Skrýtið þetta andleysi sem hellist oft yfir mig þegar ég er sest við tölvuna og ætla að skrifa e-ð. Eins og heilastarfsemin leggist af. Flakka þá á milli síða og geri í raun ekki neitt. En nú er kominn tími til að skrifa því að langt er síðan síðast.
Heil vika ... og þá er bara að rifja upp. Valla og Sæmi komu á miðvikudaginn sl. Og voru fram á laugardag. Ljúft það og börnin sérlega hrifin. Við bjuggumst við að ÁLF myndi vera e-ð feimin við þau en ekki aldeilis. Þegar ég og Valla sóttum hana í Legestuen á fimmtudaginn var alveg spurning hvort ÁLF vildi meira til mín en ömmu sinnar. Gott mál! Við fórum í Experimentarium á fimmtudaginn og í Tivoli á föstudeginum og skemmtum okkur vel þrátt fyrir að frostið biti ansi skart í kinn.
Á laugardagskvöldið fór ég í bæinn, fékk s.s. bæjarleyfi hjá manninum en þið sem hann þekkið þá gerist það ekki oft ;-) Ég fór og hitti Jenný, Silju, Berglindi og Ellen. Seinna komu svo Davíð og Sanne. Við borðuðum á Ankara sem er tyrkneskur veitingastaður á Vesterbrogade og fórum svo á bar á Istedgade. Ljómandi fínt.
Á veitingastaðnum voru Danir sem fóru að spjalla við okkur og e-ð barst talið að því hvort við værum ekki enn undir Dönum og það að við værum að kaupa upp alla Kaupmannahöfn (sbr. Merlin, Magasin, Illum etc.). Jenný var ekki par hrifin af því að vera sett undir Danina og nýtti því tækifærið þegar komið var inn á öll kaupin, og svaraði "já og næsta sem við Íslendingar munum kaupa er tungumálið og þá munuð þið öll þurfa að tala íslensku!" Ansi gott hjá þér stelpa :-)
Sunnudagurinn var rólegur, við hjóluðum til Holte og fórum á bókasafnið með krakkana.
Og nú er komin ný vika með sól í hjarta og sól í sinni. Ég bið fyrir ástarkveðjum til ykkar allra um allan heim og vona að þið nýtið daginn í dag til hins ítrasta!!
Hanna.
Ummæli