Fara í aðalinnihald

Aftur í hversdagsmynstrið

Sumarfríið búið og allir komnir aftur heim. Hanna og krakkarnir áttu dásamlega daga á Íslandi og kominn er tími til að komast aftur í hversdaginn. Það er síður en svo tíðindalaust á heimilinu.

Margt er að gerast hjá litlu snillingunum þessa dagana. Ásta Lísa byrjaði í leikskólanum hans Baldurs þann 13. ágúst og gengur stórvel, enda nokkuðkunnug aðstæðum, krökkum og starfsfólkinu. Hún fékk strax eitt stykki verndarengil, hann Corantin vin hans Baldurs. Hann passar sko vel upp á Ástu og fylgir henni hvert fótmál, reimar skóna hennar o.s.frv. Svo knúsast þau að morgni og að kveldi, svaka rúsínur.

Sama dag og litla frökenin byrjaði í leikskólanum, þá gerði hún sér lítið fyrir og byrjaði að pissa í klósettið eins og ekkert væri. Sagði bara: ég þarf að pissa og skellti sér á gustafsberginn. Daginn eftir var hún búin að finna út úr því hvernig átti að gera númer tvö. Þó nokkuð af stórum viðburðum á þremur dögum.

Baldur er voðalega mikið að spekúlera þessa dagana, kannski eins og oft áður. Núna eru það unglingar sem eru heillandi viðfangsefni. Spurningarnar dynja á okkur: hvenær verður maður unglingur, hvað gera unglingar, eiga þeir kærustur og giftast og svona....

Tölurnar og klukkan eru stúderaðar stíft á heimilinu. Mikið verið að taka út tölur og tíma dagsins.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...