Já það fer að slaga í mánuðinn síðan við létum í okkur heyra hérna á vefnum. Það er þó ekki til marks um algert viðburðarleysi, síður en svo.
Kvöld í borginni
Það gekk allt að óskum með samvinnuverkefnið milli okkar Hönnu annars vegar og svo Hjartar og Dagnýar hinsvegar. Laugardaginn 25. febrúar komu þau skötuhjú neðan af Amager með hann Kolbein Hrafn og tóku við búi hér í Sölleröd meðan við skötuhjúin trilluðum okkur niður í bæ til fundar við Jónasi og Áslaugu á hinum stórgóða indverska veitingastað Bindia (www.bindia.dk). Við fengum að sofa í íbúðinni þeirra á Amager á meðan þau voru með gríslingana þrjá. Þetta gekk alveg eins og í lygasögu hjá Dagný og Hirti og heppnaðist kvöldið okkar frábærlega sem og sunnudagsröltið um miðbæinn með ljúffengu kaffistoppi.
Á Íslandi
Tæpri viku síðar fór Hanna af stað með gríslingana tvo til Íslands í fyrsta hluta Íslandsheimsóknarinnar. Ég var heima á meðan að vinna og reyna að finna nýjan takt eftir að hin daglega rútína breyttist við brotthvarf 3/4 heimilisfólksins. En ég þurfti ekki að bíða lengi, því þann 3. mars flaug ég til Íslands og þeyttist inn í stífbókað heimsóknarprógram yfir helgina. Við náðum að fá okkur í gogginn með Hannesi og Guðrúnu á Austur-Indía, hitta Linnetstígsgengið, fara upp á Sólheima og gista og fá ljúffengan Tashin rétt í góðra vina hópi, hádegisverð í Hveragerði með fjölskyldunni og svo hálfgerðan kveðjukvöldverð á sunnudagskvöldinu. Ég flaug svo til Íslands að morgni mánudagsins með hana Ástu Lísu og gekk þetta bara alveg eins og í sögu.
Frá Íslandi og til Bandaríkjanna
Og svo á morgun kemur hún Guðrún systir í heimsókn frá Íslandi til okkar Sölleröd búanna í vikutíma eða svo. Það verður nú gaman að sýna nýju heimkynnin og eiga góðar stundir saman. Ekki næ ég að njóta margra stundanna saman með Guðrúnu þar sem ég er á förum til Bandaríkjanna á sunnudag og verð í burtu í 6 daga. Ég er að fara á námskeið í Redmond á vegum vinnunnar og kem bara til landsins um það bil klukkutíma eftir að Guðrún hefur
Svo fer nú bara vonandi vorið að láta sjá sig og að þessi snjór fari nú að pakka saman og drífa sig eitthvert norður og niður með vini sínum frostinu. Við viljum skríkjandi smáfugla, hjaðnandi tún og vorilm í loftið, takk!
Ummæli