Sérdeilis gott er það búið að vera um helgina, sólarglenna flesta daga og hlýtt yfir hádaginn. Ég tók skorpu í garðinum á föstudaginn og undirbjó jarðveginn fyrir grassáningu, í orðsins fyllstu merkingu. Það þýddi að jarðaberjaplönturnar og rauðbeðurnar urðu að flytja sig um set. Kryddjurtaóræktarhringurinn fékk að fjúka vegna vanhæfni sinnar...
Föstudaginn var ég að vinna heiman frá svona til hálf ellefu en náði að skella í sólberjamarineringu fyrir hálf tíu. Maður uppskar þokkalega um kvöldið með sólberjakryddkjúkling af grillinu með rauðlauk, maís og kartöflur úr garðinum. Algert dúndur. Við krakkarnir horfðum svo á Disney stundina og Talent á meðan Hanna þvældist um í samgöngukerfi Stór-Kaupmannahafnar. Alveg úr æfingu greyið stúlkan að fara niður í bæ á öldurhúsin. En hún skilaði sér að lokum til Dagný og félaga á Blasen.
Í gær fór Baldur í heimsókn til Aleksanders skólabróðurs og gerðist þaulsetinn mjög. Á meðan skelltum við þrenningin okkur út á Skodsborg ströndina á hjólunum þar sem sílspikaði selurinn skellti sér í úfinn sjó. Það blés þokkalega inn frá hafinu og ég fékk góðar gusur upp í og yfir mig. Ég og Ásta Lísa gáfum smáfuglunum Ciabattabollu á meðan Hanna lá á maganum horfði fast ofan í teppið með lokuð augun. Og maturinn: ég smjörsteikti svínasnitsel í speltraspi um kvöldið með Meyer rauðkáli sem er algert lostæti.
Í dag byrjuðum við á því að fara á markaðinn inn í Holte með viðkomu í gamla góða kaupmanninum í Sölleröd. Þetta var bara eins og hverfa 2-3 ár aftur í tímann, rosa gaman að koma þangað aftur. Ég var þó búinn að hræra saman megninu í tandoori marineringuna áður en við fórum af stað og gat sett sítrónuna og engiferið í við heimkomuna. Lyktin var dásamleg. Ég varð einn eftir í kotinu á meðan Hanna fór með Baldur á sundæfingu og Ásta var horfin um leið til Ölmu vinkonu. Á meðan hrærði ég í skúffuköku og hlustaði á þjóðlagatónlist. Allt var nú að verða klárt fyrir grannagrillið í kvöld, mmm.
Þvílík lukka sem þetta grill var. Tandoori kjúklingurinn var algert sælgæti með bökuðum kartöflum. Súkkulaðikaka plús eplakaka frá nágrönnum rann vel niður með kaffi og þeyttum rjóma. Krakkagerinu líkaði þetta heldur ekki illa.
Núna erum við Hanna á fullu að skrifa upp handbók fyrir gemlinga- og húshald sem mamma og Guðrún taka að sér í næstu viku. Þá erum við nefnilega á leið til Makedóníu! Djíss hvað þetta verður gaman. Marjan og Aleksandar eru búnir að græja þetta allt saman, það eina sem við höfum gert er að bóka flug. Það á víst að vera klár bíll á flugvellinum sem við brunum á niður til Orchid vatnsins til að byrja með í smá ferðamannaleik áður en brúðkaupið er á laugardaginn.
Ummæli
Afmæliskv. frá Linnetz
Bestu kveðjur og hafið það gott!!