laugardagur, 20. desember 2008

Jólakveðja

Við hittum jólasveininn á förnum vegi í Tívolí um síðustu helgi. Hann var hress og rjóður og bað að heilsa.

Fjölskyldan í Rundforbiparken sendir hátíðarkveðjur um veröldina víða. Við sjáumst kannski um jólin heima á Íslandi, við lendum á Keflavík eftir u.þ.b. sólarhring.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Allt er í heiminum hverfult

Það var undarleg tilfinning sem greip um okkur í morgun, rétt eftir að fyrsta tillaga til vöknunar hefði verið slegin út af borðinu með svokölluðum "snooze"-takka. Húsið gekk til í hægum bylgjuhreyfingum. Ég veit ekki með Finn en tilfinningin sem greip mig var hræðsla. Þeir sem þekkja mig vita hversu illa mér er við þetta afl jarðar og áður en ég hafði náð að hugsa þá var hjartað komið á fulla ferð. Hjartslátturinn þyngdist töluvert þegar ég gerði mér grein fyrir skjálftanum og eftir að honum lauk, þá sveif á mig gömulkunn máttleysistilfinning.

En sem betur fer, eins og mörgum er einnig kunnugt, þá á ég svo óskaplega létt með svefn að ég náði að svífa inn í draumalandið á ný og ná jafnvægi í líkamsstarfsemi ;-)

Ótrúlegt alveg, ég sem hélt að ég væri óhult fyrir skjálftum búsett í Danmörku þar sem engin eru skjálftasvæði.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Pund

Eins og eitt pund af flórsykri er núna búið að fara síðasta sólarhringinn í glassúrframleiðslu á piparkökurnar. Uppskrift númer 2 var flött út í gær og bökuð. Baldri þótti aðalatriðið að fá að hræra upp í glassúr og þekja kökurnar (já og þá meina ég þekja). Ilmurinn af piparkökunum er svo sannarlega til marks um að jólin nálgast senn. Nú eru ekki nema 10 dagar í að við hlunkumst niður á flugbrautina í Keflavík, ætli það verði jafn hvasst og síðast?

Í öllu falli verður spennandi að finna leiðina út úr völundarhúsi Leifs þar sem alltaf er verið að smíða, breyta og bæta. En svona er þetta víst á flestum flugvöllum, að minnsta kosti þeim sem ég hef dreypt fæti niður á undanfarið (dublin, seattle, chicago, fargo, skopje og kaupmannahöfn) þar eru tímabundnir veggir með tímabundnum leiðbeiningum. Ekkert er víst varanlegt í þeim bransa, eða í lífinu yfirleitt ef út í það er farið... En nú er skammt í að maður fari yfir strikið í vangaveltum þannig að ég set punkt hér .

mánudagur, 8. desember 2008

Koma jólanna.

Við keyrðum í gær upp í sveit til að fagna komu jólanna með starfsfélögum Fuz og höfðum einmitt á orði að það væri ekkert voða jóló með græna grasið allt í kring. En jólin koma innan frá og því um að gera að njóta undirbúningsins í faðmi fjölskyldunnar á eftirfarandi hátt; jólatónlist, jólaskraut, jólaföndur, jólabakstur etc. Það versta er þegar spenningur í börnum verður svo mikill að þau passa ekki inn í fallegu myndina (rauðar, kaldar eplakinnar, kókó í bolla, nartandi í smákökur, föndrandi jólaskrautið við blíða röddu Svanhildar Jakobs....) og eru meira í að slást og rífast og vilja helst bara vera úti að leika með nágrannakrökkunum.

Svona er það víst að verða fullorðinn. Með tilbúnar væntingar og búin að gleyma óþreyjunni sem fylgir komu jólanna.

laugardagur, 6. desember 2008

Frábrugðið

Má ég fara með Alfreð í ballet? Heyrði ég rétt, ballet? Baldur kom inn rosa spenntur í dag og spurði hvort hann mætti fara með Alfreð skólabróður og nágranna sínum að horfa á systur hans í ballet í dag. Jú, jú mín vegna en ég verð að tala við mömmu hans og fá þennan ráðahag staðfestann. Úps, hún var víst á nærbuxunum en það var víst ekki stórtökumál þannig að við ræddum um skipan mála í flíspeysunni og sloggi nærbuxum. Baldur fór með Alfreð að horfa á ballet systurinnar. Aðeins frábrugðið...

Ég er búinn að vera að dúlla svolítið í eldhúsinu í morgun, tja nánast bara allan dag. Núna er marsipaneplakakan að taka sig á borðinu og kjúklingurinn í marineringu við hlið piparkökudeigsins. Hjörtur og Kolbeinn eru á leiðinni uppeftir til okkar til að gera og græja piparkökur seinnipartinn.

Jólaböllin og -skemmtanirnar eru að hefja innreið sína þetta misserið og nú eru Hanna og Ásta uppi í Birkeröd að taka þátt í jólafagnaði íþróttafélagsins Skjold þar sem Hanna kennir á miðvikudögum. Vonandi stendur Ásta sig vel þegar jólasveinninn lætur sjá sig, hún var sko ekkert of hrifin af honum í fyrra. En hún var spennt yfir þessu öllu saman og fór uppstríluð í kjólnum frá afa sæma og ömmu völlu.

Jæja, nú þarf að setja hýasinturnar í pottana og finna piparkökuformin. Þýðir ekki að hangsa hér bara, hah!

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Rækt

Á þessu síðustu og mestu tímum er ógalið að líta svolítið í eigin garð. Það gerði ég í allt sumar.... og tók myndir af því ferli.
From Garðurinn

Ég og Hanna tókum á leigu garðskika hérna útfrá bakvið róló og fórum í gegnum jómfrúarsumarið okkar með hann. Amma Valla kom sterk inn í apríl í plægingu og standsetningu sem skapaði grundvöll allrar framþróunnar þaðan í frá.

Ýmislegt var reynt og rekið sig á. En í sumarlok held ég að við höfum bara verið nokkuð sátt. Smá endurhönnun var gerð á bréfsnepli á eldhúsborðinu eitt kvöldið og svo var pælt upp og sáð grasi í eitt hornið svona til frekari yndisauka. Hanna var ekki alveg að kaupa "freestyle" útlitið sem er víst þó í tísku í garðaheiminum. Einnig skelltum við upp moltukassa sem gleypir við lífrænum úrgangi okkar í hverri viku. Stundum er þetta ekki ósvipað og í heimi viðskiptanna: það þarf að henda úrganginum í safnhaug til rotnunnar og til nytja næstu kynslóða í formi áburðar.....

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Umbrot

Hrúga af sultu á glóðvolgu ítalska speltbrauðinu. Baldur Freyr lét öll tilmæli um hófsemi í sultumokstri sem vind um eyru þjóta, haugurinn bar þess merki. Svo var bitið í. Og sjá, hér losnaði loksins þessi hægri framtönn sem hafði dinglað svo lengi framan í okkur. Þá eru þðr dottnar fimm vinkonurnar og tvær holur bíða þess að verða fylltar.

Ásta Lísa er líka að taka ýmis skref áfram. Núna í dag var ekki lengur málið að vera með ermakúta í sundinu. Ég myndi álykta að þetta komi til eftir að við feðginin höfðum verið að prófa að synda án kúta í barnalauginni. Það kom ekki til mála að taka kútana einu sinni með út að sundlaugarbakka. Í staðinn fengum við okkur bara frauðplastskút á bakið og busluðumst með hann á bakinu milli heita pottsins og barnalaugarinnar. Hún er að verða bara nokkuð brött í buslinu stelpurófan. Hef engar áhyggjur af ákveðninni né þrjóskustuðlinum, það er allt til staðar....

laugardagur, 22. nóvember 2008

Skrap

Spennandi og skemmtlegt. Gaman er að undirbúa og elda góðan mat. Stemningin nær svo hámarki þegar tekið er til matar síns og innbyrtar eru kræsingarnar. Hitt er svo aftur leiðinlegra verk að skafa og skrúbba pottana, en alverst er að skrapa mínútugrillið sem hefur verið baðað klísturkenndri en hinni mjög svo gómsætu maríneringu.

