Netsambandið er ekki upp á sitt besta þessa dagana, dettur inn og út. Pirrandi. Sérstaklega þar sem þetta er sambandið við umheiminn. Ýmislegt er búið að gerast síðan minn heittelskaði skrifaði hér inn síðast.
Ásta Lísa er eins og netsambandið, ekki alveg upp á sitt besta. Það er samt ekki hægt að benda á neitt annað en tennurnar en þær eru að koma hver af annarri. Hún er ekki alveg eins kát og hún á að sér að vera og móðursjúk er hún sem aldrei fyrr. Ég fór með hana til dagmömmunnar, Joan í morgun. ÁLF var mjög vör um sig og grét dramatárum þegar mamman dirfðist að fara á klósettið. Henni fannst ég ansi hörð við sig. Á morgun mun ég fara með hana og skilja hana eftir. Ég verð að viðurkenna að ég er með smákvíðahnút í maganum yfir því. En hún hlýtur að læra þetta, er það ekki?
En þar sem bæði börnin eru komin í dagvistun þá get ég víst farið að huga að sjálfri mér. Hvað vil ég? Það er skrýtin spurning en svarið hlýtur að líta dagsins ljós einhvern daginn.
Ekki það að ég hafi ekki nóg að gera. Það þarf að klára að taka teppið af svefnherberginu, það er eflaust 12 - 15 klst. vinna. Það þarf að mála ganginn uppi og snurfusa aðeins. Síðan er tengdó að koma í heimsókn og Íris&Magga líka svo að það verður gaman og nóg að gera. Það þarf að fara með ÁLF til tannlæknis og fara með hana í pencilín-ofnæmispróf. Síðan eru jólin á næsta leiti.
Þannig að ég get alveg látið tímann líða. En þrátt fyrir það þarf ég að svara spurningunni J
Þau ykkar sem stoppuðu við það að fara með ÁLF til tannlæknis þá er það víst þannig hér að foreldrar/börn fá viðtalstíma hjá tannlækni þar sem farið er í gegnum umhirðu tanna hvað varðar heilbrigði, lyfjagjöf, drykkjarvenjur, snuðnotkun o.s.v. Mér líst vel á þetta og hlakka til að sjá hvernig verður.
Hvað titilinn varðar þá er ég að spá í hvort e-ð sé farið að gerast hjá henni vinkonu minni. Er það nokkuð?? Allt í rólegheitum ennþá?? Eins og við töluðum um í símann þá getur verið ansi pirrandi að fá sömu spurningarnar aftur og aftur og aftur og ..... og ég ætla því ekki að hringja/skrifa til þess að spyrja. En mikið væri ég til í annað samtal eins og um daginn. Það var skemmtilegt. Það fór fram með aðstoð Skype-sins.
Jæja ætli ég láti ekki staðar numið. Kaffiþörfin gerir vart við sig, eins og áður. Kannski að ég taki eina Sudoku með bollanum!!
ÁSTUkveðjur frá Søllerød yfir allan heiminn.
Hanna
Ummæli