs svolítið hérna þessa stundina og laufblöðin feykjast unnvörpum af trjánum. Haustið er komið.
Ummæli