Einhvern vegin þannig datt mér í hug að efnahagsmálum Íslands væri háttað þar sem ég stóð og skrapaði þaulsetna ábakaða maríneringuna. Allt er leyft og í sóma á meðan stemningin er há, fáir virðast fást til að hreinsa upp í brunarústunum. Og jú, panódíl pillum er spítt út til múgsins með hálfvolgum yfirlýsingum um mögulega ábyrgðarköllunnar sukkaranna og glæframanna. Þó virðist mér skína í gegn að Jón Ásgeir verði látinn taka hin þungu högg Davíðs sem hefur beðið lengi í bláa horninu. Þetta verður hanskalaust og undir yfirskini "þjóðarréttlætis" og tvær eða fleiri flugur slegnar í einu: blóð fyrir múginn, Jón kýldur kaldur eftir langa bið Davíðs, góðgæðingar blámanns fá endurreisn og fálkaorður.

Þegar ég reyni að setja vinnufélagana inn í ástandið eftir síaukinn áhuga um stöðuna, verður þetta eitthvað hálfsúrrealískt þegar maður útskýrir helstu leikendur og "leikreglur" (hlífðarskildi). Þá fær maður athugasemdir eins og þessa frá vinum mínum frá Makedóníu: "Já, veistu að Makedónía og Ísland er mun líkara en mér hefði grunað". Þess ber að geta að spilling í stjórnkerfinu er landlæg og stendur framþróunni fyrir dyrum....

mánudagur, 17. nóvember 2008

Skræður

Það er komið upp að ákveðnum þröskuldi í náttborðinu. Enn og aftur hefur mér lukkast að setja of margar bækur í gang:
 • Slash - frásögn þessa geðþekka krulluhauss frá uppruna Guns 'n Roses. Vel skrifuð, skemmtileg og fróðleg
 • Managing Humans - umbúðalaus og hnellin 15+ ára reynslusaga úr hugbúnaðarbransanum í Sílikondal
 • Með bakið í heiminn - sýn fréttakonunnar norsku, Åsne Seierstad, á lífið og baslið í Serbíu á meðan hún dvaldi þar frá 2000-2004

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Undur Ameríkunnar

Á síðustu 4 vikum eða svo hef ég dvalið helminginn í Bandaríkjunum, Seattle nánar tiltekið. Þar hef ég tekið eftir nokkrum sérkennum og merkilegheitum:
 • Öryggisgæsla hefur aukist við innkomuna frá því á síðasta ári. Núna er krafist fingurskönnunar á öllum 5 fingrum beggja handa, plús mynd. Í fyrra voru þetta bara vísifingurnir og mynd.
 • Ég fékk líka að rúlla í gegnum landbúnaðarafurðaskannann þeirra. Þrátt fyrir að vera langt því frá Framsóknarmaður, ég hef bara litið út fyrir að vera með sveitasæluna í töskunni.
 • Kaffibúllur, þær eru svo margar að það jaðrar við að maður fái upp í kok. Í stofnborg Starbucks, Seattle, er þetta sérlega áberandi: tully's, seattle's best, starbucks, ofl ofl
 • Mér fannst alltaf vera lykt plantað út um allt. Á hótelunum, klósettunum, verslunarmiðstöðvum ofl. Einhvern vegin alltaf sama væmna blómalyktin, eða hvað svo sem það átti að líkjast.
 • Þið áttuð kannski von á þessu, en ég verð að segja nokkur orð um salernin þarna ytra. Fyrir það fyrsta eru þau með skálarnar í sköflungahæð þannig að það er nokkur kúnst að staðsetja sig. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hávaxnir menn eins og Hannes yrðu að sitja með hnén klemmd við eyrun...
  Annað er að mörg salernin sturta ekki, heldur sjúga með offorsi þannig að manni krossbregður í fyrsta skiptið sem þetta gengur yfir. Ekki síst þegar þetta gerist sjálfvirkt við það að staðið er upp. Þar væri gaman að sjá fólkið bakvið tjöldin sem ýta á "sturt" þegar sést í skoruna...
 • Umferðin. Eins og margt annað hefur þetta ferli verið hámarkað til tímasparnaðar. Þá kemur ekkert gult ljós heldur skiptir beint úr rauðu í grænt. Einnig má taka hægri beygju á rauðu þegar leiðin er greið. Í Danmörku verður þetta aldrei leyft þar sem hjólreiðamennirnir eiga framgöngurétt á grænu, hvað þá rauðu!

Amen

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Eirðarleysi vs. værðargeyzi....

Af hverju get ég ekki notað eirðarleysið í að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja í stað þess að vafra um í tóminu (lesist: alnetinu) og verða einskis vísari??

og btw. getur e-r útskýrt upphaf heimsins?

þriðjudagur, 28. október 2008

Afmæli

Þá er litla skvísa orðin 4 ára!

Við hófum daginn með uppdekkuðu borði, kertaljósi, brauðmeti og svo súkkulaðiköku með íssneið. Hvernig væri að hafa alla morgunmata upp á þennan máta? Gjafastund var næst á dagskrá og það var aldeilis fjör í tuskunum þegar barnavagninn, skiptisettið og dúkkan voru tekin upp. Litla mamman varð rosa glöð og það varð eiginlega mesta basl að komast af stað út úr húsi í leikskólann. Var bara svo mikið að gera í mömmó.

Nokkurs konar fiskibollur voru með í för upp í leikskóla, en það voru brauðbollur með hlaup-fiskum sem Ásta deildi út til hinna krakkanna með miklu stolti. Þau fengu að syngja afmælissönginn en hann var bæði afþakkaður á heimaslóðum sem og í leikfimitímanum seinni partinn.

Ætli við förum ekki í 2. hluta súkkulaðikökunnar innan skamms. Spurning með rjómaafbrigði í þetta skiptið....

sunnudagur, 26. október 2008

Dögurður og flugferð

Sunnudaginn 19. Okt var nóg að gera. Pabbi í heimsókn og ég þvældist milli strætóstoppanna við E47 hraðbrautina til að reyna að finna Sigrúnu, Nínu og Vilhjálm eftir að ég hafði farið í Brede bakaríið. Við snæddum ljúfan dögurð og ræddum um heima og geima til kl eitt þegar ég skutlaði hresinunni niður á stöð. Stuttu síðar brunuðum við litla fjölskylda niður á flugvöll til að skila mér í Terminal 2 sem fyrsta stopp til Redmond.

Ferðin hófst sem fyrr með innritun hjá SAS og öryggisskoðun í gegnum hraðbrautina, ansi gott að geta sparað sér smá tíma. Að venju var allt snuðrulaust í innritun og öryggisskoðuninni þannig að þá var bara að fá sér smá matarbita fyrir flugið.

Um borð var rafmagnstengið í sætinu eitthvað að stríða mér þannig að ég óttaðist að rafhlaðan kláraðist í fartölvunni og myndi stöðva vinnuflæðið. Ég var nefnilega líka að lesa mér til um námskeiðið til að vera svolítið undirbúinn. Sólbakaði flugþjóns-Svíinn reddaði þessu með því að koma með þær lykilupplýsingar að rafkerfið í stólunum væri ekki byggt fyrir nýju (síðustu 1-2 ára) módelin af fartölvum því rafhlöðurnar væru of öflugar. Ég tók rafhlöðuna úr og þá var allt í góðu.

Að lokinni þéttri 5 tíma eða svo vinnulotu ákvað ég að slaka aðeins á og kíkja á eina bíómynd. Ekki var margt óséð í boði og ég ákvað að kíkja á eina ævintýramynd, Indiana Jones 4 - krystalshauskúpan. Þvílík vonbrigði! Ég hafði vonast til að geta slakað vel á yfir góðri ævintýradellu en kannski voru vonir mínar of háar en mér kom á óvart hvað mér fannst þetta mikil B-mynd. Ég hefði búist við mun betri leik og flæði, komandi frá Lucas/Spielberg. Ég taldi mig vita hvað í vændum var eins og maður veit að James Bond er daður, fáranlegir bílaeltingaleikir, vondi kallinn og allt það. En nei, þetta var hreinlega pirrandi og pínleg upplifun. Fannst leikurinn vondur og flæðið hikstandi og pínlegt. Tímasóun.

En maður náði að drepa tímann á leið til Seattle og innan tíðar nálgaðist Tacoma flugvöllurinn, smátt og smátt...

laugardagur, 25. október 2008

Vá...

... hvað það er gott að vera kominn heim!

Að rúlla inn á lestarstöðina í Skodsborg í glampandi haustsólinni með útsýnið yfir Eyrarsundið var róandi og góð tilfinning. Að stíga inn á parketlagt heimilið í stað hótelteppanna var góð tilfinning. Að hita sér grænmetissúpu og hýðishrísgrjón var endurnærandi. Að skera niður nýbakaða hjónabandssæluna og setja í frysti færði mig aftur til baka á rétta braut. Ég er kominn heim!

Að vera einangraður í 4 sólarhringa á Hóteli í Bandaríkjunum missir sjarma sinn þegar vinnudagarnir teygja sig milli sólarupprásar og sólarlags. Leið bara eins og moldvörpu að skríða upp úr holu í gær þegar ég var utandyra í dagsbirtunni. Nú er bara að ná aftur Danmerkurtaktinum á ný...

þriðjudagur, 21. október 2008

Djö....

Ég er svo leið og ég er svo svekkt yfir því hvernig græðgin hefur sýnt sig í sinni verstu mynd í formi elskulegra bankastjóranna. Mánaðarlaunin sem þessir menn hafa fengið undanfarin ár "vegna velgengni bankanna og þeirra ábyrgðar sem þeir bera" eru svo svívirðilega há að enginn hefur gott af. Við erum ekki bara að tala um 2-3 milljónir heldur 20-30 milljónir og allt upp í rúmar 40 milljónir sem Bjarni Ármannsson fékk. Engu að síður finnst þeim ekki að þeir beri ábyrgð á þeirri stöðu sem Ísland er komið í! Við séum bara að upplifa stærstu heimskreppu sem upp hefur komið. Mikið rétt hjá þessum kjánum, og það eru kjánar sem í einfeldni sinni halda ef þeir bara loki augunum þá muni enginn sjá þá.

Hvert er landið okkar eiginlega komið? Hver verður framtíðin? Ætli við verðum bara áfram greyið Íslendingarnir sem endalaust berjast við mikilmennskubrjálæði og því verður að sýna þeim umburðarlyndi og samúð?

Hugur minn gagnvart heimferðar hefur snúist og helst langar mig bara e-ð enn lengra í burtu. Helst á stað þar sem ef ég aðspurð segist koma frá Íslandi þá verði viðbrögðin sem mér mæta "allright, and do you all live in snowhouses?"

sunnudagur, 5. október 2008

Blautt

Mikið ætlar að rigna í dag, það er bara búið að sullast niður linnulaust. Frekar svona haustlegt að verða, sérstaklega þegar það gustar aðeins. Þá fyllast göngustígar og bílastæði af laufblöðum, hnetum og smágreinum. Við Baldur höldum okkur innandyra í dag og perlum, málum og föndrum. Reyndar fórum við upp í sundlaug áðan þar sem Baldur svamlaði um í vikulegu æfingaprógrammi Sölleröd Svömklub. Annars erum við bara inni að dúlla okkur.

Kvennadeildin er að heiman. Hanna og Ásta eru niðri í Forum á heilsumessu þar sem þær eru væntanlega orðnar gríðarlega fróðar og innblásnar af öllu þar sem þar er í boði. Kannksi eru þær komnar í kukl og naga hrafnsvængi í reikiheilunarherberginu þar sem árunuddarinn fer hamförum... Ásta Lísa fór til Ölmu upp úr 11 og hefur ekki snúið aftur. Ég tékkaði á henni kl 12:15 og það varð úr að hún myndi skila sér eða verða skilað þegar þær stöllur fengju nóg af hverri annarri. Það verður víst ekki strax myndi ég halda þar sem þær eru að vinna upp skort á samleik í gær. Algerir tvíburar.

Á milli þess sem ég róta eftir sérpöntunum af perlulitum þá endurhleð ég mbl.is og skoða hvað er að frétta úr ráðherrabústaðnum. Gegnsær gulur var ansi erfið pöntun, held við höfum klárað þá alla. En það er með eindæmum súrrealískt ástand sem er núna í gangi og þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir einhverri úrlausn mála. Eitthvað verður að gerast, ekki er hægt að keyra áfram á þessum gengismun og óvissu. Fleiri fara sennilega að taka slátur í ár og sauma skó úr leðuráklæðinu af Land Rovernum.

laugardagur, 4. október 2008

Betri

Maður á alltaf sínar betri hliðar, betri stundir og jafnvel betri helming. Minn betri helmingur á einmitt afmæli í dag. Hanna er 34 ára í dag og ber það stórvel sem fyrri daginn. Við erum búin að fá okkur morgunkaffi, söng og gjafir á þessum fallega haustdegi. En enn bíður stærsta gjöfin til hádegis; þá kemur Ásta systir til Danmerkur til rúmlega vikudvalar. Það er ekki laust við að stemningin sé góð hér á bæ í dag...

fimmtudagur, 2. október 2008

Vatnaveröld

Makedóníuferð - dagur 2 (18.9.2008)

Það var ræs 10 og rölt inn í bæinn. Marjan var með áætlanir eins og fyrri daginn. Við fórum í kruðerísbúllu sem átti að þykja framreiða besta burek-ið í bænum. Það var því tekið burek og jógúrt á línuna. Þetta er mjög hefðbundið í balkanlöndunum og er frekar feitt deig með alls kyns fyllingum s.s. kjöti, spínati og osti. Við fórum í ostinn og erum við því komin í undirtegundina zeljanica.

Með svona ballest í maganum voru allir klárir í slaginn og við skelltum okkur í bílana. Áfangastaðurinn var syðri endi Orhid vatnsins þar sem fallegt svæði er með uppsprettum og klaustri heilags Naum. Að venju var vegurinn hlykkjóttur með eindæmum og við borguðum fyrir að leggja á grasi gróin og hálftóm bílastæðin. Ferðatíminn er greinilega búinn því ekki var troðningurinn hér í gangi. Samt voru ekki svo mörg skörð í sölubásunum, nema kannski í kebab deildinni sem var lokuð.

Við byrjuðum á að skoða kirkjuna og klaustrið kennt við heilagan Naum. Þetta er eins og margt annað frá 10. öld í býsönskum stíl. Reyndar endurbyggt a.m.k. einu sinni og þá yfir gröf Naum sjálfann sem komst þá innan dyra. Eitt man ég sérstaklega frá leiðsögninni, en hann ku hafa verið dýratemjari mikill og vélað skógarbirni til að vinna hlið við hlið uxanna þegar mikið lá við. Með því að leggja eyra sitt að kistunni áttum við að geta heyrt hjartsláttinn, dúmm dúmm dúmm.... Alveg frábært útsýni var þarna uppi og yfir allt vatnið. Á vinstri hönd Albanía, Orchid bærinn til norðurs og svo 1,3 km hátt fjall til hægri. Heiðskír himinn gerði þetta að algerri póstkortsupplifun.

Á meðan við biðum eftir að okkar bátur kæmi fengum við okkur kaffi og bjórsopa við vatnsborðið. Svo kom að því að Nicolaj var laus og hann lóðsaði okkur um ótrúlega fallegt vatnasvæðið þar sem 45 uppsprettur gusa upp vatni ofan og neðan vatnsborðs. Hann var greinilega ekki að gera þetta í fyrsta skipti því það gusaðist upp úr honum fróðleikurinn í bland við vel tímasett grín. Hans sérsvið er að segja orðið skjaldbaka á öllum mögulegum tungumálum og svo var hann bara nokkuð lunkinn myndasmiður. Við fengum að blaða í gegnum nokkur albúm hjá honum í bátnum og draumurinn er að halda ljósmyndasýningu.

Eftir siglinguna var komið hungur í hópinn og við settumst aftur á sama stað, nema nú var komið að mat. Að sjálfsögðu var fengið sér Shopska og Rakija í forrétt en svo fékk ég þessa forlátu baunakássu með heimagerðri pylsu ofan á. Mjög gott og hressandi allt saman og allir í stuði. Á bakaleiðinni stoppuðum við á lokuðu og yfirgefnu tjaldsvæði við vatnsborðið. Eftir smá labb vorum við komin niður að vatnsborðinu og allir nema 2 skelltu sér út í. Merkilegt nokk var þetta bara alveg þolanlegt hitastig, svipað og sundlaugarnar í Danmörku (myndi giska á 25 C). Það var mjög gaman að synda í vatninu og skemmtileg upplifun að vera þar við sólarlag. Eftir að allir voru komnir uppúr leiddi Marjan okkur fyrir horn á næsta klett til að sjá nokkuð merkilegt. Þar var pínulítil kirkja inn í kletti. En þetta gerðu menn á öldum áður til geta stundað kristna trú sína í leyni og friði fyrir ráðandi múslímum Ottoman veldisins.

