Fara í aðalinnihald

Í helgarlok

Sérdeilis gott er það búið að vera um helgina, sólarglenna flesta daga og hlýtt yfir hádaginn. Ég tók skorpu í garðinum á föstudaginn og undirbjó jarðveginn fyrir grassáningu, í orðsins fyllstu merkingu. Það þýddi að jarðaberjaplönturnar og rauðbeðurnar urðu að flytja sig um set. Kryddjurtaóræktarhringurinn fékk að fjúka vegna vanhæfni sinnar...

Föstudaginn var ég að vinna heiman frá svona til hálf ellefu en náði að skella í sólberjamarineringu fyrir hálf tíu. Maður uppskar þokkalega um kvöldið með sólberjakryddkjúkling af grillinu með rauðlauk, maís og kartöflur úr garðinum. Algert dúndur. Við krakkarnir horfðum svo á Disney stundina og Talent á meðan Hanna þvældist um í samgöngukerfi Stór-Kaupmannahafnar. Alveg úr æfingu greyið stúlkan að fara niður í bæ á öldurhúsin. En hún skilaði sér að lokum til Dagný og félaga á Blasen.

Í gær fór Baldur í heimsókn til Aleksanders skólabróðurs og gerðist þaulsetinn mjög. Á meðan skelltum við þrenningin okkur út á Skodsborg ströndina á hjólunum þar sem sílspikaði selurinn skellti sér í úfinn sjó. Það blés þokkalega inn frá hafinu og ég fékk góðar gusur upp í og yfir mig. Ég og Ásta Lísa gáfum smáfuglunum Ciabattabollu á meðan Hanna lá á maganum horfði fast ofan í teppið með lokuð augun. Og maturinn: ég smjörsteikti svínasnitsel í speltraspi um kvöldið með Meyer rauðkáli sem er algert lostæti.


Í dag byrjuðum við á því að fara á markaðinn inn í Holte með viðkomu í gamla góða kaupmanninum í Sölleröd. Þetta var bara eins og hverfa 2-3 ár aftur í tímann, rosa gaman að koma þangað aftur. Ég var þó búinn að hræra saman megninu í tandoori marineringuna áður en við fórum af stað og gat sett sítrónuna og engiferið í við heimkomuna. Lyktin var dásamleg. Ég varð einn eftir í kotinu á meðan Hanna fór með Baldur á sundæfingu og Ásta var horfin um leið til Ölmu vinkonu. Á meðan hrærði ég í skúffuköku og hlustaði á þjóðlagatónlist. Allt var nú að verða klárt fyrir grannagrillið í kvöld, mmm.
Þvílík lukka sem þetta grill var. Tandoori kjúklingurinn var algert sælgæti með bökuðum kartöflum. Súkkulaðikaka plús eplakaka frá nágrönnum rann vel niður með kaffi og þeyttum rjóma. Krakkagerinu líkaði þetta heldur ekki illa.

Núna erum við Hanna á fullu að skrifa upp handbók fyrir gemlinga- og húshald sem mamma og Guðrún taka að sér í næstu viku. Þá erum við nefnilega á leið til Makedóníu! Djíss hvað þetta verður gaman. Marjan og Aleksandar eru búnir að græja þetta allt saman, það eina sem við höfum gert er að bóka flug. Það á víst að vera klár bíll á flugvellinum sem við brunum á niður til Orchid vatnsins til að byrja með í smá ferðamannaleik áður en brúðkaupið er á laugardaginn.

Ummæli

Til hamingju með afmælið Finnur. Það er allt skype-inu að þakka að ég man þetta á réttum tíma. Vona að Hanna eldi eitthvað gott handa þér. Hafið það gott í Makedóníu.
Afmæliskv. frá Linnetz
Kolla sagði…
Já til hamingju með daginn um daginn, Njörður sendi til þín kveðju í beinni um daginn en óvíst að hún hafi náð alla leið.
Bestu kveðjur og hafið það gott!!

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr