Hún ætlar að verða langvinn flugdellan hjá Baldri Frey. Nú hefur allt verið undirlagt í flugvélum og flugvélaleikjum síðan traktoratímabilið lagðist af í haust. Hið nýjasta er að búa til pappírsskutlur og þá kemur sér ágætlega að hafa búið til nokkrar slíkar um ævina, en kröfurnar eru nokkru meiri en það....
Já nú er beðið um hin allra mögulegustu útfærslur og reyndist mér nokkuð erfitt í gærkvöldi að verða við óskum um s.k. "svölu" týpu af flugvél. Lukkulega gat ég fundið mjög góða lesningu á skutluvef Alex þar sem hinar ýmsustu útfærslur er að finna. Það ætti að duga um sinn.
Síðastliðinn laugardag komu Jónas, Áslaug og Margrét Sól í heimsókn til okkar hér í Sölleröd. Það var svo ljómandi skemmtileg stund sem við áttum og ekki spillti fyrir að núverandi og fyrrverandi nágranni okkar hún Nellý drakk með okkur kaffið.
Veðurfréttir: hér hangir hitastigið öðru hverju megin við núllið og hefur verið þannig það sem af er af árinu. En það birtir óðum með hverjum deginum og við hlökkum mikið til að strípalingast á ströndinni í Vedbæk í sumar.
Ummæli