Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá ágúst, 2005

Að verða heimilislegt

Jæja, dótið kom til mín í síðustu viku á miðvikudeginum 24. ágúst nánar tiltekið. Þetta stóðst allt saman eins og Samskip sagði til um. Bogi kom og massaði þetta inn með mér. Rúmdýnan var langsamlega erfiðust, við vorum hressilega sveittir eftir að hafa troðið henni upp um stigaopið með hörku. Ég er að dútla mér við að skrúfa saman dótið og koma fyrir í skápunum þannig að þetta er allt að taka á sig mynd. Nokkuð betra að hafa allt í kössum í kringum sig en bergmálið eitt. Svo er bara að fara í búðarferð í IKEA til að kaupa sófa og svona þegar betri helmingarnir mínir mæta á svæðið. Nokkrar nýjar myndir eru hér .

Vika að baki

Jæja þá er önnur vinnuvikan hjá Microsoft hafin. Síðan ég kom hingað í íbúðina þann 13. ágúst hefur þetta verið nokkuð magnað og frumstætt líf. Hef sofið á vindsænginni úr rúmfatalagernum inn í barnaherbergi þar sem ég hef sett upp höfuðstöðvarnar. Fyrsta nóttin var ekki góð, mér var varla svefnvært vegna kulda en síðan hefur nú ekki þurft að kvarta yfir því. Brakandi bongóblíða hefur verið núna í rúmlega viku. Ekki er fyrir eldunartilfæringum að fara, eldavélin var biluð þar til á föstudag. Ekki að það skipti máli, því enga hef ég pottana. Örlitlar örbylgjuhitanir hafa átt sér stað, en þó varla meira 2 mínútur samtals. Tek göngutúra á nánast hverjum degi og hef farið upp í Gl. Holte, Holte og þvælst hér um í fallegri náttúrunni. Hér þykir nú nokkuð flott að búa á þessu svæði enda eru engir smá herragarðir og hallir hérna út um allt. Verðin eru líka svona 20-100 milljónir í fasteignablöðunum. Ég tók með mér heim fartölvuna úr vinnunni í dag til að prófa að tengja saman við símann minn....

7,11 rúmmetrar

Þá er komið að því, við erum búin að pakka og senda búslóðina í skip og kláraðist það í gær. Þetta er því allt að bresta á hjá okkur. Ég á bókað flug næsta laugardagsmorgun (þann 13. ágúst) til Kaupmannahafnar og byrja að vinna þann 15. ágúst. Hanna kemur svo með börnin 4. september en þá verð ég búinn að henda inn búslóðinni með hjálp Jónasar Sig og e.t.v. annarra góðra manna. Ef þið eigið leið um Kaupmannahöfn þá eruð þið velkoin í heimsókn og heimilisfangið er: Søllerød Park 11 2840 Holte

Komin heim frá Danmörku

Á miðnætti laugardagsins komum við heim úr vikulöngu sumarfríi í Danmörku. Þar dvöldum við á ættaróðalinu hjá Palla og stelpunum við Hornslet á Jótlandi. Hið árlega og alræmda ættarmót systranna var að þessu sinni haldið ytra. Palli, Jóhanna og Emma (að ógleymdum dýrunum) hafa vonandi náð að jafna sig eftir innrás og hersetu ættingjanna. Margt skemmtilegt var brallað og til að mynda var farið í Legoland , Djurs Somerland , Kattegat Center (líka gert 2003), Randers Regnskov (líka gert 2003) að ógleymdum kvöld og dagstundunum heima hjá Palla. Frábært frí þrátt fyrir lítið magn sólargeisla og nokkra rigningardropa undir það síðasta. Myndir koma innan tíðar...

Ég er hestur

Ég er hestur og fer í reiðtúra um íbúðina. Húsbóndi minn er mér góður og gefur mér vatn í skál og seríós bæði úti á túni (frammi á gangi) og inn í hesthúsi (inn í herbergi) á spírallaga IKEA mottuni. Feldur minn er burstaður samviskusamlega og lagt er á mig af fagmennsku hnakk og beisli. Reiðtúrarnir síðustu dagana taka á afturfæturnar (hnén) og nú síðast í kvöld komu samstæðar naríur að góðum notum sem púðar. Þá var hægt að fara fleiri hringi við vaxandi hrifningu knapans.