Jæja þá er önnur vinnuvikan hjá Microsoft hafin. Síðan ég kom hingað í íbúðina þann 13. ágúst hefur þetta verið nokkuð magnað og frumstætt líf. Hef sofið á vindsænginni úr rúmfatalagernum inn í barnaherbergi þar sem ég hef sett upp höfuðstöðvarnar. Fyrsta nóttin var ekki góð, mér var varla svefnvært vegna kulda en síðan hefur nú ekki þurft að kvarta yfir því. Brakandi bongóblíða hefur verið núna í rúmlega viku.
Ekki er fyrir eldunartilfæringum að fara, eldavélin var biluð þar til á föstudag. Ekki að það skipti máli, því enga hef ég pottana. Örlitlar örbylgjuhitanir hafa átt sér stað, en þó varla meira 2 mínútur samtals. Tek göngutúra á nánast hverjum degi og hef farið upp í Gl. Holte, Holte og þvælst hér um í fallegri náttúrunni. Hér þykir nú nokkuð flott að búa á þessu svæði enda eru engir smá herragarðir og hallir hérna út um allt. Verðin eru líka svona 20-100 milljónir í fasteignablöðunum.
Ég tók með mér heim fartölvuna úr vinnunni í dag til að prófa að tengja saman við símann minn. Svo var ég bara svo heppinn að það eru 2 gjafmildir nágrannar sem eru með þráðlausu netin sín ólæst þannig að ég er núna að pikka inn þessa punkta í boði einhvers nágrannans.
Jæja bless í bili, meira seinna. Tók nokkrar myndir á nýja símann minn.
Ummæli