Af og til gerist þess þörft að breyta út af rútínunni og það er einmitt það sem ég gerði í dag, alveg meðvitað.
Ásta Lísa er sem betur fer orðin hress og fór til dagmömmunnar í dag. Hún er nú reyndar orðin svo hress að hún er farin að öskra af heilmiklum krafti ef ekki farið að vilja hennar. Daman er því hreinlega orðin hin versti vargur og á víst ekki langt að sækja það. Ég minnist myndar af nöfnu hennar þar sem sú var orðin ansi rauð í framan sökum öskurs. Ég vona bara að hún verði jafnskapgóð og nafnan!
Það var frí í leikskólanum hans Baldurs í dag vegna starfsdags og þar sem við vissum þetta með ágætum fyrirvara, þá var Fuz í fríi líka svo að þeir áttu feðgadag saman. Tókst hann með miklum ágætum og farið var í sund og fengið sér fransk hotdog.
Fyrst ÁLF fór til dagmömmunnar gekk það upp í dagbókinni að ég fengi eitt stykki frídag og var hann vel þeginn. Ég var búin að ákveða að fara og kaupa mér föt. Spenningurinn sökum þess var svo mikill að skynsamlegri sundferð var ýtt til hliðar og hafist handa bið búðarhlaup. En það fór nú eins og svo oft áður, því að þegar ákveðið hefur verið að versla föt þá virðast þau bara ekki á hverju strái. Því fór ég úr búð í búð og endaði svo á mínum uppáhaldsstað H&M og verslaði þar lítillega (en ekki nándar nærri eins mikið og hafði ætlað í upphafi).
Ég fór svo að velta því fyrir mér á leiðinni heim hvað þetta er merkilegt með mig og föt. Eins og ég tel mig vita hvar ég stend í lífinu gagnvart sjálfri mér þá verður það sífellt erfiðara fyrir mig að versla föt. Ástæðan er sú að ég fer alltaf í e-a afneitun á fatastíl mínum og reyni alltaf að fara að leita að e-u sem er öðruvísi. Ég enda svo alltaf á því að vita ekki hvað þetta "öðruvísi" er og er svo hundþreytt á þessu búðarrápi að ég hætti bara við allt. Ég þarf að vinna aðeins í þessu skitzo-i í mér og vera bara sátt við það sem mér finnst í alvörunni, ekki satt?
Nú er komið kvöld, ÁLF sofnuð og Fuz að lesa fyrir BFF. Madpakken stendur klár í ísskápnum og nú er komið að því að standa við gefin loforð. Við verðum að fara snemma í rúmið í kvöld........
Ummæli