Skódinn veitir okkur æ fleiri óbeislaða möguleika á ferðum á eigin forsendum. Skruppum til Svíþjóðar á laugardaginn þar sem ég náði að sólbrenna bara nokkuð vel.
Á laugardaginn skelltum við okkur í bíltúr upp til Helsingör þar sem ómældur fjöldi af ferjum skýst yfir sundið til Helsingborg í Svíþjóð á 20 mínútum. Við römbuðum á bílastæði upp við kirkju inn í bæ og röltum upp að afgreiðslu Sundbusserne til að kaupa miða. Ahh, við vorum ekki með sænskar krónur né danskt reiðufé, þannig að það þurfti að byrja á því að rölta inn í bæ að redda því. Baldri fannst það ekki alveg málið og herti ennþá á fyrirspurnartíðninni: "Hvenær förum við í bátinn? Hvar er báturinn okkar?"
Helsingborg komst undir sænska krúnu árið 1758 og hafa Svíarnir æ síðan verið duglegir að dugga sér yfir sundið að kaupa áfengi. Helsingör ber þess glöggt merki hver aðalsöluvarningurinn er: áfengi. Hér er búð við búð að bjóða brettastæðurnar af bjór, sérvalinn að smekk svíanna 5,6% og yfir, ásamt sterku víni. Svíarnir mæta líka í hjörðum með trillur undir bjórinn.
Ferðin yfir sundið tók bara 20 mínútur og var Ásta Lísa kyrr í 2 mínútur af þeim tíma. Gekk 15,3 hringi á efra dekki ásamt tröppugangi ofl. Baldur skoðaði mikið en var mikið rólegri í umsvifum. Við byrjuðum á að borða nestið okkar á bryggjusporðinum í sólinni áður en við tókum strætó upp í Sofiero garðinn.
Sofiero er mikill grasagarður þar sem sérstök hátíðarhelgi Rhododendron blómsins 27-28 maí var einmitt í gangi. Þá eru mættir sérfræðingar og aðdáendur þessarar jurtar og stúdera og selja hin ýmsustu sérafbrigði. Við létum okkur nægja að rölta um, rúlla í grasinu, taka kollhnísa, taka upp halakörtur í lófana ofl ofl.
Sólin skein og þetta var afar ljúft allt saman. Frekar áberandi eldra fólk, svona svolítið Hrafnistu andrúmsloft, en greinilega slatti af Dönum. Taldi mig hafa þekkt nokkra úr þar sem þeir komu upp um sig með Tuborg Classic, álpappírsumbúðunum og remúlaðitúpunum. Ís á línuna var svo punkturinn yfir i-ið áður en við héldum til baka í strætóinum þar sem Hrafnistuhópurinn umkringdi okkur all hressilega.
Ummæli