Sex ár eru í dag liðin frá því að við hjúin rugluðum saman reitum okkar, ég krúnurökuð og Finnur í Iggy Pop bol - rokkararnir sem rugluðust í ríminu ;o) Enn er þorranum fagnað í Höfninni og sendum við bestu kveðjur þangað.
Helgin hefur lukkast vel fram að þessu, bílaleigubíll á planinu og búið að kíkja í Ikea/Toys r'us/Elgiganten/McDonald's og svo var farið í heimsókn til Dagnýjar, Hjölla og Kolbeins Hrafns í dag. Dásamlegt hreint þrátt fyrir 5 gráðu frost - brrrrrrr. Takk kærlega fyrir okkur - börnin sváfu eins og englar á leiðinni heim.
Við erum nú búin að njóta kertaljósarmáltíðar með rauðvínsglas og komin í eftirréttinn. Í samræðum okkar höfum við farið um víðan völl og komum inn á það að vera í fjöltyngdu umhverfi. Því fannst okkur tilvalið að deila með ykkur tveimur sögum af okkar snilli í erlendum tungumálum:
Dag einn var ég að spjalla við Joan, dagmömmu ÁLF, í símann og var að segja henni hvernig heilsan hjá Ástu Lísu hefði verið meðan á hlaupabólunni stóð. Ég ætlaði að segja að hún hefði verið ansi slæm laugar-/sunnudag þar sem hún hefði ekki getað sofið nóg og komst þá að orði: "men som du ved så har Ásta en stor sovsbehov". Það var hlegið á hinum enda línunnar og sagt svo: "det hedder altså søvnbehov!". Ég áttaði mig þá á því að ég hafi komið með þá yfirlýsingu að Ásta Lísa væri með mikla sósuþörf!.
Ég og börnin fórum að sjálfsögðu á fína bílnum í gær að sækja heimilisföðurinn í vinnuna. Við fórum svo inn og hittum vinnufélagana, sem var mjög gaman. Finnur var að útskýra fyrir Sandeep, hinum indverska vinnufélaga sínum, að Baldur Freyr væri mikill vinur Mariam (Makedóníu) og Ana (Kólombíu) og ástæðan fyrir því ... jú; "they meet in the strætó every morning".
Gaman??
Ástarkveðjur um allan heim og hlakka til að sjá ykkur í rokinu og rigningunni í lok mánaðarins!
Hanna
Ummæli