Til baka í Orchid bænum tókum við stuttan stöðufund með einu rauðvínsglasi uppi í íbúð og svo skundaði hópurinn inn í bæ þar sem við tókum kraftkaup á 1+ klst. Náðum alveg heilmiklu þar, rosa samstillt tvíeyki þar á ferð. Kannski helst að við höfum verið tafin af nett ágengri sölukonu í minjagripaverslun sem var búin að sjúkdómsgreina okkur, gefa hungangsdropa, mæla með lopasokkum og þegar hún byrjaði að setja disk í græjurnar þá borguðum við bolina og fórum út. Við hittumst svo hópurinn á kaffihúsi þar setið var og kjaftað fram yfir miðnætti með Pivo (bjór), hnetur og hræbillegt koníak. Geiisp, í háttinn svo því ræs er klukkan níu næsta dag. Og það var reyndar afmælisdagurinn minn!

miðvikudagur, 1. október 2008

Myndir frá Makedóníu

Jæja þá var ég að henda inn eins og 256 myndum og myndböndum frá ferðalagi okkar til Makedóníu 17-22. september. Gjörið svo vel og njótið myndrænnar frásagnarinnar...

Cross porter

Warrior/Effect
You can send 1 monster you control to the Graveyard and Special Summon 1 "Neo-Spacian" monster fromyour hand. When this card is sent to the Graveyard, you can add 1 "Neo-Spacian" monster from your Deck to your hand.

Þýðing og staðfæring óskast, ég er að missa tökin á tilverunni vegna Yu-Gi-Oh! æðisins sem tröllríður heimilinu þessar vikurnar.

þriðjudagur, 30. september 2008

Haglabyssusöngvarinn

Ég má til með að mæla með nýjustu plötu Kris Delmhorst, Shotgun Singer. Ég hafði rekist á fyrri útgáfur hennar þegar ég var að þræða niðurhölin á eMusic fyrr á árinu. Þá leist mér svona rosa vel á Strange Conversations.

En þessi plata er enn betri að mínu mati. Ber einkenni þeirra platna sem fara í fyrsta rekka hjá mér; plata sem þarf margar hlustanir og vinnur og límist meira og meira á mann. Mætti kalla þetta laukplötur þar sem maður flysjar hvert lag af lauknum við hverja hlustun. En nú er lag ekki sama en lag, er það? Eða þannig, æi hættu nú alveg. Þið vitið hvað ég meina....

Þessi plata er tekin upp í lágstemmdum aðstæðum upp í fjallakofa og lýsingin á tilurðinni passar einmitt við lauklýsinguna mína. Maður er ekki alveg galinn. Eða hvað, og þó...

sunnudagur, 28. september 2008

CPH - BUD - SKP

Makedóneíuferð - dagur 1 (17.9.2008)

Ferðin suður til Skopje gekk eins og í sögu. Við lentum á áætlun um hálfþrjú á litla flugvellinum í Skopje. Þetta var í líkingu við Reykjavíkurfluvöll og töskurnar komu á skammri stund. Marjan, Katarina og bróðir hans biðu með bílana fyrir utan. Eftir mikla fagnaðarfundi hófum við að troða töskunum í bílana og brunuðum svo upp að aðsetri Marjan inn í Skopje.

Hnúar okkar Hönnu voru hvítir eftir hurðararmana og ömmuböndin. Hann Viktor frá Hvítrússlandi var ekki alveg sá mest traustvekjandi í umferðinni. Við ræddum þetta á leiðinni og sömdum neyðaráætlun sem var hrundið í gang um leið og við stoppuðum hjá íbúð Marjan. Við spurðum lærvíslega hvort þau ættu bíl í Danmörku. Nei ekki var nú það. Ertu þá ekki vanur að keyra dags daglega. Nei, varla neitt síðasta 1,5 árið síðan hann flutti til Danmerkur. Nú vill svo til að við eigum bíl og keyrum á hverjum degi. Ég get alveg keyrt, við getum reynt að skiptast svolítið á. Það varð úr að ég tók við stýrinu og sat þar fram á lokadag.

Við stoppuðum við húsasund inn í Skopje þar sem Marjan hvarf og kom svo til baka með Makedóníska Dínara á góðu skiptigengi. Borgar sig að vera kunnugur. Á leiðinni út úr bænum komum við í búð sem var eins og kaupfélagið heima í kringum Duran Duran tímabilið, ægilega kósí eitthvað. Þar birgðum við okkur upp fyrir ferðina, keyptum kort á bensínstöð og brunuðum út á þjóðveg á leið suður til Orchid. Hinn alþjóðlegi hópur var tilbúinn í ævintýrin með þjóðernin 7: Ísland(2), Hvítarússland(2), Malta(1), Pólland(1), Kanada(1), Makedónía(2) og Bandaríkin(1).

Þegar beygt var af þjóðveginum tók ótrúlega hlykkjóttur fjallvegur við sem liðaðist inn um gil og tré. Nokkuð merkilegt var að það var varla að sjá gatnamót á löngum köflum. Þetta var bara vegur með stóru V-i, engir útidúrar né krúsidúllur bara beint áfram. Svo kom að því að við stoppuðum, að mér virtist í hvergilandi. Hér var búr með geltandi hundum hægra megin vegar, malarstæði á vinstri hönd. Upp tröppurnar gengum við og þar var hringlaga áningarhús með tvo værukæra keðjureykingakarla innandyra. Nokkrir bekkir voru þarna inni og grill í miðjunni, ekki mikið meira en það. Marjan pantaði hjá þeim og við fengum innan skamms skál af sýrðri mjólk og kornjafningi sem er víst mjög algeng hjá fólki á landsbyggðinni. Súrmjólkin var ágæt en kornið var frekar þurrt, en ekki slæmt. Sérkennilegt var að ekkert var boðið að drekka með matnum en það átti eftir að sýna sig að vera algengara en ekki. Að þessari stórmerkilegu máltíð lokinni brunuðum við aftur út á hlykkjóttann veginn út í kvöldhúmið.

Þótt það væri komið eftir sólsetur ákváðum við að reyna að kíkja á 10. aldar klaustur heilags Jóhannesar skírara og þræddum ansi hreint skemmtilega sikk sakk brekku upp á fjallstoppinn. Heppnin var með okkur og Marjan sjarmaði sig ekki bara inn í klausturgarðinn heldur fengum við þann heiður að fá að vera við kvöldmessu munkanna. Þarna fór maður í nýjan heim og það var dolfallandi tilfinning að hlusta á söngl munkanna sem skiptust á að fara með ritningarorðin á leifturhraðri makedónísku. Það verður að segjast að þetta er ekki ólíkt rappi ef maður spáir í hrynjandann og hvernig þeir skiptust á og gengu inn í línur hvors annars. Eftir athöfnina fengum við einkaleiðsögn eins munksins um dýrgripi kapellunnar og þar lærði maður undirstöðuatriðin í að lesa úr altarisíkonunum til að vita hvaða dýrlingi þessi kirkja tilheyrir o.s.frv. Þarna var allsvakalegasti útskurður sem ég hef á ævinni séð. Heill veggur af meistaralega útskornum táknmyndum, sögubrotum og fígúrum. Að sjá þessar trésúlur úr heilum trjám sem hafa verið holaðar innan með heilu sögunum innan í. Hvernig var þetta hægt?

Aftur út á hlykkjóttu vegina. Mér leið eins og í tölvuspili í næturkeyrsluborði: beygja, bremsa, beygja, gefa í, bremsa o.s.frv. Á meðan við hlykkjuðumst meðfram landamærum Albaníu leið mér eins og ég væri að fara yfir sömu brúnna aftur og aftur. Enda kom það svo í ljós að við vorum að þræða fram og til baka yfir þessa sömu á: svarti draumurinn.

