Á síðustu 4 vikum eða svo hef ég dvalið helminginn í Bandaríkjunum, Seattle nánar tiltekið. Þar hef ég tekið eftir nokkrum sérkennum og merkilegheitum:
- Öryggisgæsla hefur aukist við innkomuna frá því á síðasta ári. Núna er krafist fingurskönnunar á öllum 5 fingrum beggja handa, plús mynd. Í fyrra voru þetta bara vísifingurnir og mynd.
- Ég fékk líka að rúlla í gegnum landbúnaðarafurðaskannann þeirra. Þrátt fyrir að vera langt því frá Framsóknarmaður, ég hef bara litið út fyrir að vera með sveitasæluna í töskunni.
- Kaffibúllur, þær eru svo margar að það jaðrar við að maður fái upp í kok. Í stofnborg Starbucks, Seattle, er þetta sérlega áberandi: tully's, seattle's best, starbucks, ofl ofl
- Mér fannst alltaf vera lykt plantað út um allt. Á hótelunum, klósettunum, verslunarmiðstöðvum ofl. Einhvern vegin alltaf sama væmna blómalyktin, eða hvað svo sem það átti að líkjast.
- Þið áttuð kannski von á þessu, en ég verð að segja nokkur orð um salernin þarna ytra. Fyrir það fyrsta eru þau með skálarnar í sköflungahæð þannig að það er nokkur kúnst að staðsetja sig. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hávaxnir menn eins og Hannes yrðu að sitja með hnén klemmd við eyrun...
Annað er að mörg salernin sturta ekki, heldur sjúga með offorsi þannig að manni krossbregður í fyrsta skiptið sem þetta gengur yfir. Ekki síst þegar þetta gerist sjálfvirkt við það að staðið er upp. Þar væri gaman að sjá fólkið bakvið tjöldin sem ýta á "sturt" þegar sést í skoruna... - Umferðin. Eins og margt annað hefur þetta ferli verið hámarkað til tímasparnaðar. Þá kemur ekkert gult ljós heldur skiptir beint úr rauðu í grænt. Einnig má taka hægri beygju á rauðu þegar leiðin er greið. Í Danmörku verður þetta aldrei leyft þar sem hjólreiðamennirnir eiga framgöngurétt á grænu, hvað þá rauðu!
Amen
Ummæli
Annars, þar sem ég hef mikla reynslu af því að vera gangandi vegfarandi þessa dagana (mánuðina) þá hef ég komist að því að bílstjórar hérna í Ameríkuhreppi eru hvorki hrifnir af gangandi vegfarendum né hjólreiðamönnum. Það segir í umferðabæklingnum að gangandi/hjólandi eigi "right away" en það er frjálslega farið með það. Ég var næstum því keyrð niður af strætó á gönguljósi um daginn. Honum fannst greinilega óþarfi að stoppa fyrst þetta var bara gangandi vegfarandi. Kannski þarf að fækka farþegum í strætó, hver veit! Hérna eru gangséttar meira að segja taldar frekar óþarfar.