Fara í aðalinnihald

CPH - BUD - SKP

Makedóneíuferð - dagur 1 (17.9.2008)

Ferðin suður til Skopje gekk eins og í sögu. Við lentum á áætlun um hálfþrjú á litla flugvellinum í Skopje. Þetta var í líkingu við Reykjavíkurfluvöll og töskurnar komu á skammri stund. Marjan, Katarina og bróðir hans biðu með bílana fyrir utan. Eftir mikla fagnaðarfundi hófum við að troða töskunum í bílana og brunuðum svo upp að aðsetri Marjan inn í Skopje.

Hnúar okkar Hönnu voru hvítir eftir hurðararmana og ömmuböndin. Hann Viktor frá Hvítrússlandi var ekki alveg sá mest traustvekjandi í umferðinni. Við ræddum þetta á leiðinni og sömdum neyðaráætlun sem var hrundið í gang um leið og við stoppuðum hjá íbúð Marjan. Við spurðum lærvíslega hvort þau ættu bíl í Danmörku. Nei ekki var nú það. Ertu þá ekki vanur að keyra dags daglega. Nei, varla neitt síðasta 1,5 árið síðan hann flutti til Danmerkur. Nú vill svo til að við eigum bíl og keyrum á hverjum degi. Ég get alveg keyrt, við getum reynt að skiptast svolítið á. Það varð úr að ég tók við stýrinu og sat þar fram á lokadag.

Við stoppuðum við húsasund inn í Skopje þar sem Marjan hvarf og kom svo til baka með Makedóníska Dínara á góðu skiptigengi. Borgar sig að vera kunnugur. Á leiðinni út úr bænum komum við í búð sem var eins og kaupfélagið heima í kringum Duran Duran tímabilið, ægilega kósí eitthvað. Þar birgðum við okkur upp fyrir ferðina, keyptum kort á bensínstöð og brunuðum út á þjóðveg á leið suður til Orchid. Hinn alþjóðlegi hópur var tilbúinn í ævintýrin með þjóðernin 7: Ísland(2), Hvítarússland(2), Malta(1), Pólland(1), Kanada(1), Makedónía(2) og Bandaríkin(1).

Þegar beygt var af þjóðveginum tók ótrúlega hlykkjóttur fjallvegur við sem liðaðist inn um gil og tré. Nokkuð merkilegt var að það var varla að sjá gatnamót á löngum köflum. Þetta var bara vegur með stóru V-i, engir útidúrar né krúsidúllur bara beint áfram. Svo kom að því að við stoppuðum, að mér virtist í hvergilandi. Hér var búr með geltandi hundum hægra megin vegar, malarstæði á vinstri hönd. Upp tröppurnar gengum við og þar var hringlaga áningarhús með tvo værukæra keðjureykingakarla innandyra. Nokkrir bekkir voru þarna inni og grill í miðjunni, ekki mikið meira en það. Marjan pantaði hjá þeim og við fengum innan skamms skál af sýrðri mjólk og kornjafningi sem er víst mjög algeng hjá fólki á landsbyggðinni. Súrmjólkin var ágæt en kornið var frekar þurrt, en ekki slæmt. Sérkennilegt var að ekkert var boðið að drekka með matnum en það átti eftir að sýna sig að vera algengara en ekki. Að þessari stórmerkilegu máltíð lokinni brunuðum við aftur út á hlykkjóttann veginn út í kvöldhúmið.

Þótt það væri komið eftir sólsetur ákváðum við að reyna að kíkja á 10. aldar klaustur heilags Jóhannesar skírara og þræddum ansi hreint skemmtilega sikk sakk brekku upp á fjallstoppinn. Heppnin var með okkur og Marjan sjarmaði sig ekki bara inn í klausturgarðinn heldur fengum við þann heiður að fá að vera við kvöldmessu munkanna. Þarna fór maður í nýjan heim og það var dolfallandi tilfinning að hlusta á söngl munkanna sem skiptust á að fara með ritningarorðin á leifturhraðri makedónísku. Það verður að segjast að þetta er ekki ólíkt rappi ef maður spáir í hrynjandann og hvernig þeir skiptust á og gengu inn í línur hvors annars. Eftir athöfnina fengum við einkaleiðsögn eins munksins um dýrgripi kapellunnar og þar lærði maður undirstöðuatriðin í að lesa úr altarisíkonunum til að vita hvaða dýrlingi þessi kirkja tilheyrir o.s.frv. Þarna var allsvakalegasti útskurður sem ég hef á ævinni séð. Heill veggur af meistaralega útskornum táknmyndum, sögubrotum og fígúrum. Að sjá þessar trésúlur úr heilum trjám sem hafa verið holaðar innan með heilu sögunum innan í. Hvernig var þetta hægt?

Aftur út á hlykkjóttu vegina. Mér leið eins og í tölvuspili í næturkeyrsluborði: beygja, bremsa, beygja, gefa í, bremsa o.s.frv. Á meðan við hlykkjuðumst meðfram landamærum Albaníu leið mér eins og ég væri að fara yfir sömu brúnna aftur og aftur. Enda kom það svo í ljós að við vorum að þræða fram og til baka yfir þessa sömu á: svarti draumurinn.

Við komum svo seint og síðar meir til Orchid og hentum töskunum inn á hið nýuppgerða íbúðarhótel stutt frá vatnsborðinu. Eftir stuttan stöðufund var stikað upp í bæ og rölt um í kvöldkulinu, það var nefnilega bara nokkuð svalt þarna. Mun kaldara en maður hafði átt von á og vonast eftir. Eiginlega það sama hitastig og í Danmörku, svona um 10-12 stig að kvöldi til. Marjan endaði svo með okkur á góðum makedónískum veitingastað þar sem við fengum fyrsta skammt af mörgum af tvennunni góðu: shopska salat og vínberjabrennivíninu rakija. Á eftir fylgdi blandaður kjötbakki, grillaðir chili (sterkir!), hvítlauksmauk, edik og brauð. Mjög gott að fá svolítið í belginn þótt seint væri og í raun kominn nýr dagur. Við röltum í rólegheitum meðfram vatninu og hlökkuðum mikið til að sjá öll herlegheitin í dagsbirtu. Það var svo ótrúlega margt sem við höfðum upplifað á svona skömmum tíma. Magnað að hafa verið í kvöldmessu Orthodox munka innan 12 tíma eftir morgunkaffið í Köben. Og þetta var bara rétt að byrja...

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr