Heil og sæl
Langt er um liðið síðan ég lét í mér heyra en ég hef e-n veginn ekki nennt að skrifa. Til hamingju með að sólin skíni á Íslandi og ég vona að þið fáið nóg af henni. Ég má til með að deila með ykkur einni góðri sögu frá því að mor & far voru hér hjá okkur í heimsókn.
Við ákváðum einn daginn, þegar Finnur var að vinna, að fara í Frilandsmuseet sem er "open air"- safn með gömlum byggingum sem fluttar hafa verið allstaðar að af landinu. Áhættustuðullinn er því sá sami og að skoða Byggðasafnið að Skógum eða Árbæjarsafnið en í þessari ferð varð hann hærri, eiginlega bara miklu hærri. Við vorum rétt komin af stað í safninu, búin að ganga kannski um 1-2 km. og skoða nokkrar byggingar. Baldur hljóp aðeins á undan en snarstoppaði allt í einu, kom tilbaka og sagði að það væri stór geit framundan. Ég skoðaði málið og sá að það var alveg rétt, á göngustígnum stóð vel stór geitarhafur og japlaði á trjágreinum. Mér leist nú ekkert á blikuna, þó að móður minni þætti ekki mikið til dýrsins koma (enda býr yfir mikilli reynslu í uppeldi á krakkadýrum;-)), ég sagðist ekki vilja fara framhjá honum og við ákváðum að bíða. Við fórum þá og skoðuðum eina byggingu sem var þar hjá en í trjáahvarfi fyrir dýrinu, mamma stóð fyrir utan og sá hvar eldri maður gekk framhjá. Hún fór því og fylgist með og sá hvar hafurinn hafði ráðist að manninum og stangað hann niður. Ég kom á eftir og sá þar sem hafurinn prjónaði yfir manninum og aumingja maðurinn skreið burtu.
Við urðum hálforðlausar en áttuðum okkur svo og ég nálgaðist (eins og ég þorði) og spurði manninn hvort hann þyrfti hjálp. Hann var í svo miklu sjokki að hann átti erfitt með að tala en sagðist halda það. Ég fór því til hans og sá að hann var með blæðandi sár á höfðinu. Ég var með símanúmer í afgreiðslunni og reyndi að hringja þangað en ekki var svarað. Í þessu kom helvítis hafurinn æðandi að okkur í árásarhug. Ég hljóp í hræðslu minni inn í skóginn og hafurinn á eftir. Hann hætti svo við og ég komst út, þá sá ég að pabbi var kominn þarna líka og hafurinn sýndi honum mikinn áhuga. Ég ákvað að hlaupa upp í afgreiðslu til að ná í hjálp og þangað náði ég lafmóð og reyndi að útskýra fyrir þeim hættuna. Ég mætti svo einni vaktkonunni þegar ég var á leiðinni niðureftir aftur og fór með henni til hafursins. Þá var hann búinn að æða á eftir pabba sem náði að freista hans með greinum. Mamma var sem betur fer með krakkana á góðum stað og Baldur sá því ekki hvað var í gangi, enda ekki á hans dýrahræðslu bætandi.
Aumingja vaktkonan var sjálf skíthrædd við hafurinn sem var ekki sá blíðasti og ég held að ég geti sagt það með vissu að við vorum öll dauðfeginn þegar vaktmaður kom, sem greinilega þekkti til hafursins, og snéri hann niður og fór með hann á brott.
Ummæli