Fara í aðalinnihald

Verslunardagur frá helv....

Grenjuskjóða sagði:
Já ég skal sko segja ykkur það. Það var verslað í dag og ég verð að viðurkenna að ég er bara ekki kona sem nýt þess að fara búð úr búð og versla af mér rassgatið. Enda skaust í huga mér svolítil hugsun í dag, og þykja það nú tíðindi ....

Ég hugsaði sísvona með mér að nú hlyti ég að ganga með þríburana og ef svo væri þá skyldi ég nú aldeilis eiga samtal við hann Þórð Óskars (sem er kvensjúkdómalæknirinn) því að hann ber ábyrgð á þessum málum, ef svo má að orði komast. Ástæðan fyrir spökuleríngum mínum varðandi óléttu kom til vegna þess að ég fór nú barasta að grenja í Lyngby í dag. Ég var að reyna að ná strætó til þess að komast til Gentofte, þar sem eru m.a. Elkó, Rúmfó og Ikea og tókst ekki betur til en svo að strætó leggur af stað er ég er uþb. að koma að honum. Ég geri með handahreyfingum ljóst að ég biðji um leyfi til þess að koma með en aumingja maðurinn sem var að keyra vagninn horfir á mig, eins og það væri ég sem væri auminginn, og hristir bara höfuðið; "nei nei þú færð ekki koma með mínum vagni!!!" Og vonbrigðin, reiðin og allt sem þessu fylgir helltist yfir mig og áður en ég vissi af voru tárin farin að renna. Ekkert sem ég gat gert eða hugsað gat stöðvað tárin en mikið fannst mér þetta hallærislegt. Hér stóð ég fullorðin manneskjan og grenjaði yfir því að missa af strætó. Já maður spyr sig??

Að öðru leyti var þetta ansi erfiður dagur (eins og þetta hafi verið svaka auðvelt), því að hann fólst í verslun af ýmsu tagi eins og áður kom fram. Þegar ég er í svona leiðangri gæti ég þess oft ekki að borða nóg svo að áður en ég veit af er ég komin með hausverk og á skjálftavaktinni. Þegar svo er komið þá fer þolinmæðisþröskuldur minn ansi lágt. Hann var eiginlega í lágmarki þegar ég hafði verslað í Ikea og ég gerðist bæði óheiðarleg og dónaleg. En ég get fullvissað ykkur um að ég fékk að borga fyrir það.

Málið er að ég var komin að kössunum í Ikea með þær vörur sem ég þurfti á að halda, þar á meðal var öryggishlið fyrir stigann - þar sem daman er farin að klöngrast upp á stigapall). Ég setti allar vörurnar upp á bandið nema hliðið sem var enn í kerrunni og ég ætlaði að láta afgreiðslustúlkuna lesa af strikamerkinu. Eitthvað gekk afgreiðslan hægt útaf e-u Dankorti og ég var farin að stara út í loftið. Síðan kom röðin að mér og ég tók á móti vörunum mínum og setti þær í töskuna, borgaði og gekk út. Þegar ég kom út varð mér litið í innkaupakerruna og þar var hliðið, algerlega óborgað. Ég byrjaði á að pirrast gríðarlega og ætlaði að fara inn, klukkan var orðin ansi margt og ég hugsaði svo bara með mér: fjandakornið, ég nenni ekki aftur inn, heillöng biðröð, ég verð seinni en ég nú þegar er og þetta er bara hennar mistök, bla bla bla - s.s. fór auðveldu og óheiðarlegu leiðina að þessu. Ég fór svo með innkaupakerruna og skilaði henni þar sem aðrar innkaupakerrur voru. Þar kom að starfsmaður Ikea (á kerrusviði) og benti mér á að þarna væru kerrur frá Ikea en ekki frá Toy's R'Us, en þaðan var kerran sem ég var með. Ég gerðist því líka dónarleg (eins og óheiðarleikinn hafi ekki verið nóg) og sagði að ég ætlaði mér nú samt að skilja eftir kerruna og þeir sem sæju um verslanirnar þyrftu bara að sjá um þetta. Og við það gekk ég í burtu. Á þessari stundu var ég búin að hringja eftir leigubíl og var því að bíða eftir honum þegar mér verður litið á hliðið og sé að á plastið hefur verið skrifað; defekt. Ég leit því betur á hliðið og sá að það var allt beyglað. Þetta var nú orðið ljóta vesenið, ekki nóg með að ég hafi ákveðið að stela vöru heldur stal ég gallaðri vöru. Og heim fór helv... hliðið og þegar ég hef jafnað mig á þessu þá mun ég kíkja betur á hliðið og sjá hvort við getum notað það. Nú annars fær það að fjúka út með ruslinu og Ikea er örugglega hlæjandi eins og púki, ánægt með að hafa losnað við gallaða vöru.

Það er nú alveg orðin spurning hvort ég ætti ekki bara að gerast kaþólsk og nota skriftarstólinn til þess að létta á syndum mínum .... eða nei nei, ég nota bara þetta blogg ;o)

Eitt svona smá af BFF áður en ég kveð. Eða tvennt. Hann er að taka heilmiklum framförum í dönskunni og slær um sig með orðum eins og: hold op, undskyld, hue på og farvel. Hitt var að það er svolítið skemmtilegt þegar hann fer á klósettið til þess að kúka. Þá er hann nefnilega með e-ð ljósasystem og yfirleitt er rautt ljós í upphafi en svo segir hann: "þegar græna/bláa ljósið kemur, þá kemur kúkurinn." Svo bíður hann smástund og segir svo: "nú er ljósið komið" og lætur þá vaða. Skemmtilegt??

Ég sendi ykkur ástarkveðjur á þessum annars yndislega degi og vona að þið njótið hans.
Hanna

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...