Um síðastliðna helgi var haldin árshátíð vinnustaðar míns, Mens Mentis. Þetta var dásamlega vel heppnað og skemmtilegt í alla staði. Þeir sem það kusu og höfðu svigrúm til fóru uppeftir á Hótel Skóga strax á föstudagskvöldinu, fóru í pottinn, gufuna, slökuðu á og tóku upp á mis snilldarlegum samkvæmisleikjum eftir því sem mér skildist.
Við Hanna fórum hins vegar af stað á laugardagsmorgninum til að ná í tæka tíð á Byggðasafnið að Skógum þar sem fyrsta formlega samkoman var skipulögð. Súpa og brauð til að fylla magann, óendanlegur fjöldi merkilegra hluta úr fortíðinni á safninu til að metta hugann. Þetta er a.m.k. tveggja daga yfirferð ef vel á að vera. Þórður sjálfur kom og hreif alla vægast sagt með sér, enda mikill hvirfilbylur þar á ferð.
Svo var brunað upp á Mýrdalsjökul í bongó blíðu í vélsleðaferð. Útsýnið var stórfenglegt og þetta var frábær stund þarna uppi í frostinu. Að sjálfsögðu náðum við Hanna þeim merka árangri að velta vélsleðanum með þeim afleiðingum að hann vildi ekki aftur í gang. Eftir drykklanga stund af rykkingum og öðrum tilheyrandi lífgunartilraunum hrökk kvikindið í gang.
Þá lá alveg beinast við að skella sér í pott og gufu fyrir matinn. Borðhaldið var mjög skemmtilegt þar sem kokkur af La Primavera (man ekki hvað hún heitir) galdraði fram dásamlegan mat í ótrúlega litlu eldhúsinu með aðstoðarkonu sinni. Fimm stjörnur gef ég þeim dýrindis mat sem við fengum, nammi namm. Inn á milli kom svo hvert snilldaratriðið á fætur öðru þar sem fyrirfram skipaðir hópar starfsmanna skiluðu af sér afrakstri sínum. Í alla staði frábær árshátíð.
Ummæli