Við komum svo seint og síðar meir til Orchid og hentum töskunum inn á hið nýuppgerða íbúðarhótel stutt frá vatnsborðinu. Eftir stuttan stöðufund var stikað upp í bæ og rölt um í kvöldkulinu, það var nefnilega bara nokkuð svalt þarna. Mun kaldara en maður hafði átt von á og vonast eftir. Eiginlega það sama hitastig og í Danmörku, svona um 10-12 stig að kvöldi til. Marjan endaði svo með okkur á góðum makedónískum veitingastað þar sem við fengum fyrsta skammt af mörgum af tvennunni góðu: shopska salat og vínberjabrennivíninu rakija. Á eftir fylgdi blandaður kjötbakki, grillaðir chili (sterkir!), hvítlauksmauk, edik og brauð. Mjög gott að fá svolítið í belginn þótt seint væri og í raun kominn nýr dagur. Við röltum í rólegheitum meðfram vatninu og hlökkuðum mikið til að sjá öll herlegheitin í dagsbirtu. Það var svo ótrúlega margt sem við höfðum upplifað á svona skömmum tíma. Magnað að hafa verið í kvöldmessu Orthodox munka innan 12 tíma eftir morgunkaffið í Köben. Og þetta var bara rétt að byrja...

fimmtudagur, 25. september 2008

Á slóð jógúrtsins

Ævintýri. Það er eina orðið sem ég á yfir ferð okkar til Makedóníu í síðustu viku. Þetta var í einu orði sagt frábært. Við hurfum algerlega inn í nýjan heim og gleymdum að það findist önnur veröld hér á sjálandi sem innihéldi skóla, vinnu og tvö yndisleg börn. Það var bara of mikið að upplifa og sjá.

Þetta var frábær og alþjóðlegur hópur (Ísland, Hvítrússland, Pólland, Malta, Kanada, Bandaríkin og Makedónía) sem við vorum hluti af. Marjan var okkar einkaleiðsögumaður og gerði okkur kleift að upplifa land og þjóð með augum heimamanna.

Meðal þess sem við fengum að upplifa var kvöldmessa munka af grísku rétttrúnaðarkirkjunnar, synt í Orchid vatni við sólarlag, róið yfir vatnsuppsprettur, virki, klaustur og kirkjur, minnisvarðar um byltingar, allskyns matarkyns (burek og jógúrt í morgunmat, osta í öllum stærðum og gerðum , tyrkjagruggið boza, klassíska salatið shopska sem fer hönd í hönd með vínberjabrugginu rakija, anísdrykkin mastika, Skopje bjórinn Skopsko) ofl ofl. Og svo að taka þátt í ekta makedónísku brúðkaupi með kórónuskiptingum, gómsætu 4 rétta borði skoluðu niður með rakija og hringdans í meira in 5 klukkutíma við undirleik þjóðrænnar tónlistar, er ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi.

Ég tók auðvitað helling af myndum og myndböndum ásamt því að halda dagbók. Þetta mun allt rata hér inn á vefinn bráðlega, bíðið bara róleg....

sunnudagur, 14. september 2008

Í helgarlok

Sérdeilis gott er það búið að vera um helgina, sólarglenna flesta daga og hlýtt yfir hádaginn. Ég tók skorpu í garðinum á föstudaginn og undirbjó jarðveginn fyrir grassáningu, í orðsins fyllstu merkingu. Það þýddi að jarðaberjaplönturnar og rauðbeðurnar urðu að flytja sig um set. Kryddjurtaóræktarhringurinn fékk að fjúka vegna vanhæfni sinnar...

Föstudaginn var ég að vinna heiman frá svona til hálf ellefu en náði að skella í sólberjamarineringu fyrir hálf tíu. Maður uppskar þokkalega um kvöldið með sólberjakryddkjúkling af grillinu með rauðlauk, maís og kartöflur úr garðinum. Algert dúndur. Við krakkarnir horfðum svo á Disney stundina og Talent á meðan Hanna þvældist um í samgöngukerfi Stór-Kaupmannahafnar. Alveg úr æfingu greyið stúlkan að fara niður í bæ á öldurhúsin. En hún skilaði sér að lokum til Dagný og félaga á Blasen.

Í gær fór Baldur í heimsókn til Aleksanders skólabróðurs og gerðist þaulsetinn mjög. Á meðan skelltum við þrenningin okkur út á Skodsborg ströndina á hjólunum þar sem sílspikaði selurinn skellti sér í úfinn sjó. Það blés þokkalega inn frá hafinu og ég fékk góðar gusur upp í og yfir mig. Ég og Ásta Lísa gáfum smáfuglunum Ciabattabollu á meðan Hanna lá á maganum horfði fast ofan í teppið með lokuð augun. Og maturinn: ég smjörsteikti svínasnitsel í speltraspi um kvöldið með Meyer rauðkáli sem er algert lostæti.


Í dag byrjuðum við á því að fara á markaðinn inn í Holte með viðkomu í gamla góða kaupmanninum í Sölleröd. Þetta var bara eins og hverfa 2-3 ár aftur í tímann, rosa gaman að koma þangað aftur. Ég var þó búinn að hræra saman megninu í tandoori marineringuna áður en við fórum af stað og gat sett sítrónuna og engiferið í við heimkomuna. Lyktin var dásamleg. Ég varð einn eftir í kotinu á meðan Hanna fór með Baldur á sundæfingu og Ásta var horfin um leið til Ölmu vinkonu. Á meðan hrærði ég í skúffuköku og hlustaði á þjóðlagatónlist. Allt var nú að verða klárt fyrir grannagrillið í kvöld, mmm.
Þvílík lukka sem þetta grill var. Tandoori kjúklingurinn var algert sælgæti með bökuðum kartöflum. Súkkulaðikaka plús eplakaka frá nágrönnum rann vel niður með kaffi og þeyttum rjóma. Krakkagerinu líkaði þetta heldur ekki illa.

Núna erum við Hanna á fullu að skrifa upp handbók fyrir gemlinga- og húshald sem mamma og Guðrún taka að sér í næstu viku. Þá erum við nefnilega á leið til Makedóníu! Djíss hvað þetta verður gaman. Marjan og Aleksandar eru búnir að græja þetta allt saman, það eina sem við höfum gert er að bóka flug. Það á víst að vera klár bíll á flugvellinum sem við brunum á niður til Orchid vatnsins til að byrja með í smá ferðamannaleik áður en brúðkaupið er á laugardaginn.

miðvikudagur, 10. september 2008

Jaså

...mikið hvað fólk getur verið upptekið af óléttu.....

laugardagur, 6. september 2008

Íslensk tónlist í góðum farvegi

Ég er núna búinn að vera ánægður viðskiptavinur eMusic í rúm 2 ár. Þar greiði ég áskriftagjald fyrir mín 40 niðurhöl á mánuði sem eru í formi hreinna og beinna mp3 skráa. Ekkert takmark á fjölda niðurhala á sama lagi/plötu né takmörk á hvaða tölvur ég set skrárnar á, ekkert röfl.
Nema hvað, ég hef verið að slæðast eftir Íslenskri tónlist hjá þeim og þar er nú barasta slatti í handraðanum. Í gær sá ég að Sprengjuhöllin er í sviðsljósi mánaðarins, á forsíðu sem umfjöllun dagsins og í öðru sæti á topp albúmum dagsins. Ekki slæmt það! Og platan þeirra er stórgóð, auðvitað sótti ég hana um leið. Til lukku með þetta strákar.
Vonandi fær maður svo að sjá nýju plöturnar hjá Benna Hemm Hemm og Emiliönu innan skamms.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Vinabæjarheimsókn

Hanna og Baldur Freyr eru að skutla Söru nokkurri Sædal niður á Skodsborg stöð. Hún kom og kíkti á okkur litlu fjölskylduna í dag. Við eignuðums Söru sem nágranna fyrir 1,5 ári eða svo í Sölleröd Park þar sem hún og Elín, Anna og Olga slógu niður búðum. Hólmararnir voru í útrás og lentu svo heppilega í sömu húsalengju og við. Eðalskvísur allar og þær reyndust okkur einstaklega vel á ögurstundu í ársbyrjun 2007, en það er nú önnur og lengri saga...

