Það er aldrei að vita nema við munum hlusta á hann Bubba í kvöld því að það verður að segjast að okkur vantar svolítið íslensku jólalögin og íslensku stemninguna. En þrátt fyrir það höfum við það stórgott og hlökkum til að halda okkar eigin jól. Ég má nú til að segja ykkur aðeins frá upplifun Baldurs á jólaveininum.
Málið er nefnilega að fyrstu nóttina kom sveinki með mandarínu og piparkökur. Hrifningin var ekki meira en svo að kökurnar voru teknar en mandarínan fékk að liggja í skónum áfram. Sveinki ákvað því að næstu nótt skyldi vera e-ð sem eflaust fengi meiri viðbrögð og viti menn, næsta morgun lá þar einn lítill hlauppoki. Baldur var mikið ánægður og næsta morgun er hann opnaði augun, néri hann saman höndunum, dæsti og sagði nautnalega: "hvað ætli sé í skónum??". Þegar hann sá að ekki var nammipoki, heldur e-ð Batman belti (sem Sveinki hélt að hann yrði svo ánægður með) þá létu viðbrögðin ekki á sér standa. Baldur lagðist í gólfið, grenjaði og skammaðist, sagðist sko ekki vilja sjá þetta og allt var á þennan veg. Mikil vonbrigði. Þessi uppákoma tók dágóða stund og ekki var minn ungi maður hress þennan morguninn. Þegar heim var komið eftir dag í skólanum þá voru þessi mál rætt, annað hvort að skrifa jólasveininum og afþakka gjafir eða þá taka þakklátur á móti þeim gjöfum sem berast. Baldur komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að þiggja en neita og hefur þetta sveinkamál gengið vel eftir þessa uppákomu. Í kvöld mun Sveinki verða svo heppinn að fá kanelsnúð að launum fyrir allar fallegu gjafirnar.
Ég hef þetta ekki lengra í bili. Ungi maðurinn kallar ítrekað á mig og vill fá athygli.
Ástarkveðjur og hátíðarkveðjur
Hanna
Ummæli