Þá er loksins búið að láta verða af því: að skipta út hjólhestinum. Held barasta að Hanna hafi verið orðin langeygð eftir framgangi í því máli. Núverandi hjól hefur dugað lengi og fékk ég það frá Jakob tengdó í kringum síðustu aldamót en hann hafði fengið það í einhverjum bílaviðskiptum.
Hipoint hjólið hefur skilað sínu enda búið að spæna upp einum dekkjaumgangi, skipta út bremsuklossum að aftan, taka frambremsuklossana niður í járn (næ þeim ekki af), gírarnir sannkölluð gestaþraut, brotinn vinstri pedali (sem næst ekki af) ofl séreinkenni prýða fákinn. Það er sem sagt löngu kominn tími á þetta. Verandi svona mishagvanur hjólaviðgerðamaður þá læt ég fljóta með eitt ráð úr reynslubankanum: það er öfugur skrúfgangur á vinstri pedölum. Þessi reynsla varð til þess að það er ekki séns að þessi brotni pedali fari af!
Ég skrapaði http://www.dba.dk/ enn einu sinni í leit að nýjum hjólhesti. Var kominn með 4 í sigtið og fór ferð í kvöld til að skoða 3 stk. Eins og ég hafði vonað var fyrsta hjólið bara nokkuð gott og ég kýldi á það. Bláa Marin Bear Valley húkir því hérna í hjólarekkanum með gömlu Kildermoes og Hipoint jálkunum, væntanlega hálf ringlað eftir keyrsluna frá Hróarskeldu...
Ummæli