Sara er búin að vera hér í Danmörkinni í viku á ferð með grunnskólanum í Stykkishólmi og í dag gafst tími til að hittast og eyða tíma saman. Við náðum í Söru upp við Experimentarium og rúlluðum inn til Lyngby þar sem ég og stelpurnar (Ásta Lísa, Sara og Hanna) fengum okkur dögurðarhlaðborð með öllu tilheyrandi. Við gáfum grand túrinn hérna upp í Rundforbi og
Hanna slúttaði garðtúrnum með brómberjasmakki. Þá var bara kominn tími á kyss, kyss og bless,bless.

Það er þó aldrei að vita nema við sjáum hana Söru fikra sig til baka til Danmerkur í náinni framtíð. Brakandi sólarblíðan var sterkur sölupunktur...

The National

Stund og staður: Vega þann 12. ágúst 2008

Mat: Flott spilað, frábært band, Matt olli mér heilabrotum, virtist einagraður í eigin heimi

Þetta mánudagskvöldið skellti ég mér niður á Vega til að sjá The National þar sem ég hafði mikinn hug á að sjá þá í eigin persónu. Ég var búinn að vera hlusta á Boxer og Alligator sem eru báðar þrusugóðar.

Enginn vafi á því að hljómsveitin hefur spilað sig sundur og saman, það heyrist glöggt á hvað vel er farið með allar taktskiptingar og krúsidúllur. Trommuleikarinn er all svaðallegur að mínu mati og kom mér fyrir sem óbrigðult takt-vélmenni sem ekkert hafði fyrir því að halda 100% bíti og krúsidúllast um leið. Rytmasveitin algerlega steinlá.

Stór hluti af sjarma sveitarinnar er falinn í rödd og söngstíl Matt Berninger, en þessi djúpi trega-baritónn minnir mann á Tindersticks/Joy Division. Ég hef nú aldrei séð hann á sviði áður og átti í nokkrum erfiðleikum með að átta mig á honum þar sem hann hékk á míkrafóninum en sneri baki í salinn þess á milli. Eins vel og hnitmiðað hann syngur þá er hann með merkilegan úr-takti klappstíl og líkamsburði. Mér datt í hug einhverskonar heilkenni þar sem hann leysti út vélræn klöpp og skrykki algerlega í hálfu tempói og úr takti. En hann söng vel, ekki spurning.

Svo fóru leikar að æsast eins og t.d. Start a War og míkrófónastatífið fékk sveiflu og gítarbræðurnir áttu í fullu fangi með að forða sér. Matt fékk tiltal á milli laga. Eins og ég segi, þá áttaði ég mig ekki á honum. Virtist nett sagt vera í eigin heimi, hvort sem það er hans persóna, (eitur)lyf + áfengi, einver -ismi læt ég ósagt en ég skynjaði eitthvað sérkennilegt andrúmsloft í hljómsveitinni. Svona eins og það væri hljómsveit á sviðinu og svo einn söngvari. Ekki ein eining heldur tveir heimar: Matt og svo hinir.

sunnudagur, 24. ágúst 2008

Kraumandi kollvik - seinni hluti

Eins og áður sagðist þá byrjaði helgin ansi hreint vel og varð í alla staði frábær. Anna Linnet stóð fyrir sínu og ég og Hanna áttum góðar stundir með regnhlífarnar niðri í bæ í gær. Hittum Aleksandar á miðju regni lömdu Kultorvinu á leiðinni niður í bæ.
Maturinn hjá körlunum á Pasha stenst allt lofið og það var meira að segja borðað þar aftur í dag með gríslingunum og Dagný upp í Nörrebrogarði. Mæli sérstaklega með réttunum af kolagrillinu, númer 24 er alveg dúndur.
Leikurinn í morgun kom svo hjartanu mun betur af stað en expressóinu og maður náði sér varla niður fyrr en eftir Pasha matinn úti í Nörrebrogarði þar sem ég lagðist á meltuna og missti meðvitund með sólina stingandi á kollvikunum. Ég er svolítið rauður núna í framan og náði mér að auki í tvö moskítóbit úti í garði áðan þegar ég var að klippa niður sprek. Það hefur engin áhrif á heildarmat helgarinnar: dúndur.

föstudagur, 22. ágúst 2008

Sérdeilis gott

Hvernig er hægt að byrja helgina betur en eins og í dag? Ísland rúllar yfir Spánverjana í frábærum undanúrslitaleik í dag, ég og Hanna að fara í Tívolí á tönleika með gamla brýninu Önnu Linnet sem er jafn samofin danskri menningu eins og rúgbrauðið sjálft. Svo hringir engill neðan af Norðurbrú og býður eitt stykki næturpössun fyrir gríslingana á morgun. Við skötuhjú verðum s.s. í slugsi um Kaupmannahöfn á morgun alveg slök með úrslitaleikinn fersklagaðann í sunnudagsmorgunmat.

Svei mér þá ef mér er ekki bara slétt sama um dynjandi rigningarskúrinn úti núna, þetta er samt frábær byrjun á helgi.

sunnudagur, 10. ágúst 2008

Sýnishorn

Já það er ýmislegt í gangi þessa dagana og vert að gefa smá sýnishorn inn í atburðarás og hugsanaganginn hér í fjölskyldunni.

Í gær tókst okkur að fara í Sirkusinn á réttum tíma og réttum degi. Þetta var svakalega flott sýning sem var hátt í 3 tíma með hléi. Óhætt að segja að maður fái nú sitthvað fyrir aurinn þar. Í einu af hinu mögnuðu jafnvægisatriðum voru kínverjar að leika listir sínar. Þá segir Baldur:
"vá hvað kínafólk er duglegt"

Ásta átti líka eina góða línu í sundlauginni í dag. Þar sem við sátum í barnabuslinu að lokinni sundferðinni og náðum upp hita, var hún með hárgreiðsluleik á mér. Það var verið að hella vatni og móta strýið á alla kanta. Svo byrjaði hún að móta hanakamb og varð að orði:
"... gera svona hanakamb svo þú verðir ligesom (eins og) unglingar... "

Svo átti ég eitt augnablik uppi á Nærum Torv í gær, sem setti andlegt jafnvægi fjölskyldulífsins í smá limbo. Við stöndum við hjólin, nýkomin á torgið í þeim megintilgangi að sækja miðana á sýninguna þarna seinni partinn. Hanna réttir mér lásinn af Baldurs hjóli. Nei, ég er búinn að læsa. Ha? Segir Hanna opinmynnt. Hvað er svona rosalegt við það, hugsa ég? Doh, ég er búinn að læsa lásnum sem við erum ekki með lykilinn að!
Jæja þá eru góð ráð dýr, fyrsta hugsun að kaupa litla járnsög í rusl og draslbúðinni. Nei nei, þeir eru hættir með verkfæri. Málningarbúðin á svona apparat á 15 DKK. Gæðin eftir því, ég næ ekki að saga lásinn frekar en að ég væri að nota síld (þótt að riddörunum sem sögðu Ní hafi lukkast að nota slíkt við trjáhögg). Það restaði með því að hjólið var tekið heim að lokinni sirkussýninu og Mike var svo almennilegur að skila Bosch vélinni þann dag.

Lásavandamálið var leyst í dag með 6,5 mm járnbor í leifturatlögu PBS 500 RE. Hjólið er nothæft á ný og ég komst aftur í náðina hjá langrækna syni mínum....

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Hátíðin nálgast

Kæru vinir

Nú fer að halla að lokum sumarsins, svona opinberlega allavegna. Við höldum fast í vonina að við fáum áframhaldandi góðviðrisdaga og Indian summer láti sjá sig.

En það er ekki því að neita að tíminn heldur áfram að líða og áður en við vitum af verða jólin komin og farin. Sem leiðir okkur að tilgangi þessa pistils. Við höfum nefnilega verið að velta fyrir okkur hvort við ættum að koma heim til Íslands um jólin eða sækja nýja staði heim. Hugurinn stefnir óneitanlega til klakans góða og því viljum við nota síðuna okkar til þess að koma með eftirfarandi fyrirspurn.

Við viljum spyrja hvort e-r (hvort sem það er þú eða e-r sem þú þekkir) vilja fara í íbúðaskipti við okkur yfir jól og áramót (+/- dagar) eða þá að e-r vilji lána okkur húsnæði þar sem viðkomandi ekki verður heima.

Þrátt fyrir að við eigum yndislega fjölskyldu sem gjarnan hýsir okkur þá langar okkur að vera með "heimili" yfir jólin svo að við ekki þurfum að búa í ferðatöskum eins og svo oft áður.

Svo að ef þú lumar á e-u slíku máttu gjarnan láta í þér heyra!! Við hlökkum til ....

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Illur arfur


Þær eru ansi hreint margar góðar danskar kvikmyndirnar. Í gær sáum við eina af þeim: Arven. Þetta var sú síðasta sem við áttum eftir að sjá af þríleiknum hans Per Fly sem tekur fyrir hvert lagið fyrir sig í dönsku samfélagi (botninn, miðjuna og yfirstéttina). Sem er nokkuð mögnuð efnistök því það er almennt ekki viðurkennt að hér í landi sé viðloðandi stéttskipting.....


Það er skemmst frá því að segja að þetta er þrusugóð mynd líkt og hinar tvær en Arven tekur fyrir yfirstéttina. Bænken er samt sú sterkasta, það verður að segjast. Ekki síst fyrir tilstilli Jesper Christiansen sem er vægast sagt magnaður sem róninn Kaj.


Fyrir þau ykkar sem hafa ekki uppgötvað galdra danskrar kvikmyndagerðar og leiklistar ættu að taka nokkrar stikkprufur eins á myndum eins og: Prag, Kærlighed på film (ROSALEG!), Efter bryllupet, Grønne slagtere ofl ofl

laugardagur, 2. ágúst 2008

Alger sirkus

Ég og krakkarnir fórum á Kung-Fu panda um daginn. Eins og við var að búast var þetta frábær skemmtun frá DreamWorks verksmiðjunni með mátulega blöndu gríns, boðskaps og vísidóms. Þar á meðal var spekin að trúa að sjálfan sig. Það finnst mér alveg 150 DKK virði að fá það innprentað í heilabörk barnanna með hjálp bíómyndarinnar og bland í poka.

Í dag fór ég að efast um burði mína til að ljúka einföldu verkefni: sækja miðana í sirkussýninguna í dag uppi á Nærumvænge torv. Samkvæmt mínum áttavita er það á túninu hjá SuperBest og ég hafði orð á því í dag við Hönnu að ég hefði ekki séð nein ummerki um eitt stykki sirkus á túninu þarna þar sem ég hjólaði yfir brúnna í morgun. Hanna sagði að þeir sæjust kannski ekki frá brúnni, ég tók það gott og gilt enda hafði ég fulla körfu að bókum að framanverðu og svo Ástu Lísu með dúkkuna í fanginu í barnastólnum.

Til þess að vera tímanlega í þessu ákváðum við að ég færi á stúfana núna áðan að ná í miðana, svo við hefðum nú nægan tíma til að komast af stað fyrir sýninguna kl 17. Ég sótti mér peninga uppi á torgi og skimaði eftir einu stykki sirkus. Ég sá ekki nein ummerki. Hlýtur að vera þarna einhversstaðar lengra niður með hraðbrautinni, eitthvað talaði Hanna um það. Neibb, nokkrum rangölum og blindgötum síðar var ég farinn að efast alvarlega um hæfileika mína til að finna nokkurn skapaðan hlut, þrátt fyrir nafn mitt.

Ég kom því heim með skottið á milli fótanna, miðalaus og ringlaður. Getur það verið, sagði Hanna, að við séum eitthvað að rugla með daga? Einmitt, við vorum viku á undan áætlun! Bara gat ekki verið að eitt stykki sirkus gæti falið sig svona vel í skógi og sinu. Ég hafði samt farið að efast um sjálfan mig eins og Kung Fu pandan gerði fyrst, hér er verk að vinna.... Á maður að segja frá svona....?

sunnudagur, 27. júlí 2008

Lífið er dásamlegt....

...ég geri það sem ég vil!

Við höfum virkilega notið undanfarinna daga og nýtt veðurblíðuna til hins ítrasta. Vorum á ströndinni í dag til þess eins (og þó ekki) að geta haldið hitann út - ekki leiðinlegt.

Nú er klukkan orðin hálfellefu að kvöldi og hitamælirinn sýnir að enn er 25° hiti. Mér finnst svo æðislegt þegar veðrið er svona og spurning um að leita að búsetustað þar sem veðrið er svona stöðugt. Einhverjar tillögur??

Knús frá sólbrenndu stelpunni.

föstudagur, 25. júlí 2008

Aftur í Danmörkina

Seint á mánudag komum við aftur til baka frá Svíþjóð eftir ljómandi góða reisu til Mariu og Kjell í Trollhattan. Veðrið var ekki alveg 100% en við létum ekki nokkrar (rosalegar) rigningargusur á okkur fá heldur gerðum sitt lítið af hverju, hingað og þangað. Hér eru helstu atriðin:
 • endurnýjuðum kynnin við Bam-Bam
 • fórum í hörmungar A-Evrópu tívolí
 • borðuðum kebab pizzur (Hanna gat varla beðið eftir að glefsa í þær eftir árs bið)
 • heimsóttum vatnaskemmtihús í dauðum smábæ þar sem við náðum að hitta á eina bæjarrónan, tvisvar!
 • unnum nokkra verðlaunapeninga í þrautabrautum orkuveitunnar
 • unnum ekki í plastandasiglingunni, en það var flott að sjá
 • fórum á rokktónleika þar sem Baldur vildi vera alveg fremst
 • Bohus virkið heimsótt sem stóð ósigrað í 350 ár (var reynt 14 sinnum) og á 700 ára afmæli í ár
 • ofl ofl
Við tókum því rólega á þriðjudaginn á meðan Njörður og stórfjölskylda fór í dýragarðinn Knuthenborg. Miðvikudaginn vorum við í skógarferð með báli, prikbrauði, pulsum og sykurpúðum. Fimmtudag var laaangur dagur í Sommerland Sjælland, frábær garður og tæplega hægt að ná honum öllum þrátt fyrir tæplega 8 tíma dvöl. Í dag var svo haft það gott á ströndinni. Mmmm, ég er að fíla þetta frí. Verst að þegar maður er rétt að komast í (eða meira úr) rytma þá þarf að byrja að vinna aftur, á mánudaginn. Það verður víst að hafa sig.....

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Í fríiið....

Dásamlegt, næsta frílota hófst sl föstudag að loknum vinnudegi. Núna erum við saman í fríi fjölskyldan út 27. júlí. Við skelltum okkur strax niður á Mön á bed&breakfast um 10 km frá klettunum sjálfum. Jónas, Áslaug og börn voru á tjaldsvæðinu og komum við einmitt inn á það í einu hellidembu helgarinnar. Þvílík innkoma við fórum beint í regnstakkana og aðstoðuðum við að tjalda vatnsheldum regndúk yfir tjaldborgina með tilheyrandi stögum og prikum með þrumugnýinn í bakinu. Svo ringdi ekki meir þá helgina.

Við áttum frábærar stundir á tjaldsvæðinu við leik, spjall og grill á laugardeginum og svo voru klettarnir teknir út á sunnudeginum í brakandi blíðu. Við snæddum svo saman á túninu við hlið pakistanísku risafjölskylduveislunnar eftir að hafa trítlað allan þennan risastiga.

Njörður, Kolbrún, börn og (tengda)foreldrar komu svo á mánudaginn. Við erum búin að bauka nokkuð saman; bakken, út að borða og bæjarferð eru kominn á listann. Við stækkum svo ferðaradíusinn eftir helgi þegar við komum heim frá Svíþjóð. Það er nefnilega komið að hinni árlegu reisu til Trollhattan til fundar við Maríu og Kjell. Búið er að pakka og við þrusumst af stað í fyrramálið....

föstudagur, 11. júlí 2008

Regndagur

Í dag er rigning og hversu oft á slíku dögum dettur manni eftirfarandi í hug: "Þetta er svona dagur þar sem maður á að liggja upp í sófa og lesa í góðri bók - uhmmmm."

og viti menn, ég er að spá í að gera það bara. Eina sem vantar bara er að hafa kærastann heima ....

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Kolaradó draumar


Eftir að hafa spænt í gegnum þríleikinn hennar Jane hófst ég handa við að lesa "det grønne port" bókina sem ég keypi í samlokubók samheftaða við "Den hvide verden".


Hér erum við að fylgjast með næsta kafla fjölskyldusögunnar, nefnilega uppvaxtarárum Jane og hennar grallarastrikum. Það verður að segjast að ekki er sami jafni stígandi og spenna eins og í þríleiknum. Bara mallar svona í gegn. Ágæt bók engu að síður og ég kláraði hana.


