Fara í aðalinnihald

Fréttir??

m. vastus medialis sagði:
Ég er á leið í rúmið, hlakka til að kúra mig niður í koddann minn og svífa á vit ævintýranna. Í nótt vorum við systurnar búnar að festa kaup á sveitajörð þar sem við ætluðum að opna verslun en það var eitt og annað sem þurfti að gera áður en við komumst svo langt. Annars man ég yfirleitt lítið hvað mig dreymir þessa dagana.

Einn mætur maður sagði að ef maður passaði sig ekki að láta sig dreyma í daglega lífinu þá kæmu draumarnir í svefni og oft vaknaði maður þá þreyttari.



Ég held að ég sé einmitt í fasanum að láta mig dreyma á daginn, en draumarnir eru kannski ekkert endilega ævintýralegir; snúast aðallega um heimili og anatómíu. Það hafa ekki verið rólegir tímar hjá okkur fjölskyldunni fyrri hluta ársins og ég vona að nú fari að hægast um og við fáum kannski smá tíma til að hlú hvert að öðru.

Húsnæðismálin okkar eru vonandi að skýrast. Okkur hefur boðist ljómandi fín íbúð í Lyngby (eigum þó enn eftir að skrifa undir samning), húsið og stigagangurinn er ekki það fallegasta en íbúðin er mjög fín, risastórar svalir, umhverfið vel grænt og staðsetningin mjög góð. Við tókum þá erfiðu ákvörðun að sleppa húsinu sem við vorum búin að taka á leigu en ekki enn flutt inn í, en eins og eflaust mörg ykkar vita þá neitaði fyrri leigjandi að flytja út og það mál er enn í gangi og ekki hægt að segja
til um hvenær því lýkur. Tvær vikur hafa orðið að mörgum, mjög mörgum.

Ég glími við þann vankant að eiga mjög erfitt með að sleppa, og það á vel við í þessu tilfelli því að ég var búin að festa svo marga drauma og væntingar við það að flytjast í einbýlishús með garði. En af því verður ekki enn um sinn og ég verð að draga lærdóm af þessu. Fyrir mér er hann skýr; ekki láta drauma mína vera bundna í materalísku efni. Jæja nóg um það, er eiginlega komin með upp í kok af þessu öllu saman.

Ég er þessa dagana föst yfir anatomi-bókunum mínum og reyna að púsla þessum dýrðlega líkama sem við búum yfir. Þvílíkt sem hann er flókinn og fullkominn, ófullkomleikinn felst svo kannski í þessu huglæga sem við búum yfir ;-)

Ég hlakka svo barasta ógó mikið að komast í sumarfrí og fara njóta þessarar svaka veðurblíðu sem hér er í landi, þetta er barasta dásamlegt! Hvernig er það, er nokkuð rok og rigning hjá ykkur núna??

Jæja, ætli ég fari ekki að kveðja. Ég hélt að ég hefði frá svo miklu að segja en svo er lítið í kollinum á mér. Ekkert nýtt, hva :-) Ég vona bara kæru vinir að þið hafið það öll sömul gott og að þið horfið fram á veginn í stað þess að hafa augun á því sem liðið er.

Kram
Hanna

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...