Fara í aðalinnihald

Hæ á ný

Snigillinn sagði:

Var að spá í að leggjast upp í sófa og slaka á en finnst þið eiga skilið að heyra aðeins frá mér. Ef þú ert sammála þá geturðu lesið aðeins meira....

 


Hef e-n veginn ekki haft mikið að segja þessa vikuna og það var ekkert sökum þynnku L Verð víst að biðjast afsökunar á síðustu frétt minni. Ég drakk nú ekkert 2 flöskur á laugardagskvöldið. Við drukkum saman um eina flösku og áttum "hygge nygge" kvöld. Í stað þess að segja að ég hafði ekkert að segja var einhver púki sem ákvað að skrifa þetta. Svo ég biðst forláts ........

Ég er að hlusta á nýja diskinn með Anne Linnet. Ég er að fara á tónleika með henni í lok nóvember, með Írisi, Möggu, Kollu og Steinunni. Ég hlakka til. Ég verð eiginlega bara að fara í að kynna mér aðeins betur gömlu tónlistina hennar svo ég verði almennilega með á nótunum á tónleikunum. Mér finnst of mikið af því að danskir tónlistarmenn syngja á ensku og því fær hið fagra tungumál, danskan, ekki að njóta sín. En Anne syngur svo fallega á dönskunni og textarnir hennar eru snilld. Ég mæli með að þið kíkið á www.linnetsongs.dk.

Við mæðgurnar fórum í bæinn í dag. Þar sem við sátum í S-tog á leið til Køben komu inn maður með harmoniku og stelpa um tvítugt með honum. Hann spilaði og hún betlaði peninga. Ég veit að eflaust eru þetta fordómar í mér en ég hugsaði um leið; "af hverju fær þetta fólk sér ekki vinnu?" og í kjölfarið fór ég yfir ýmsar rökfærslur í huga mér. En komst að þeirri niðurstöðu að ég var ekki sátt við þetta. Mér fannst spileríinu upp á mig þröngvað, því að ekki er ég að njóta þess og það er e-ð sem pirrar mig við svona uppákomur. En svo lengi fólk lætur þau fá (svarta) peninga þá koma þau aftur. Ég þarf væntanlega ekki að taka það fram að þau fengu enga peninga frá mér.

En að fara í bæinn var gaman. ÁLF var í himnasælu því að ég fór með hana í kerrunni hans BFF og henni finnst það svo gaman. Hún var í svaka góðu skapi, stríddi mér aðeins eins og henni er einni lagið og hló mikið. Svo var hún sofnuð áður ég vissi af og svaf á sínu græna. Við náðum svo snemma í hann BFF og fórum heim. Það er svo gott að hafa þau bæði, þó svo að það sé líka svo gott að fá smá frí ;-) Ég keypti föt í H&M í dag og m.a. Batman bol á BFF. Hann var svo glaður þegar hann sá hann að það var bara "beint í bolinn" og svo keyptum við baunir í búðinni áðan og það voru auðvitað Batman-baunir.

Ætli ég fari ekki að kveðja ykkur núna, héðan úr rigningunni. Það er mikil rigning og algert logn svo að hér er lóðrétt rigning, þessi sem okkur Íslendingum finnst svo mikil útlandarigning, ekki satt? Það er svo spáð áfram rigningu á morgun og ég er ekki alveg sátt við það, við sem ætluðum að fara í verslunarferð og hjólatúr. En við sjáum til hvað verður úr.

Ég sendi ykkur ástarkveðjur og vona að þið eigið góðar stundir um helgina!
Hanna

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr