Sóttkví, snjór, samgöngufangar og stigahlaup...
Sóttkví
Við höfum verið í sóttkví hér í Sölleröd síðan á miðvikudagskvöld, en þá varð ljóst að Ásta Lísa væri komin með hlaupabóluna. Bólunum fjölgar jafnt og þétt og þær planta sér út um allt, meira að segja á tungunni hjá greyið Ástu Lísu. Það getur ekki bara verið annað en óþægilegt, enda er það ákveðið merki um að svo sé þegar daman fussar og sveiar á snuddurnar. Algerlega fáheyrt. Og svo er horið alltaf að aukast og hálsbólgan komin líka. Greinilega er þónokkur vanlíðan því það er farið að hafa áhrif á svefninn hjá Ástu og er þá mikið sagt. Í nótt var hún að vaka svolítið og voða ómöguleg en það er mjög óvanalegt að hún sofi ekki bara út í eitt. Vonandi fer nú varicella-zoster veiran að hopa og að við getum aflétt sóttkvínni. Það verður sennilega þó ekki fyrr en í lok næstu viku.
Snjór
Það hefur snjóað nokkuð frá því hlaupabólusóttkvíin skall á. Núna er bara alvöru vetur, 15 cm snjór og frostið var um 7 stig í morgun. Snjóþotan kemur sér nú heldur betur vel og það var sko farið í gær og fjárfest í góðum kuldagalla á Baldur Frey. Við prufukeyrðum hann svo í gær þegar við feðgarnir fórum hérna út á snævihulinn rólóinn að leika. Baldur velti sér um allt snjónum og fann ekki fyrir neinum kulda á meðan ég var alveg freðinn á tám og fingrum. "Far þú bara inn að hlýja þér, ég bíð hér úti á meðan" sagði meistarinn. Sem ég og gerði; ég fór í ullarsokka og annað par af vettlingum. Þá gátum við verið svolítið lengur úti og tekið venjulega hringinn yfir brúna og framhjá ruslasvæðinu.
Samgöngufangar
Hann Sandeep kollegi minn er einn af mörgum samgönguföngum DSB og HUR sem daglega er haldið í gíslingu af seinkunum og afboðunum áætlanna lesta og strætóa. Þetta er alveg magnað hvað þetta er alltaf úr skorðum. Sandeep hefur bara einu sinni lukkast að komast í vinnuna fyrir kl 9 frá áramótum, þrátt fyrir að leggja vel tímalega af stað. Og svo er nú ekki eins og hann þurfi að komast langa leið, bara frá Amager. Ég er nú bara nokkuð sáttur við að þurfa bara að skrönglast í leið 193-195!
Stigahlaup
Hún Ásta Lísa var ekki slappari en svo að hún skellti sér í stigahlaup á föstudaginn. Í hvert skipti sem hún sér að neðra hliðið er opið í stiganum rýkur hún af stað og freistar þess að fara að príla upp. Eitt augnablik litum við af henni og gleymdum að loka hliðinu. Svo vitum við ekki fyrr en við heyrum að hliði er skellt. Úps, er hún að fara af stað upp. Nei, gott betur en það. Hún var að skella hliðinu uppi og var þá búin að klöngrast upp ein og óséð, með brauðbollu í hendinni! Það þarf varla að taka fram að hjartahnoði þurfti að beita til að fá foreldrahjörtun í gang á ný...
Ummæli