Já það var einmitt stóra spurningin sem leitaði á okkur í dag er við lögðum leið okkar til Kaupmannahafnar en skýringin kom fljótt í ljós.
Við vorum ekki fyrr mætt í pulsuvagninn nærri Vesterport station en íslenskan hljómaði um allt. Og áður en margar mínútur liðu hittum við hana Rósu Lyng. Hún útskýrði fyrir okkur alla þessa Íslendingamergð. Haukar voru víst að spila við Århus í handboltanum og Sálin hans Jóns míns er á Vega í kvöld. Það voru víst ansi mörg starfsmannafélög og saumaklúbbar sem sáu sér leik á borði og fylktust til Kongens København. Ég er ekkert að grínast með að það var nánast eins og að vera í miðbæ Rvk, svo margir voru Íslendingarnir. Ég óska því öllum þeim sem leggja leið sína á Vega í kvöld góðrar skemmtunar.
Sibbý - hún Rósa bað fyrir sérlega góðri kveðju til þín!
Við hittum Dagnýju og Kolbein Hrafn á Rådhuspladsen og Hjörtur hitti okkur svo stuttu seinna í Kongens Have. Við eyddum svo deginum með þeim og höfðum það gott. Þeir eru svo frábærir saman Baldur Freyr og Kolbeinn Hrafn, og gaman að fylgjast með samskiptum þeirra.
Það er eitt sem við Finnur verðum að fara að gera betur í skipulagningu. Okkur gengur nefnilega svolítið erfiðlega að láta lestar og strætisvagna passa saman og því endar það ansi oft með því að við þurfum að ganga heim frá Holte. Þannig var það líka í dag og við gengum heim í grenjandi rigningu. Við vorum nánast vot upp að hnjám ;-)
En heim erum við komin og notalegt kvöld framundan. Ég bið fyrir kærri kveðju til ykkar og vona að þið njótið kvöldsins.
Hanna
p.s. ef svo skyldi vilja að engin skrif verði á morgun, þá þjófstarta ég og óska honum Þorláki Lúkasi til hamingju með árin 2. Ástarkossar og knús frá Søllerød.
Ummæli