Jú jú, þrátt fyrir slaka uppfærslutíðni á vefnum hefur nú ýmislegt verið að gerast undanfarna viku og er enn að eiga sér stað...
Fyrir rétt um viku síðan komu Jakob og Oddný í heimsókn til okkar hérna upp í Sölleröd. Heppin vorum við að vinnan hans Jakobs, Nýsir, hafði slegið til og splæst ferð fyrir starfsfólkið til kóngsins Kaupmannahafnar. Það urðu miklir fagnaðarfundir og áttum við góðar stundir saman. Fórum til dæmis saman á jólaball hjá Microsoft þar sem blöðrumaðurinn alræmdi framkvæmdi ógjörlega gjörninga af mikilli list.
Hanna byrjaði svo í nýju vinnunni eftir helgina en þurfti að byrja á því að vera heima fyrsta daginn með Ástu Lísu sem hafði gripið í sig einhverja pest. En svo komst hún til vinnu í Barnahuset Egehegnet á þriðjudaginn og gekk það nú bara með ágætum og er þetta prýðis vinnustaður. Ekki skemmir fyrir að leikskólinn er við hliðina á Joan, dagmömmu hennar Ástu Lísu.
Í dag rann svo loksins upp langþráður dagur. Loksins er komið að því að Ásta frænka snúi til baka úr mánaðarferð sinni til Marokkó. Við Ásta Lísa fórum út á götu og tókum á móti svefnvana frænku í leigubílnum beint frá London, með kúkableyju í poka svona til að hjálpa Ástu við að ná jarðtengingu.
Eftir að Ásta náði að leggja sig smá stund í dag hefur meðvindundarstigið aukist verulega og erum við tilbúin að eiga notalega kvöldstund saman eftir ljúffenga máltíð.
Ummæli