Hef ákveðið að nota þær fáu mínútur sem gefast nú til þess að skrifa nokkur orð. Verð að segja að ég hef ekki haft gríðarlega þörf fyrir að skrifa þó svo að ég viti að aðrir gætu haft gaman að heyra fréttir héðan frá Danaveldi.
Hef ákveðið að nota þær fáu mínútur sem gefast nú til þess að skrifa nokkur orð. Verð að segja að ég hef ekki haft gríðarlega þörf fyrir að skrifa þó svo að ég viti að aðrir gætu haft gaman að heyra fréttir héðan frá Danaveldi.
Eins og Finnur sagði í gær þá keyptum við annan stól á hjólið. Þegar þeir feðgar fóru í að setja hann á nú áðan þá kom í ljós að ýmsar skrúfur og festingar vantaði. Svo að orðum var ekki ofaukið þegar Finnur kallaði þá óreiðumeistara ;-) Strákarnir mínir eru því lagðir af stað í skrúfu&festingaleiðangur. Ásta Lísa (ÁLF) er sofandi, hún er voða pirruð í tönnunum sínum en það er að koma amk. 2 jaxlar svo að það er við því að búast að e-r séu átökin.
Eins og sjá má hér á síðunni þá hafa skrif mín ekki verið tíð (lesist engin) frá því að ég kom til Danmerkur. Ástæðurnar eru tvær og nokkuð augljósar, sú fyrri er að dagurinn flýgur í faðmi barnanna og sú seinni að orkan sem eftir stendur að kvöldi dugir ekki í skriftir. Ég hef stundum ekki orku í að tala við hana Sibbý mína í síma og þá er nú mikið sagt! Sem einmitt leiðir mig að einu umhugsunarefni mínu þessa daganna.
Hvernig stendur á því að sú kona sem velur (eða ekki velur) að vera heimavinnandi fær ekki greitt fyrir það og hvers vegna er virðingin fyrir starfinu ekki meiri?? Málið er að ég hef aldrei lent í eins erfiðu starfi og að vera heima með börn. Þá meina ég erfitt andlega og líkamlega!
Ég reyni t.d. að fara út á hverjum degi og það er ekki alltaf auðvelt að vera með tvö börn í strætó, í vagni ( sem verður hátt í 40 kg. sem þarf að ýta, snúa, bakka, halda á (þegar blessaður strætó og götuviðgerðir eiga ekki saman)). Baldur Freyr er svo hræddur við hunda að ef hundur er nálægt þar sem ég þarf að setja hann niður þá er hann eins og api sem hangir utan á mér (og það í alvörunni). Ég leik líka oft hestaleik við Baldur á daginn og þá er það bara að vera á hnjánum og ganga um gólf, og það getur tekið á! Ég hvet alla eindregið til þess að leika þennan leik, hann gefur nefnilega svo skemmtilega áferð á hnén ;-) Ástu Lísu þarf líka að halda mikið á svo að oft er maður hálfskældur og snúinn eftir daginn.
Svo er það með andlega áreitið, það er stanslaust frá morgni til kvölds. Ég hef aldrei verið í vinnu þar sem ekki hefur verið pása, matar- eða kaffitími, örlítill tími þar sem færi hefur gefist á að hvíla hugann og tæma hann. Ekkert af þessu er í boði í starfi hinnar heimavinnandi húsmóður!!
Ég legg því hér með til að tekin verður upp launatafla fyrir heimavinnandi húsmæður þar sem grunnlaun eru um 350 þús og hana nú!
Jæja það var nú ekki ætlun mín að draga úr ykkur allan mátt. Nei nei ekki aldeilis og því verður að fylgja með e-ð jákvætt.
Ekki satt??
Oft getur nú verið gaman að tungumálum þegar misskilningur verður og ég lenti í einu slíku atviki í þarsíðustu viku. Ég var að fara á milli til þess að skoða vöggustofur fyrir ÁLF og þar sem ég er að skoða eina langar mig að spyrja hvort stofurnar séu kynjaskiptar. Ég æðislega kúl á því spyr á minni velsmurðu dönsku: "er stuerne könsdelte??" Konan sem ég var að ræða við horfir vandræðalega á og um leið átta ég mig á hvað ég hafði sagt. Ég spurði nefnilega ekkert um skiptingu eftir kyni, það var frekar að ég spyrði hvort stofurnar væru kynfæraskiptar :-( Ég var fljót að leiðrétta mig.
Þetta var svona svipað og þegar ég byrjaði í háskólanum hér í Köben '97 og fór með nýnemum í ferð þar sem haft var að leiðarljósi að kynnast betur. Ég sat eitt kvöldið og var að spjalla við strák sem heitir Carsten og hann sagði mér að hann hefði verið undanþeginn herskyldu vegna e-s (sem ég man ekki alveg, minnir að það hafi verið bakið). Á dönsku er sagt "at blive kasseret" í merkingunni að fara ekki í herinn nema hvað ég spurði hann: " er det derfor du blev kastreret?" Ég ætlaði að spyrja "var það þess vegna sem þú varst undanþeginn?" en spurði aumingja manninn "var það þess vegna sem þú varst geltur?". Greyið strákurinn - ég er viss um að enn í dag lítur hann Íslendinga ekki réttum augum.
Baldur Freyr á líka ansi góða frasa þessa dagana. Hann er með heilu leikritin upp úr Emil og Línu. Sat hér á mottunni við útidyrnar einn daginn, rýkur upp og segir: "ég ætla rústa þessari smíðaskemmu í eitt skipti fyrir öll og koma aldrei hingað framar" og annað úr Línu: "þú skammast sýknt og heilagt". Einu sinni var það algerlega málið að fara út í glugga og öskra: "Druuuulllluuuuhaali". Mömmuhjartað bráðnar alveg þegar hann segir: "þú ert fallegust í öllum heimi" og "ég elska þig". Svo á hann frábær moment, eins og t.d. í fyrrakvöld þegar hann vildi ekki fara að sofa. Þegar ég kom úr sturtu og kom í inn í svefnherbergi þá lá hann í rúminu okkur og vildi fá að sofna þar. Við ræddum það aðeins, hann fékk leyfi en svo sagði ég við hann að hann ætti nú auðvitað bara að sofa í sínu rúmi og þá sagði hann mjög alvarlegur: "mamma, stundum þarf maður bara að sofa annars staðar, það er bara svoleiðis". Ég verð svo að passa mig hvorki að hlæja né brosa þegar svona kemur, því að hann er svo innilega að meina þetta.
Ég fékk bæjarleyfi í gærkvöldi og fór til Köben í Tívoli. Lis Sörensen var með tónleika og ekki veldur hún vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Anne Linnet er svo með tónleika í nóvember og þangað er stefna tekin. Ég hlakka til.
Jæja strákarnir mínir eru komnir heim og því tími til komin að fá sér nýbakaða hjónabandssælu og kaffibolla - namminamm !
Bara svona til þess að láta ykkur vita þá er 25 stiga hiti og við á leiðinni til Lyngby til þess að njóta góða veðursins.
Ástarkveðjur til ykkar, hvar sem þið eruð í heiminum.
Hanna
Ummæli