Meðan regnið seytlar hér af húsþökum er upplifunin enn að seytla inn í mig eftir tónleikana með Bonnie 'Prince' Billy fyrr í kvöld. Ég og Hanna fórum saman í tónleikasal tívolísins og fengum tvo hnausþykka og gómsæta klukkutíma með snillingnum og meistarabandi hans.
Maðurinn er snillingur og því fylgir að hann er týpa. Okkur Hönnu datt í hug E-prívat (fyrir þau ykkur sem hann þekkja) þegar hann vaggaði og tvístég á fótunum til skiptis með uppbrettar skálmar í bleikum crocs skóm með tásurnar. Augnayndi.
Tónlistarmennirnir (og konan) sem hann er með eru ekkert slor. Þéttara Kentucky angur-kántrý fær maður varla og indjáninn með ásláttartrommurna og tambórinurnar er af öðrum (anda)heimi.
Will og félagar tóku góðan skammt af Letting Go og Master and Everyone. Eins var meirihlutinn byggður upp af nýju efni myndi ég halda þar sem ég þekkti það ekki. Ég fékk margoft gæsahúð en Will toppaði lagaprógrammið með því að enda það á I see darkness. Svo tóku nú tvö stykki uppklöpp við og rúmum tveimur tímum seinna svifum við út brosandi.
Þetta var ekkert annað en snilld, topp fimm í tónleikaferðum!
Ummæli