Fara í aðalinnihald

Sýnishorn

Já það er ýmislegt í gangi þessa dagana og vert að gefa smá sýnishorn inn í atburðarás og hugsanaganginn hér í fjölskyldunni.

Í gær tókst okkur að fara í Sirkusinn á réttum tíma og réttum degi. Þetta var svakalega flott sýning sem var hátt í 3 tíma með hléi. Óhætt að segja að maður fái nú sitthvað fyrir aurinn þar. Í einu af hinu mögnuðu jafnvægisatriðum voru kínverjar að leika listir sínar. Þá segir Baldur:
"vá hvað kínafólk er duglegt"

Ásta átti líka eina góða línu í sundlauginni í dag. Þar sem við sátum í barnabuslinu að lokinni sundferðinni og náðum upp hita, var hún með hárgreiðsluleik á mér. Það var verið að hella vatni og móta strýið á alla kanta. Svo byrjaði hún að móta hanakamb og varð að orði:
"... gera svona hanakamb svo þú verðir ligesom (eins og) unglingar... "

Svo átti ég eitt augnablik uppi á Nærum Torv í gær, sem setti andlegt jafnvægi fjölskyldulífsins í smá limbo. Við stöndum við hjólin, nýkomin á torgið í þeim megintilgangi að sækja miðana á sýninguna þarna seinni partinn. Hanna réttir mér lásinn af Baldurs hjóli. Nei, ég er búinn að læsa. Ha? Segir Hanna opinmynnt. Hvað er svona rosalegt við það, hugsa ég? Doh, ég er búinn að læsa lásnum sem við erum ekki með lykilinn að!
Jæja þá eru góð ráð dýr, fyrsta hugsun að kaupa litla járnsög í rusl og draslbúðinni. Nei nei, þeir eru hættir með verkfæri. Málningarbúðin á svona apparat á 15 DKK. Gæðin eftir því, ég næ ekki að saga lásinn frekar en að ég væri að nota síld (þótt að riddörunum sem sögðu Ní hafi lukkast að nota slíkt við trjáhögg). Það restaði með því að hjólið var tekið heim að lokinni sirkussýninu og Mike var svo almennilegur að skila Bosch vélinni þann dag.

Lásavandamálið var leyst í dag með 6,5 mm járnbor í leifturatlögu PBS 500 RE. Hjólið er nothæft á ný og ég komst aftur í náðina hjá langrækna syni mínum....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...