Fyrsti dagurinn á námskeiðinu í nýju landi í nýju tímabelti. Og það er vor!
Dásamlegt vor í lofti og mikill munur að sjá græn lauf og stika um í hitastigi yfir frostmarki. Morgunmaturinn í hótelmóttökunni var með nóg af gúmmulaðinu og brasi en líka var hægt að fá sér jógúrt, múslí og hafragraut. Merkilegt nokk enginn ostur né kjötálegg.
Formsatriðin
Við komumst nokkurn vegin klakklaust til höfuðstöðva Microsoft í Redmond. Mættum inn í byggingu 16 en fengum þau skilaboð að við þyrftum að virkja aðgangskort okkar í bílakjallara byggingar 8 sem og skrá bílinn okkar á bílastæðalistann til að hann yrði ekki dreginn burt. Það var nú hálfgert greindarpróf að fylgja hvítu pílunum á malbiksgólfinu inn í þröngu kytruna með aðgangskortavinnslunni.
Þegar búið var að redda formatriðunum fundum við kennslustofuna og fengum þar möguleikann á að úða í okkur glassúr og sykurhúðuðum kleinuhringjum. Starbucks gæðakaffi á könnunni og verður að segjast að það er Microsoft til mikils hróss að hafa eingöngu gott kaffi í gangi, ábyggilega til að fyrirbyggja magasár og almenna starfsóánægju.
Námskeiðið hefst
Námskeiðið hófst þegar við villuráfandi sauðirnir fimm frá Danmörku (ég, Klaus, Djorjde, Nuria og Björn) mættum loksins á svæðið. Arthur var þegar mættur, enda kunnugur á þessum slóðum. Hann Joe frá SecurityInnovative sá um kennsluna og ferst það bara nokkuð vel úr hendi. Fórum yfir efni bókarinnar.
Hádegismaturinn var í kaffiteríunni sem er í raun markaðstorg þar sem nokkrir matsölustaðir bjóða mismunandi tegundir matar til sölu s.s. Hamborgaragrill, tex-mex, pizzur, samlokubar o.s.frv. Það þarf að kaupa matinn, en drykkir eru fríir (fyrir utan kaffidrykki af Starbucks). Skellti mér á eitthvað Texas Tijuna meatsauce fansí-smansí nafn en átti í erfiðleikum með að finna kjötið í sósunni. Alveg við og undir meðallagi gumsið það.
Smá verslun og risa máltíð
Eftir námskeiðinu lauk, skiluðum við tölvukostinum upp á hótel og fórum niður á Crossroads í smá tilraun til verslunnar. Kvöldmaturinn á hótelinu var ekki upp á marga fiska: kjúklingaleggir og -vængir ásamt smá grænmeti. Við ákváðum þá að reyna að finna eitthvað að borða í þessum Crossroads verslunarkjarna. Þar var ekki mikið úrval af veitingastöðum, eiginlega bara skyndibitar en þarna var líka raftækaverslun þannig ég gat keypt mér 1 stk útværan harða disk. Allt er stórt í Bandaríkjunum segir sagan og er það alveg rétt. Hátt til lofts, vítt til veggja og ótrúlegustu búðir og þjónusta eins og til dæmis keramikmálunarbúðin þar sem fóls situr til borðs og málar flísar og annað keramik.
Þar sem ekki fannst neitt ætilegt í Crossroads ákváðum við að prófa Mexíkanska veitingastaðinn Azteca sem er rétt hjá hótelinu okkar. Já, skammtarnir eru risavaxnir. Stór bjór bara fyrir handsterka einstaklinga. Maturinn, vá. Alveg helmingi of stór. Klaus sagði að við værum etv kallaðir "svagspisers" af heimamönnum. Ég kláraði þó mínar 2 enchiladas en Klaus og Djordje gátu varla komist hálfa leið. Heppnir að hafa ekki pantað "big dishes" með alvöru skammtastærðum!
Ummæli