Fara í aðalinnihald

Spark


Stór dagur rann upp í dag og langþráður hjá Baldri Frey: hann byrjaði að æfa fótbolta hérna hinu megin götunnar. Það er sko ekkert smá flott að geta sagt að maður æfi með BSV 5 (hópur fimm).

Enda hefur Baldur vart getað beðið eftir að byrja síðan við fengum fréttirnar um inntöku af laaanga biðlistanum nú um páskana. Baldur kom einmitt fram hér í gærkvöldi svolítið ringlaður og úfinn, hélt að núna væri þetta loksins komið: fótbolti í dag.

En við feðgar brunuðum niður á vallarsvæði í dag og dressuðums í Barcelonahaminn við gáminn (vorum ekki búnir að græja fataskiptin), ég náði að skakklappast í réttan hóp og var settur í markið um leið af hinum vörpulega Mads. Sem betur fer voru þetta bara þrír strákar þannig að þetta skyndinámskeið mitt í þáttöku í dönskum drengjafótboltaæfinahefðum fór rólega af stað. Baldur Freyr tók þetta allt saman af mestu alvöru, mjög einbeittur að drepa, rekja og skjóta. Skýtur fast og er mikið stoltur af því að vera eitruð vinstrifótarskytta. Mads þjálfari sagði nefnilega að vinstrifótarskyttur væru einmitt það sem vantaði.
En ég fékk ekki mörg stig sem markmaður þegar spileríið hófst. Georg sagði nú bara hreinskilningslega: af hverju ertu svona ömurlegur markmaður? Svo vildi hann alls ekki láta mig standa í markinu þegar það kom víti.

Það var sveittur en ánægður strákur sem rölti heim í kvöldmatinn. Nú getur Baldur varla beðið eftir fimmtudeginum, þá er næsta æfing....

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Glæsilegt :) Drengurinn hlýtur að hafa þetta í tánum eins og frændi :) Knús til ykkar allra héðan af Snæfellsnesinu, Guðný Heiðbjört

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...