Fara í aðalinnihald

Koma hinnar eðalbornu

Ég hef verið hér eins og útspýtt hundskinn við þrif á íbúðinni og ekki vanþörf á. Það sem dreif mig hvað allra mest áfram var að von er á hinni umhverfisvænu á hverri mínútu.


Hún Sibbý systir mín er nefnilega að koma bara rétt bráðum og er nú í þessum skrifuðu orðum eflaust að lenda á Kastrup. Mikið hlakka ég til. Ryksugan hlakkaði greinilega líka til vegna þess að hún fór hreinlega yfir um af spenningi. Þegar það gerðist dreif ég mig í að slökkva á vélinni og koma henni út fyrir svona ef e-r eldur væri í uppsiglingu. Eftir smátíma afréð ég að kíkja á hana og tók úr poka og filter, prófaði svo að setja hana aftur í gang og þá sté upp þessi mikli reykur úr öllum vitum vélarinnar. Hún er því úrskurðuð látin eða í það minnsta mikið biluð.

Þá kemur einmitt upp umhverfissjónarmiðið, eigum við að gera við vélina eða kaupa nýja þar sem báðir möguleikarnir geta kostað jafnmikið. Umhverfislega séð ættum við að gera við vélina, því betra er að endurnýta en að henda og kaupa nýtt. Við eigum eftir að funda um þetta mál og komast að niðurstöðu. Læt ykkur etv. vita þegar það að kemur!?!

Aftur að umhverfismálum, og ekki fjarri lagi þar sem hún Sibbý mín tók á móti umhverfisverðlaunum Ferðamálaráðs Íslands ekki alls fyrir löngu.

Hafið þið e-n tíman velt fyrir ykkur magninu af hreinlætisvörum sem við sendum frá okkur út í náttúruna? Og eru allar þessar hreinlætisvörur nauðsynlegar eða erum við fangar markaðsaflanna? Mín skoðun er sú að það eina sem við þurfum til þess að þrífa heimilið okkar (að klósettinu etv. undanskildu) er heitt vatn. Það er samt ekki endilega svo að það sé það eina sem ég nota. Eins ef við lítum á það gríðarlega úrval sem við höfum af þvottaefnum. Fyrir það fyrsta; hversu rosalega eru fötin okkar skítug og í öðru lagi þá er það alveg ótrúlegt að þegar nýtt efni kemur á markaðinn (og það virðist alltaf þurfa meira og meira magn í hvern þvott - skrýtið?) þá er eins og það sem áður var best sé bara nothæft því að þetta nýja er algerlega málið og það langbesta, sbr. auglýsingarnar.
Þetta getur ekki verið gott fyrir náttúruna og því vil ég biðja ykkur í þetta sinnið að leiða hugann að þessu næst þegar kemur að notkun á hreinlætisvörum. Hafðu það í huga að þú ert bara einn af svo fjöldamörgum sem notar þessi efni og því ættum við að reyna að minnka magnið sem við notum. Það besta er náttúrulega að skipta yfir í umhverfisvænar hreinlætisvörur, þó svo að þær komi aðeins við pyngjuna í dag þá eru þær náttúrunni til framdráttar fyrir komandi kynslóðir.

Eitt umhugsunarefni til viðbótar og það er blessað vatnið okkar. Ert þú ein/n af þeim sem lætur vatnið renna umhugsunarlaust, t.d. þegar þú ert að tannbursta þig eða ætlar að fá þér eitt glas af köldu vatni? Oftast er þetta vegna þess að við höldum að það verði alltaf til nóg af vatninu. Hugsaðu þér þá barnið þitt, í nútíð eða framtíð, sem myndi eyða peningum eins og það væri nóg til af þeim. En ástæðan fyrir því að nóg væri af þeim væri sú að þú hefðir unnið hörðum höndum til þess að eignast peningana. Hvað gerðist svo ef þín nyti ekki lengur við? Það er hægt að hugsa það sama með náttúruna, hún hefur unnið hörðum höndum til að viðhalda ferska vatninu en hvað myndi gerast ef hún gæti það ekki lengur?? Spáum aðeins í því!
Jæja ætli ég sé ekki búin að skrifa nóg, eflaust eru nú e-r hættir að lesa og búnir að skrifa ímynduðum stöfum "tuð" yfir tölvuskjáinn hjá sér. Ég kveð því í bili og vona að þið hafið það sem allra best í hreinni náttúru og hreinu lofti!

Kys og kram
Hanna

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...