Fara í aðalinnihald

Vatnaveröld

Makedóníuferð - dagur 2 (18.9.2008)

Það var ræs 10 og rölt inn í bæinn. Marjan var með áætlanir eins og fyrri daginn. Við fórum í kruðerísbúllu sem átti að þykja framreiða besta burek-ið í bænum. Það var því tekið burek og jógúrt á línuna. Þetta er mjög hefðbundið í balkanlöndunum og er frekar feitt deig með alls kyns fyllingum s.s. kjöti, spínati og osti. Við fórum í ostinn og erum við því komin í undirtegundina zeljanica.

Með svona ballest í maganum voru allir klárir í slaginn og við skelltum okkur í bílana. Áfangastaðurinn var syðri endi Orhid vatnsins þar sem fallegt svæði er með uppsprettum og klaustri heilags Naum. Að venju var vegurinn hlykkjóttur með eindæmum og við borguðum fyrir að leggja á grasi gróin og hálftóm bílastæðin. Ferðatíminn er greinilega búinn því ekki var troðningurinn hér í gangi. Samt voru ekki svo mörg skörð í sölubásunum, nema kannski í kebab deildinni sem var lokuð.

Við byrjuðum á að skoða kirkjuna og klaustrið kennt við heilagan Naum. Þetta er eins og margt annað frá 10. öld í býsönskum stíl. Reyndar endurbyggt a.m.k. einu sinni og þá yfir gröf Naum sjálfann sem komst þá innan dyra. Eitt man ég sérstaklega frá leiðsögninni, en hann ku hafa verið dýratemjari mikill og vélað skógarbirni til að vinna hlið við hlið uxanna þegar mikið lá við. Með því að leggja eyra sitt að kistunni áttum við að geta heyrt hjartsláttinn, dúmm dúmm dúmm.... Alveg frábært útsýni var þarna uppi og yfir allt vatnið. Á vinstri hönd Albanía, Orchid bærinn til norðurs og svo 1,3 km hátt fjall til hægri. Heiðskír himinn gerði þetta að algerri póstkortsupplifun.

Á meðan við biðum eftir að okkar bátur kæmi fengum við okkur kaffi og bjórsopa við vatnsborðið. Svo kom að því að Nicolaj var laus og hann lóðsaði okkur um ótrúlega fallegt vatnasvæðið þar sem 45 uppsprettur gusa upp vatni ofan og neðan vatnsborðs. Hann var greinilega ekki að gera þetta í fyrsta skipti því það gusaðist upp úr honum fróðleikurinn í bland við vel tímasett grín. Hans sérsvið er að segja orðið skjaldbaka á öllum mögulegum tungumálum og svo var hann bara nokkuð lunkinn myndasmiður. Við fengum að blaða í gegnum nokkur albúm hjá honum í bátnum og draumurinn er að halda ljósmyndasýningu.

Eftir siglinguna var komið hungur í hópinn og við settumst aftur á sama stað, nema nú var komið að mat. Að sjálfsögðu var fengið sér Shopska og Rakija í forrétt en svo fékk ég þessa forlátu baunakássu með heimagerðri pylsu ofan á. Mjög gott og hressandi allt saman og allir í stuði. Á bakaleiðinni stoppuðum við á lokuðu og yfirgefnu tjaldsvæði við vatnsborðið. Eftir smá labb vorum við komin niður að vatnsborðinu og allir nema 2 skelltu sér út í. Merkilegt nokk var þetta bara alveg þolanlegt hitastig, svipað og sundlaugarnar í Danmörku (myndi giska á 25 C). Það var mjög gaman að synda í vatninu og skemmtileg upplifun að vera þar við sólarlag. Eftir að allir voru komnir uppúr leiddi Marjan okkur fyrir horn á næsta klett til að sjá nokkuð merkilegt. Þar var pínulítil kirkja inn í kletti. En þetta gerðu menn á öldum áður til geta stundað kristna trú sína í leyni og friði fyrir ráðandi múslímum Ottoman veldisins.

Til baka í Orchid bænum tókum við stuttan stöðufund með einu rauðvínsglasi uppi í íbúð og svo skundaði hópurinn inn í bæ þar sem við tókum kraftkaup á 1+ klst. Náðum alveg heilmiklu þar, rosa samstillt tvíeyki þar á ferð. Kannski helst að við höfum verið tafin af nett ágengri sölukonu í minjagripaverslun sem var búin að sjúkdómsgreina okkur, gefa hungangsdropa, mæla með lopasokkum og þegar hún byrjaði að setja disk í græjurnar þá borguðum við bolina og fórum út. Við hittumst svo hópurinn á kaffihúsi þar setið var og kjaftað fram yfir miðnætti með Pivo (bjór), hnetur og hræbillegt koníak. Geiisp, í háttinn svo því ræs er klukkan níu næsta dag. Og það var reyndar afmælisdagurinn minn!

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þetta er alltsaman hið glæsi og kræsilegasta! Meðan ég man, fyrirfram kveðja á Frú Blöbbý Bárðar þá stórmerku kvinnu sem ef mig misminnir ekki á afmæli á morgun :o)
p.s. og góða skemmtun til ykkar með Sibbý næstu vikuna!
kv. Pib

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...