Ég hef verið hér eins og útspýtt hundskinn við þrif á íbúðinni og ekki vanþörf á. Það sem dreif mig hvað allra mest áfram var að von er á hinni umhverfisvænu á hverri mínútu.
Hún Sibbý systir mín er nefnilega að koma bara rétt bráðum og er nú í þessum skrifuðu orðum eflaust að lenda á Kastrup. Mikið hlakka ég til. Ryksugan hlakkaði greinilega líka til vegna þess að hún fór hreinlega yfir um af spenningi. Þegar það gerðist dreif ég mig í að slökkva á vélinni og koma henni út fyrir svona ef e-r eldur væri í uppsiglingu. Eftir smátíma afréð ég að kíkja á hana og tók úr poka og filter, prófaði svo að setja hana aftur í gang og þá sté upp þessi mikli reykur úr öllum vitum vélarinnar. Hún er því úrskurðuð látin eða í það minnsta mikið biluð.
Þá kemur einmitt upp umhverfissjónarmiðið, eigum við að gera við vélina eða kaupa nýja þar sem báðir möguleikarnir geta kostað jafnmikið. Umhverfislega séð ættum við að gera við vélina, því betra er að endurnýta en að henda og kaupa nýtt. Við eigum eftir að funda um þetta mál og komast að niðurstöðu. Læt ykkur etv. vita þegar það að kemur!?!
Aftur að umhverfismálum, og ekki fjarri lagi þar sem hún Sibbý mín tók á móti umhverfisverðlaunum Ferðamálaráðs Íslands ekki alls fyrir löngu.
Hafið þið e-n tíman velt fyrir ykkur magninu af hreinlætisvörum sem við sendum frá okkur út í náttúruna? Og eru allar þessar hreinlætisvörur nauðsynlegar eða erum við fangar markaðsaflanna? Mín skoðun er sú að það eina sem við þurfum til þess að þrífa heimilið okkar (að klósettinu etv. undanskildu) er heitt vatn. Það er samt ekki endilega svo að það sé það eina sem ég nota. Eins ef við lítum á það gríðarlega úrval sem við höfum af þvottaefnum. Fyrir það fyrsta; hversu rosalega eru fötin okkar skítug og í öðru lagi þá er það alveg ótrúlegt að þegar nýtt efni kemur á markaðinn (og það virðist alltaf þurfa meira og meira magn í hvern þvott - skrýtið?) þá er eins og það sem áður var best sé bara nothæft því að þetta nýja er algerlega málið og það langbesta, sbr. auglýsingarnar.
Þetta getur ekki verið gott fyrir náttúruna og því vil ég biðja ykkur í þetta sinnið að leiða hugann að þessu næst þegar kemur að notkun á hreinlætisvörum. Hafðu það í huga að þú ert bara einn af svo fjöldamörgum sem notar þessi efni og því ættum við að reyna að minnka magnið sem við notum. Það besta er náttúrulega að skipta yfir í umhverfisvænar hreinlætisvörur, þó svo að þær komi aðeins við pyngjuna í dag þá eru þær náttúrunni til framdráttar fyrir komandi kynslóðir.
Eitt umhugsunarefni til viðbótar og það er blessað vatnið okkar. Ert þú ein/n af þeim sem lætur vatnið renna umhugsunarlaust, t.d. þegar þú ert að tannbursta þig eða ætlar að fá þér eitt glas af köldu vatni? Oftast er þetta vegna þess að við höldum að það verði alltaf til nóg af vatninu. Hugsaðu þér þá barnið þitt, í nútíð eða framtíð, sem myndi eyða peningum eins og það væri nóg til af þeim. En ástæðan fyrir því að nóg væri af þeim væri sú að þú hefðir unnið hörðum höndum til þess að eignast peningana. Hvað gerðist svo ef þín nyti ekki lengur við? Það er hægt að hugsa það sama með náttúruna, hún hefur unnið hörðum höndum til að viðhalda ferska vatninu en hvað myndi gerast ef hún gæti það ekki lengur?? Spáum aðeins í því!
Jæja ætli ég sé ekki búin að skrifa nóg, eflaust eru nú e-r hættir að lesa og búnir að skrifa ímynduðum stöfum "tuð" yfir tölvuskjáinn hjá sér. Ég kveð því í bili og vona að þið hafið það sem allra best í hreinni náttúru og hreinu lofti!
Kys og kram
Hanna
Ummæli