Jæja, þá gerðist sá stórviðburður í kvöld að nettenging er komin í gagnið. Húsfreyjan sá um að rumpa af eilífðaruppsetningu TDC. Og það tókst í fyrsta, ótrúlegt. Hefði að sjálfsögðu ekki gerst hefði ég setið við lyklaborðið. Það votta þeir sem mig þekkja, enda er t.d. gsm síminn minn nýi eitthvað orðinn skrýtinn.
En hvað hefur gerst frá því ég skaut inn fréttum hér af innflutingi? Í stuttu máli: heilmargt. Hanna, krakkarnir og Anja komu hér til Danmerkur 4. sept og sótti ég þau á bílaleigubílnum sem við tókum í viku. Þá keyptum við okkur sófa, sófaborð, skenk ofl til að fylla upp í tómið á brakandi stofugólfinu. Áttum saman ágætis viku með Önju sem fékk að vígja svefnsófann sama kvöld og Jalla-Jallandi flutningsmennirnir komu með gripinn með sér. Anja fór svo heim þann 11. sept.
Við höfum verið að þreifa fyrir okkur með leikskóla og dagvistun enda Baldur orðinn til í að fá nýja leikfélaga. Við Hanna og Ásta Lísa erum svo sem ágæt, en ekki til lengdar sem leikfélagar... Tekin var rispa á þessum málum í dag og Hanna skoðaði 2 staði til viðbótar við þá 2 sem áður höfðu verið athugaðir. Umsóknir voru sendar inn og fingur krossaðir. Biðtími fyrir Ástu Lísu getur verið a.m.k. 10 vikur, vonandi eitthvað styttra fyrir Baldur.
Síðastliðinn sunnudag komu margir góðir gestir til okkar í Sölleröd. Fyrst komu Dagný, Hlynur og Kolbeinn Hrafn ásamt Petu. Við sátum úti í góða veðrinu (sem virðist ekki ætla að taka nokkurn enda...) dágóða stund seinnipartinn þar til leið að seinni hálfleik. Þá komu Jónas og stór-fjölskyldan rúntandi frá Hróaskeldu og varð samkoman enn gleðilegri fyrir vikið. Sérréttur hússins kom sterkur inn og stóðust fáir galdra Hjónabandssælurnar sem nýbökuð blikkaði gestina og freistaði ótvírætt.
Jæja, meiri myndir koma seinna og nú verður vefmyndavélin tengd. Þá förum við nú að verða aðeins sýnilegri alheiminum.
Ummæli