Ójú jú, þrátt fyrir þránaða uppfærslutíðni frétta úr Danaveldi hefur ýmislegt verið að gerast hér hjá okkur. Laus úr viku viðjum ískápaleysis, sumarbústaðarferð, svíaheimsókn, sumarkoma ofl. Byrjum á sumarbústaðinum....
Í bústað
Eins og áður hefur verið nefnt þá var búið að panta vikudvöl (8-14 apríl) í sumarbústað upp í Dronningmölle í samfloti við Hjört, Dagný og Kolbein Hrafn. Litlu mátti þó muna fáeinum dögum fyrir brottför að úr yrði fýluferð þar sem mislæsi á greiðsludagsetningu gíróseðils hafði kostað okkur pöntunina og redda varð nýjum bústað 1-2 og 3! Það hafðist nú og hægt var að fara að pakka niður á sem allra naumasta hátt og mögulegt var þar sem til stóð að fara með lest og strætóum. Okkur var bjargað sem fyrr af Nelly nágranna. Hún er svo stórkostleg að bjóðast til að keyra okkur upp eftir og hló nú bara þegar hún sá farangurinn okkar. "Hvernig ætluðuð þið svo að komast með þetta í lest?"
Tetrisþjálfun mín kom sér vel þegar ég púslaði töskum, barnavögnum, bílstólum, matarpokum og okkur 5 inn í litlu Toyotuna hennar Nelly. En það hafðist og við vorum bara rúman hálftíma uppeftir en á þeim tíma hafði Ásta Lísa klárað geðvonskulagerinn og annað töskuhjólið náð að nudda sér langleiðina inn beinvef hægri sköflungsins á mér. En við römbuðum á "Lykkehuset" sem leit svona ljómandi huggulega út eins og sjá má af myndinn hér að ofan.
Slyddu drifin skrefin
Þá var kominn tími til að fara í búð og ná í Hjört og Co. Við hittumst við "búðina" og hófum svaðilförina heim með farangurinn og vörurnar þar sem sýnishorn verðurkerfanna dundu á okkur: rok, rigning, slydda, haglél, þrumur o.s.frv. Þetta var ansi langt "korters labb" þar sem við lentum í smá blindgötum og höfðum ekki enn bestað bestu leið eftir leynistígum. En öll komumst við rök og kát í bústaðinn og var hátíðin þar með sett.
Vikan sem leið
Í stuttu máli var þetta mjög skemmtileg vika að velflestu leyti þótt allt færi ekki samkvæmt sólbökuðum væntingum um veður og heilsufar. Ásta Lísa veiktist strax á sunnudegi með hitavellu og magapest. Var hún því innandyra að mestu fram á föstudaginn langa. Veðrið fór nú að sýna á sér betri hliðar á þriðjudeginum en þá bættist ég í hóp veikindapésanna og gat varla borðað neitt af viti alla vikuna með hita og vitleysu. Er það nú tímasetning! Borðaði fyrstu máltíðina af viti í gærkvöldi.
Þetta var nú samt mjög gaman og strákarnir léku sér mikið saman sem og við fullorðna fólkið sem áttum skemmtilegar kvöldstundir með spjalli, gúmmulaði, popppunktum, bíósýningum ofl. Það var í öllu falli ákveðið að þetta yrði svo sannarlega endurtekið að hausti.
Engillinn Nelly kom svo og sótti okkur á föstudeginum og þá var sko góða veðrið komið sem hefur svo haldist um páskana. Dásamlega milt vorveður með fuglasöng og sólskini. Nú er sumarið loksins að detta inn um lúguna hjá okkur!
Ummæli