Nú er það ekki svart, heldur glært. Eða þannig...
Hér í Danaveldi virðist það vera óskráð lög að jólaljósaperurnar skuli vera glærar. Okkar íslensku og marglitu seríur hljóta að vekja undrun, aðdáun og gleði. Líkt og þegar konurnar á leikskólanum hans Baldurs Freys gátu ekki varist því að fylgjast með og brosa að skriðtækni Ástu Lísu sem skaust áfram um öll gólfin á rassinum eins og krabbi á 'julehygge' í síðustu viku.
Einn af indversku samstarfsfélögum mínum varð samferða mér í strætó heim á föstudeginum. Hann var hálf glær af þreytu, enda sagði hann mér að það væri líka raunin. Hann býr með nokkrum öðrum starfsnemum og þar er víst oft glatt á hjalla. Reyndar hefur hann verið að skrifa bók, en sú vinna hefur alveg setið á hakanum þar sem ekki hefur skapast tímarými milli veisluhalda og vinnu. Hann vonaði að hann yrði nú ekki glærþunnur um helgina þar sem hann var nú að vonast til að vinirnir færu nú ekki að hringja og bjóða í fjör. Það er víst erfitt að standast það, stöðug togstreitan í mannskepnunni er eilíft vandamál.
Svo má ég til með að deila með ykkur einstakri upplifun úr þvottahúsi Sölleröd Park. Ég fór þangað í kvöld að þurrka þvottinn í þurrkurum 1 og 2. Ég hafði bara rétt sett þurrkarana í gang og tyllt mér í biðhornið við hliðina á Greenpeace plakatinu frá nítjánhundruðsjötíuogsúrkál, þegar annar maður kemur inn. Aðkomumaðurinn var klæddur gulum uppþvottahanskum og gekk beint til verks. Þvotturinn var í a.m.k. þremur ofurþvottavélum og var samviskusamlega færður í þeytivindu (klæddur gúmmíhönskunum), upp á frágangsborð og svo troðið í aðeins einn þurrkara. Heljarinnar stórþvottur hér á ferð.
Augabrýr mínar lyftust um 5 mm þegar ég sá fjöldann af skyrtum sem hann hengdi upp við frágangsborðið, svona 17 stykki eða svo. Augabrýrnar nörtuðu svo bókstaflega í hársvörðinn þegar ég sá hann svo við þurrkarann þar sem hann var að taka síðustu 'flíkurnar' úr körfunni. Það voru nefnilega 3 pör af uppþvottahönskum, gulum eins og hann klæddist þá þegar. Þeir hafa verið hálf þvældir eftir volkið í þvottavélinni, en hann handlék þá með alúð og hellti vatninu úr þeim. Mig undraði þó að hann skuli hafa íhugað þann möguleika að setja þá líka í þurrkarann.
Nújá, þá var minn þvottur búinn að rúlla sinn tíma í þurrkaranum og tími til kominn að halda heim í kot með þurran þvottinn, kitlandi smásögusafn Asimovs og minningar um gúmmíhanskaklædda stórþvottamanninn.
Ummæli