Í dag er 4. nóvember, J-dagur og veðrið alveg hreint yndislegt. Hér er um 12 stiga hiti, fá ský á lofti og hellingur af laufblöðum á trjánum ennþá. En von er á snjókomu. Ég er hrifin af þessu! Stórt skref var stigið í dag ....
Snjókoma?? Já mikið rétt, því í kvöld kl. 20.59 mun fyrsti snjórinn falla til jarðar og honum mun eflaust fylgja gleði. Snjórinn er í formi bjórs og það er Tuborg sem gefur kassavís af honum í kvöld. Við munum ekki taka þátt í gleðinni nú í ár (kannski næsta ;-) ) en aldrei að vita nema ég versli e-n góðan bjór til þess njóta í kvöld.
Í dag er hún Ásta Lísa ein í fyrsta sinn hjá dagmömmunni sinni og nú eru komnir tveir tímar frá því að ég fór með hana og enn ekkert heyrst svo að það hlýtur að ganga þokkalega. Þetta er ansi stórt skref fyrir okkur mæðgurnar og ekki frá því að ég sé með hálfgert samviskubit að sitja hér við tölvuna. Ég hlakka til að fara að ná í hana nú eftir um klukkutíma og heyra hvernig hefur gengið. Hún er nú reyndar soddan félagsvera að ég held að hún komi til með að njóta þess að vera í félagsskap annarra barna.
Það er alltaf jafngaman hvað heimurinn er lítill. Á sunnudaginn sl. hitti ég hana Helgu kennara úr Húsó á götu í Kaupmannahöfn. Við vorum að fara yfir götu hjá Nørreport þar sem ég heyri íslensku, lít til hliðar og þar var hún Helga og maðurinn hennar. Mér finnst gaman að hitta Helgu.
Enn og aftur er ég glöð!! Hún Ásta systir mín er að koma á þriðjudaginn og hún ætlar að vera fram á laugardag. Ég er með ýmsar hugmyndir um hvað verður gert en ætli ég beri það ekki undir hana áður en framkvæmt verður. Hún er jú stóra systirin! Mikið hlakka ég til að þú komir elsku sys!
Og enn af heimsóknum því að nú hafa mor&far&Anja studd við bakið á íslenskum flugiðnaði. Von er á þeim 26. desember og heimferð rétt fyrir nýja árið. Nú hef ég ennþá meira til að hlakka til!!
Verið velkomin öllsömul :-)
Það er nú ekki oft sem ég horfi á Judging Amy en gerði það á þriðjudagskvöldið. Amy sagði svolítið sem hefur fengið mig til að hugsa, hún sagði "we have to look out for eachother, all of us". Það var verið að fjalla um mál tveggja manna, sem áður voru vinir en höfðu fetað mismunandi stíga í lífinu. Báðir voru þeir múslimar, annar heittrúaður en hinn ekki og sá átti kærustu sem ekki var múslimi.
Þó svo að þetta hafi verið atriði í sjónvarpsþætti þá held ég að þetta sé einmitt málið. Við þurfum að sýna hvort öðru aðeins meiri kærleik; hvernig svo sem við lítum út, hvaðan við komum, hvaða trú við höfum, hvaða fatasmekk, tónlistarsmekk, talgalla, útlitsgalla, eða bara hvað það nú er sem getur vakið viðbrögð. Stundum eru viðbrögð okkar við því sem er öðruvísi svo snögg og hvöss að við gleymum að líta í eigin barm. Við eigum jú öll okkar galla, suma sem við reynum að fela og aðra sem við reynum að vinna í. Við lítum líka mismunandi augum hvað eru gallar og hvað ekki, í mínum huga getur galli verið kostur en öfugt í þínum.
Ég ætla í kjölfarið af þessari hugleiðingu að biðja ykkur sem lesið þetta að hafa þetta bakvið eyrað. Reyndu að sýna aðeins meiri náungakærleik í dag en í gær, aðeins meira umburðarlyndi, aðeins meira af hinu góða. Ég er alveg sannfærð um að það sem við sýnum í dag fáum við tilbaka á morgun.
Kærleiksknús til ykkar allra og vona ég að helgin sem framundan er verði ein sú besta í lífi ykkar.
Hanna
Ummæli