Jæja, enn og aftur fer senn að líða að óumflýjanlegum árskiptum í okkar nútímalega Gregoríska tímatali....
... og við hjúin sitjum hér við tölvuskjáinn og höfum rétt nýverið skolað niður skammtinum af innlenda fréttaannálnum. Það var ágætis hressing og góð upprifjun á atburðum sem við vissum bæði um og vissum ekki um. Lofuð sé stafræn útgeislun RÚV.
Í gærkvöldi fóru svo Jakob, Oddný og Anja heim á leið til Íslands. Það gekk nú ekki alveg áfallalaust frekar en koman hingað. Við kíktum samviskusamlega á http://www.cph.dk/ og www.textavarp.is til að staðfesta brottfaratímana áður en Hanna skutlaði út á völl. En allt kom fyrir ekki, það var svo búið að fresta fluginu um klukkustund. En það var bara byrjunin því enn og aftur var frestað í klukkutíma og klukkutíma. Í stað þess að gefa bara réttar upplýsingar strax, drattaðist Iceland Express vélin í loftið að verða tvö í nótt í stað áætlað 20:25. En vélin var víst búin að liggja biluð heima á Íslandi allan daginn án þess að nokkrum dytti í hug að láta þær upplýsingar komast til skila til farþeganna. Heim komust þau að lokum, en þetta var ekki alveg stjarna í barm Iceland Express. Hauskúpa!
Í dag rúlluðum við svo til Hróarskeldu til Jónasar, Áslaugar og barna á hinum forláta Citroen bíl sem fékkst í skiptum eftir plássþröngan varabíl hins bilaða fáks hér um daginn. Það var alveg frábært að hitta þau og við áttum virkilega góðan dag. Umhugsunarvert að það tók okkur um 30 mínútur að keyra þetta á móti þeim 2 klukkutímum sem það tekur að skrölta í strætó, S-tog og lest. Það fékk hinn trausti Thinkpad fartölvulangur minn nýtt heimili eftir rúmlega 5 ára trygga þjónustu. Margrét Sól er nýr og stoltur eigandi hennar. Til hamingju.
Nú eru ostarnir frá Höng að taka sig á disknum og Rioja vínið Marques del Puerto árg 1996 bragðast alveg prýðisvel. Passilegt að horfa á erlenda annálinn og svo skaupið áður en við leggjumst til hvílu í nýju, dúnmjúku sængunum okkar sem komu fyrir algert kraftaverk í ferðatöskum síðustu gesta okkar.
Búmm búmm, bamm bamm. Við óskum öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og gleði og farsældar á hinu nýja og rísandi ári. Við sjáumst svo, í hvaða mynd eða formi sem það verður.
Ummæli