| ||
Meðal efnis: | ||
|
Baldur var brottnuminn upp úr kl 5 þriðjudagsmorguninn 1.júlí 2003 til að fara í bíltúr suður með sjó með mömmu sinni, pabba og Ástu, frænku, Kefla vík nánar tiltekið. Á vellinum hitti ég fyrir gamlan vin sem ég hef ekki séð árum saman, hann Elvar. Hann var á leið heim aftur til Noregs með Gunn spúsu sinni, en hann og Gilli fluttu einmitt út fyrir nokkurm árum og hafa aðlaðast sönglandi norskunni svona ljómandi vel.
Flugvélin fór í loftið rúmlega 7:30 og stóð Baldur sig eins og hetja í flugtakinu. Honum þótti nú ekki mikið til þess koma og sofnaði fljótlega eftir flugtakið og móðirin fylgdi fordæmi hans. Við vorum svo lukkuleg að hafa autt sæti á milli okkar þar sem Baldur gat sofið vært og þar sem það virtist vera almenn stemning fyrir svefninum lokaði ég augunum líka.
Lendingin var mjúkleg og áfallalaus en kom þó ekki í veg fyrir það að snyrtibox frúarinnar springi á limminu. Mýflugufæluúðabrúsinn þoldi ekki þetta aukna álag og ákvað að enda viðburðalausa tilveru sína. Allir ferðafélagar hans fengu að kenna á því þar sem allt innihald snyrtitöskunar var löðrandi í hvítleitum sítrónu ilmandi flugnafæluvökvanum sem vall út um samskeytin. Húsmóðurinni var ekki skemmt. Bráðabirgðaþrif voru drifin af, sjúklingnum svo stungið í plastpoka og stikað af stað til að sækja bílinn.
Bíllinn reyndist hinn vörpulegasti Peugeot utan þess að bílstóllinn var alveg af síðustu sort. Gauðdrullugur, gamall larfur ofan af háalofti ef marka mátti skítinn sem hjúpaði hann. Húsmóðurinni var ekki skemmt. Einnig fylgdi með bílnum miðstærð af notuðu kókglasi og ein ónotuð saltpilla í hólfinu undir útvarpinu. Ekki þótti annað verjandi en að fá nýjan stól sem mældist yfir velsæmismörkum í skiptum fyrir upphaflega stólræsknið. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði að bruna beinustu leið til Holbæk þar sem stutt stopp var gert í BabySam því skyni að versla 1 stykki ferðabarnarúm fyrir Baldur Frey. Margt fleira hefði nú eflaust verið hægt að versla sér í þessari stórglæsilegu búð en fjögur-ferjan til Ebeltoft frá Sjællands odde beið okkar (vonandi) við bryggjusporðinn.
Við komum á bryggjusporðinn þegar klukkuna vantaði 10 mínútur í fjögur og var okkur hleypt um borð án vandræða. Pöntunin okkar af netinu fannst fljótt og vel og innan skamms vorum við á fullri ferð yfir stilltan sjóinn. Tæpri klukkustund síðar lagðist hraðfleyið Maí að bryggju við Jótlandsstrendur, Ebeltoft nánar tiltekið. Tjaldsvæðið Mols fannst eftir vægar vegvillur í nágrenni Ebeltoft þar sem við keyrðum nokkra hringi með kortin í klofinu, en við komumst á leiðarenda að lokum. Í móttökunni var það hún Þórhildur þrusa staðarhaldari sem tók á móti okkur með kostum og kynjum. Ekki skorti ákveðnina og hvassan málflutninginn þegar hún vísaði okkur veginn að kofanum okkar. Engar óþarfa spurningar né inngrip voru leyfðar við þaulæfðar leiðbeiningaræðuna, takk!
Smáhýsið okkar reyndist ljómandi fínt og dótinu var komið fyrir. Þá var það fyrsta verk að gera að áðurnefndu snyrtiboxi sem hafði snarlega verið stungið í plastpoka við farangursböndin á Kastrup fyrr um daginn. Lital fjölskyldan rölti sér því niður að hinni miðlægu þvottamiðstöð svæðisins. Aðrir gestir tjaldsvæðisins litu undrunaraugum á þetta furðulega lið sem stóð í einu horni eldhússins og vaskaði upp snyrtibox! Eftir á var nú hlegið létt að þeirri tilhugsun að við hefðum ábyggilega komið með nýja angan af sítrónuflugnafæluvökvanaum, inn í allan matarlilminn sem steig upp frá snarkandi pönnum Dananna. Hláturinn dó og brosið hvarf þó skjótt af vörunum þegar við mundum eftir kúkableyjunni hans Baldurs í netinu undir kerrunni. Sítrónuilmurinn af flugnafæluvökvanum hefur þó þó vonadi náð að yfirgnæfa kúkafýluna. Við borðuðum úti niður í bæ um kvöldið á mongólskum grillstað þar sem við myndum örugglega ekki finnast en snyrtiboxið beið heima á verönd í útlegð.
Ummæli