Fara í aðalinnihald

Undarlegt

Freðfinnur sagði:
Helgin hjá okkur var um margt frekar undarleg þótt hún hafi í sjálfu sér ekki verið mjög viðburðarrík. Ekki nálægt því eins viðburðarrík eins og dagarnir eru hjá henni Ástu okkar sem er sennilega núna í þessum töluðu orðum að knúsa Rachid sinn í Morokkó. Undarlegt að hún sé flogin suður á bóginn eins og farfuglarnir....

Á laugardagsmorguninn var undarlegt að koma niður í stofu og sjá auðan svefnsófan þar sem Ásta hafði bylt sér undanfarnar nætur. En hún var farin til London í einn sólarhring að bíða eftir aðalfluginu: til Marokkó á fund Rachids, hvorki meira né minna.

Þennan morguninn mátti vægt orða það sem svo að Baldur Freyr hafi vaknað á röngunni, enda var Ásta Lísa að ræsa fjöskylduna fullsnemma þarna klukkan hálf sjö. Morgunverkin höfðu nú samt sinn vanagang og okkur datt svo í hug að annað okkar færi með Baldur Frey í sundhöllina sem við höfðum svo lengi ætlað okkur. Aðeins að viðra frumburðinn og gera eitthvað skemmtilegt.

{mosimage}Það varð því úr að við feðgar hjóluðum til Nærum í Rundforbihal sundhöllinna. Ég borgaði okkur ofaní hjá stærðfræðiþenkjandi afgreiðslustráknum og fann karlaklefann. Sem var svo undarlega tómlegur að ég hélt að við værum að villast. En þetta var alveg rétt hjá okkur og þá var bara drifið sig í sturtu, sundskýlur, ermakúta og svo út í laug.

Undarlega ísköld var laugin og langt frá því sama paradísin og sundlaugin í Hróarskeldu sem við fórum í með Jónasi, Hirti og krökkunum í síðasta mánuði. Baldur Freyr reyndi að harka þetta af sér en hann var alveg blár og hríðskjálfandi, enda vantar allan verndarhjúp á hann eins og faðirinn hefur svo haganlega komið sér upp í gegnum árin. Soldið súrt að þurfa að fara eiginlega bara strax upp úr, en það var víst ekki um annað að ræða þegar tennurnar glömruðu bara bak við bláar varirnar á Baldri og eistu föðursins voru á hraðri leið upp í handarkrika.

{mosimage}Baldri fannst eiginlega bara skemmtilegasti hluti sundferðarinnar að leika sér í klefanum á meðan við vorum að klæða okkur. Þegar það kom svo loksins að því að klæða sig í sokka og skó, þá brá svo undarlega við að ég fann hvergi sokkana mína! Ég reif allt upp úr töskunni aftur og leitaði þar ásamt því að kíkja inn i alla opna skápa ef ske kynni að ormurinn hefði verið að koma þeim fyrir þar. En ég endaði á því að hjóla heim berfættur í skónum, sokkunum fátækari, þannig að í heildina séð var þessi sundferð ekki mikil frægðarför.

En ég var ekki sá eini fáklæddi í bænum þennan laugardaginn. Um kvöldið þegar við vorum á leiðinni heim frá kaupmanninum að versla nýsjálenska lambasteik, hvatti Hanna mig eindregið til að kíkja inn á fasteignasöluna í endanum. Sem ég og gerði og viti menn: þar sat einn undarlegur fýr við tölvuna með tónlistina í eyrunum alveg niðursokkinn í sínum heimi. Og hvað var svona skrýtið við hann? Tja, hann var bara ber að ofan. Ekki að neðan þó, ég gáði vandlega að því ef ske kynni að ég gæti séð hvort hann hefði kannski stolið sokkunum mínum þarna um morguninn.

Undarlegt!

 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr