Fara í aðalinnihald

Frídagar

Frímann sagði:

{mosimage}Þessa dagana erum við svo lukkuleg að ég hef átt frí frá og með miðvikudeginum og stendur það fram á mánudag. Það er nú samt ekki þannig að legið sé með tærnar upp í loft heldur verður jú að hafa eitthvað fyrir stafni þannig að ungviðinu, jafnt sem hinum fullorðnu, fari ekki að leiðast. Þá er farið á kreik og ýmislegt getur þá gerst.

Fríið hófst þó með barna(g)ælum...


Aðfaranótt miðvikudagsins var slegið Söllerödmet í rúmskiptingum þegar frumburðurinn skilaði kvöldmatnum sínum á koddann milli foreldra sinna. Snör og samhent handtökin í haustmyrkri næturinnar sáu til þess að nýtt lín var senn komið á hjóna(leysa)rekkjuna. Fyrsta barna(g)ælan hafði látið sjá sig.

{mosimage}Fyrsti frídagurinn var notaður til að flysja hið úr sér gengna og grámuskulega gólfteppi af svefnherbergisgólfinu. Drjúgur tími fór í að skrapa af límklístrið eftir að filtferningunum, sem mynduðu undirlagið, með hjálp Red Devil sparslspaða og drjúgu magni af hreinisbensíni. Fjórðungshluti svefnherbergisins er nú prýddur hinu ágæta parketi sem undir tappinu bjó.

Við náðum svo í Baldur í leikskólann um þrjú og skelltum okkur í Grísinn (slangur heimamanna yfir Nærumbanen) inn í Jægersborg, þaðan í S-tog til Gentofte og svo upp í leið 176 til IKEA þar sem átti að versla verðlaunin hans Baldurs í Toys 'r us: Gítar. Ekki höfðum við gengið marga metra þegar barna(g)æla númer tvö leit dagsins ljós, þar var það Ásta Lísa sem lét til sín taka.

{mosimage}Þá voru góð ráð dýr! Útlitið var ekki gott, öll föt og kerrupokinn út í hádegismat dagsins og ekkert til skiptanna. En aftur voru slegin met, í þetta sinnið var það Gentoftemet í gangstéttarklæðaflettingum. Innan skamms sat Ásta Lísa í kerrunni á ný, innvafin í peysuna af mömmu sinni og í kerrupokanum á röngunni. Þá var brunað í nærstaddann Rúmfatalagerinn og verslaður á öðru hundraðinu sá skærbleikasti fatapakki í norðanverðri Evrópu. Á svipstundu milli koddarekkanna var Ásta komin í ný föt. Allir voru þá klárir til að byrja að versla.

Það er skemmst frá því að segja að gítarinn var keyptur sem og þessir fínerís Creative hátalarar í "Elko" þannig að nú er sko heldur betur hægt að hlusta á Rás 2 og aðra landa sína í víðóma bassaveislu. Í dag fórum við í Lyngby af gömlum vana og er það ekki í frásögur færandi. En þessa stundina er allt með kyrrum kjörum hér á bæ þar sem heimilisfólkið hefur það huggulegt: Ásta sofnuð, Baldur að horfa á Emil, Hanna týnd í talnaveröld Sudoko en ég sit hér við tölvuna með góðvini mínum Tuborg.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Úps!

Svið: Á leið heim í lestinni sunnudagskvöldið 4. janúar Persónur: fjölskyldan situr með 4 stk ferðatöskur, nýkomin úr flugi frá 2 viknar fríi á Íslandi Ásta Lísa (ÁL): Pabbi, ég þarf að pissa Pabbinn (ég): Ok, klósettið er bara hérna rétt hinu megin við hornið. Taktu í hendina á mér, lestin vaggar svolítið og við gætum dottið. Hérna er þetta. Prófaðu að ýta á takkan, þá opnast hurðin (ÁL ýtir á takkann og við blasir miðaldra feitlaginn maður sem situr á salerninu "í hægðum sínum") Ég: Úps, fyrirgefðu. Vissi ekki að það væri ólæst. (ýti aftur á takkan og loka hurðinni aftur. Það kemur ekki í veg fyrir að 2,27 rúmmetrar af geigvænlega fúlu þarmalofti sleppa fram í ganginn. Við röltum til baka og setjumst í sætin sposk á svip. Allir í vagninum skilja og finna lykt af því sem gerðist. Vandræðaleg brosin og allir reyna að láta sem ekkert hafi gerst. Þá kemur hreinskilni barnsins...) ÁL: Það er kúkafýla (sniff sniff, sogið upp í nefið til að vera viss) ÁL: Pabbi, það er vond lykt.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var