Tíminn krafsar sig hægt og bítandi áfram og nú er barasta að koma að jólum. Við feðgarnir fengum meira að segja smá snjómuggu í andlitið í morgunsárið á leiðinni í leikskóla og vinnu.
Æ fleiri teikn eru á lofti um komu jólanna. Við erum búin að fara á 'julehygge' hjá bæði Baldri og Ástu í skólunum þeirra. Þar er jafnan trompað fram hinum ljúffengu eplaskífum (sem innihalda að vísu engin epli), kirsjuberjasultu og flórsykri. Piparkökurnar eru heldur aldrei langt undan. Ef við víkjum aftur að eplalausu eplaskífunum þá er skýringin sú að áður fyrr var það venjan að baka þessar ljúffengu fitubolta á eplaskífupönnum þar sem eplabitum var stungið í hverja skífu. Það var tilfellið þegar fólk bjó þetta til sjálft en nú til dags er þessu gjarnan sleppt, sérstaklega í fjöldaframleiðsluumhverfinu.
Svo erum við búin að fara á jólaskemmtun hjá Microsoft og svo fékk ég smá jólaglögg í dag (og að sjálfsögðu eplaskífur) í vinnunni. Hanna var svo að hræra í 'honninghjerte' sem merkilegt nokk innihalda velflest annað en hunang. En þannig er nú margt skrýtið í henni Danmörku.
Jæja nú fer uppáhaldsþátturinn minn að byrja í sjónvarpinu. Dolph og Wulff eru að fara að taka út spítalana í kvöld. Dolph ætlar í lýtaraðgerð til að fá sama útlit og Jean Claude Van Damme.
Ummæli