Jæja, þá er allt rólegt í kotinu og því ætla ég að gefa mér tíma í að skrifa í stað þess að gera e-ð af þeim 1000 verkum sem bíða. Sorrý Finnur ;-) Ég ætla að hefja skrifin á því að útskýra hvað ég eigi við með þessum titli.
Ég fór út í búð á föstudaginn og sá að ég gat keypt þessar líku fallegu rósir fyrir lítinn pening. Það er að segja að ég keypti 20 rósir fyrir 20 dkr. Þetta finnst mér gaman því að mér finnst gaman að hafa rósir í kringum mig. Mér finnst bara ekki eins gaman að kaupa blandaðan vönd í Bónus fyrir 700 kall, sá vöndur gerir bara svo lítið fyrir mig.
Í dag datt inn um bréfalúguna dagatal fyrir árið 2006 og það eru ekki þessi hundleiðinlegu bankaflettirugldagatöl. Þetta er bara eitt spjald sem hægt er að setja t.d. á ísskápinn. Öðrum megin er fyrri hluti ársins og hinum megin hinn. Gott að það sé svona vel í tíma því þá get ég farið að undirbúa mig. Þið sem mig þekkið vitið nú hvað ég hef gaman að því! Og munið hvað ég var að segja við hana Kristínu, ég mun láta vita af pússningunni, þ.e.a.s. þegar af henni verður. Bara róleg nú ;-)
Eftir að hafa eytt gærdeginum hjá Dagnýju og Hirti (btw. takk kærlega fyrir okkur) þá fórum við með Metro niður á Nørreport. Þar komum við 30 sek of seint til þess að ná A-lestinni til Holte. Við þurftum því að bíða í 11 mín. sem var allt í lagi því við vorum í svo góðum félagsskap, þ.e. hvors annars (mússímúss). Á brautarpallinum var einn ógæfumaður og hann var svo útúr heiminum að hann náði ekki að halda augunum opnum, og ráfaði því á milli fólks, sem vildi sem minnst af honum vita. Við Finnur vorum að spjalla e-ð saman þegar mér verður litið til hliðar og sé aumingja manninn ganga fram af brautarpallinum og detta niður á teinana. Sem betur fer voru 4 mínútur í næstu lest og sem betur fer voru menn nálægt sem drógu hann upp. Mikið rosalega held ég að það sé ömurlegt að vera í hans sporum, vera engu/engum til gagns né gamans. Mér varð það nú á orði að segja hann vera bagga. Ég veit ekki hvað ykkur finnst um það?? En allavega hann var heppinn að búa í Danmörku þar sem ógæfumönnum er veitt aðstoð.
Svo kemur að því síðasta, í bili amk., en það er jólagjöfin í ár. Hjá L'EASY er hægt að kaupa Philips Solarium og NY Philips Senseo fyrir aðeins 3575 dkr. Þetta er reyndar notað en virkar. Hver hefur ekki einmitt þörf fyrir ljósabekkjastand og kaffikönnu í einni og sömu gjöfinni. Fínt fyrir skammdegisþunglynda, ljós til að hífa upp sálina og kaffi til þess að sparka kroppnum af stað. Brillíjant!!
Jæja er ekki nóg komið af þessu góða við Danmörk, það mætti halda að maður væri beiskur Íslendingur og því fer fjarri.
Það er eitt sem hefur valdið okkur vonbrigðum hér og ég veit núna ekki hvort það sé bundið við kommúnuna sem við búum í, þ.e. Søllerød kommune. En umhverfisvernd virðist skammt á veg komin hjá íbúum hennar. Við sem vorum svo dugleg heima verðum hálfpartinn að játa okkur sigruð. Fólk hér virðist henda öllum blöðum út í tunnu, þrátt fyrir að gámur fyrir blöð sé í nágrenninu, og trúið mér það er ansi mikið magn af ruslpósti hér sem kemur inn um lúgur. Við reynum okkar besta og getum losað okkur við blöð og gler auðveldlega en verra er með ál/járn, batterí og pappa. Ég er farin að halda að það sé ekkert öðruvísi hér í landi en t.d. á Íslandi að fólki virðist skítsama um allt svona nema að það komi við budduna. Þá er eins og það sé alveg sjálfsagt að passa upp á það sem frá okkur fer. Hvernig haldið þið að það verði þegar það fer á fullt heima að strikamerkja og vigta ruslatunnur frá heimilum. Annað hvort fer fólk að verða duglegra í endurvinnslu/nýtingu, fer að fá sér moltukassa o.þ.h. eða þá að það fer að henda í tunnur hjá öðrum;-)
Oh hvað er nú gott að geta bara verið hér ein og þusað og þurfa ekki að svara mótrökum annarra. Thíhíhí.... En segið bara endilega til ef það er e-ð!!
Ég kveð í bili, er komin í kaffiþörf og etv. eina Sudoku! Aldrei að vita nema ég ljúki við þessu frábæru bók fyrir jólin - takk Ásta mín!
Ástarkveðjur til ykkur í heiminum.
Hanna
p.s. Mér finnst svo gott að hlusta á Rás 2. Ég elska Ríkisútvarpið og tæknina!
Ummæli