Jane sérfræðingurinn Hanna tók sig til og pantaði millisafnalán á Koloradódraumnum sem ku vera drelligóð. Þar er um skáldsögu að ræða en hver veit hvaða þætti úr eigin lífi Jane hefur fléttað þar inn. Hlakka til að lesa hana....

ÁskorunDagurinn í dag er dagurinn - ég hef sett mér markmið og hlakka til að ná því.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Seiðandi snillingur


Meðan regnið seytlar hér af húsþökum er upplifunin enn að seytla inn í mig eftir tónleikana með Bonnie 'Prince' Billy fyrr í kvöld. Ég og Hanna fórum saman í tónleikasal tívolísins og fengum tvo hnausþykka og gómsæta klukkutíma með snillingnum og meistarabandi hans.

Maðurinn er snillingur og því fylgir að hann er týpa. Okkur Hönnu datt í hug E-prívat (fyrir þau ykkur sem hann þekkja) þegar hann vaggaði og tvístég á fótunum til skiptis með uppbrettar skálmar í bleikum crocs skóm með tásurnar. Augnayndi.

Tónlistarmennirnir (og konan) sem hann er með eru ekkert slor. Þéttara Kentucky angur-kántrý fær maður varla og indjáninn með ásláttartrommurna og tambórinurnar er af öðrum (anda)heimi.

Will og félagar tóku góðan skammt af Letting Go og Master and Everyone. Eins var meirihlutinn byggður upp af nýju efni myndi ég halda þar sem ég þekkti það ekki. Ég fékk margoft gæsahúð en Will toppaði lagaprógrammið með því að enda það á I see darkness. Svo tóku nú tvö stykki uppklöpp við og rúmum tveimur tímum seinna svifum við út brosandi.
Þetta var ekkert annað en snilld, topp fimm í tónleikaferðum!

mánudagur, 7. júlí 2008

Myndræn frásögn...


.. frá hinni stórfenglegu Lalandia ferð 23.-27. júní sl. Eitt hundrað stykkja myndasería ætti að gefa góða mynd (ha ha) af því sem brallað var....

föstudagur, 4. júlí 2008

Tækifæri - passa barn í næstu viku

Uppfærsla þann 6. júlí: búið er að ganga frá samningum um barnagæsluna. Þökkum þeim sem íhuguðu málið. Á allt eins von á hressum Möltubúa upp á Ísland í febrúar næstkomandi. Vantar kannski skemmtanasjóaða leiðsögumenn til að lóðsa um öldurhús. Ath, hann hefur drykkjuþol á við vísunda. Pissar fyrst eftir 5 lítra bjórs....


Um að gera að misnota aðeins þennan vettvang hér og auglýsa.

Þannig er mál með vexti að einn samstarfsfélaga minna er á leið upp á Ísland í næstu viku. Greinilega hefur mér tekist að selja hugmyndina um að fara upp á sker í viku að finna út úr hvernig svona fólk eins og ég verður til!

Alla veganna, hann fer með konu og 2 ára stúlkubarni sem þau eru að spyrjast fyrir um hvort hægt væri að útvega pössun svona eins og 2 sinnum. Stelpan er vön að fara manna á milli og láta passa sig þannig að það er víst ekki vandamál. Þau eru öll Bandaríkjamenn þannig að Ella ætti að getað babblað ensku upp að einhverju marki.

Ef þið vitið um einhvers konar þjónustu sem býður upp á slíkt (í tengslum við hótel/líkamsræktarstöðvar) þá megið þið endilega hafa samband við okkur (í tölvupósti/síma). Ekki síður ef þið mynduð sjálf, eða einhvern sem þið þekkið (frænku, frænda, ....), sem myndi hafa áhuga á að passa Ellu litlu í næstu viku. Að sjáfsögðu eru laun í boði.

Endilega hafið samband ef þið eruð áhugasöm.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Frábært!

Til hamingju íbúar Flóahrepps - mikið er ég ánægð með ykkur!

Knús frá Blöbbý

laugardagur, 21. júní 2008

Jæja

.... þá er aldrei að vita nema það sé að fjölga ......

föstudagur, 20. júní 2008

Makedónía, hér komum við

Loksins létum við verða af 2 ára draumkenndum samræðum um að fara í ferð suður til balkanlandanna. Við erum búin að kynnast svo mörgu afburðafólki frá Serbíu, Svartfjallalandi og Makedóníu að mann klægjaði að fara þarna niðureftir og upplifa menninguna.

Þegar Aleksandar sendi okkur í síðustu viku boð í brúðkaup sitt í september suður í Makedóníu, var allt sett á fullt. Nú var þetta of gott tækifæri til að sleppa. Marjan ætlar að lóðsa hinn alþjóðlega hópinn (Ísland, Pólland, Malta, Serbía og e.t.v. fleiri þjóða kvikindi) um nágrenni Kumanovo. Niðurtalning er hafin....

þriðjudagur, 17. júní 2008

Úps

Ég get ekki annað hér en reynt að bæta fyrir gleymsku mína en ég hef gleymt að senda nokkrar afmæliskveðjur.....

Elsku Gummi, Harpa og Iðunn Ösp - til hamingju með dagana ykkar!!

og Sveinn... til hamingju með þinn á morgun :-)

Knús
Hanna

Þjóðhátíðardagurinn 2008

Gleðilegan þjóðhátíðardag!

Vona að allir séu landi og þjóð til sóma uppáklædd í íslenska þjóðbúningnum og í gúmmítúttum.

Man enn eftir dansleik á planinu við félagsheimilið í Þorlákshöfn þegar ég var kannski 9-10 ára. Geðveikt stuð! Og það var meira segja fengið "hljómsveit" úr Reykjavík - það var soldið stórt.

Hey hó jibbí jei og jibbí jei .........

sunnudagur, 15. júní 2008

Uppskriftir að hamingju

Já ég og Hjörtur snöruðum fram gómsætum heimilismat upp á klassíska mátann við Hillerödgade í gær. Meðan krakkarnir horfðu á víðóma Toy Story 2 stóðum við hlið við hlið, suðum grænmeti og kartöflur, steiktum lauk og buff og Hjörtur galdraði fram bernaise frá grunni. Algert sælgæti sem hefði sæmt sér á hverju heimili: hakkeböf med lög, hvaða Dani myndi segja nei við því!

En þetta leiðir til uppskriftar nr 2 í hamingjuuppskrftabók okkar Hjartar. Hér eru þær fyrstu tvær, athugið að hér er einfaldleikinn í fyrirrúmi:

Uppskrift að hamingju #1 (grillað af Hirti í Rundforbiparken):
1 Kg nautalund
1 flaska rauðvín
1 L ís

Uppskrift að hamingju #2 (steikt á 4. hæð að Hillerödgade)
1 kg nautahakk
1 kg laukur
1 L bernaise

Eldist með ástríðu, neytist með nautn

laugardagur, 14. júní 2008

Stór dagur!

Já í dag var stór dagur - Baldur Freyr fór í 1. sinn í skóla; hann hitti bekkjarfélagana og kennarana, sá skólastofuna og Fritten, var í tíma í klukkustund og restinni eyddi hann úti á leiksvæði og á smíðaverkstæðinu, þar sem hann smíðaði bát. Allt gekk ljómandi vel og hann var mikið stoltur strákur. Ég er ekki frá því að hann hafi stækkað í dag!

Það var stór dagur hjá okkur í annarri og neikvæðari merkingu því að litlu munaði að ekki kviknaði í hjá okkur. Við erum í ýmsum skipulagningum þessa dagana vegna prófalesturs hjá mér og því hefur Finnur verið mikið með börnin á ferðinni og í dag var engin undartekning. Þess vegna tókum við þá ákvörðun í morgun að eftir skóla hjá Baldri kæmum við heim, gæfum börnunum grjónagraut að borða og svo færi Finnur með þau í sund. Því var brugðið á það ráð að setja upp hrísgjrón og áður en við færum yrði slökkt undir, mjólk bætt í og þá yrði suðutími styttri þegar heim væri komið. Praktískt, ik? Nema hvað hlutirnir fóru aðeins á aðra leið eins og gerist í fjölskyldulífinu og litla kindin okkar tók allsvakalegt þrjóskukast og við fórum út með hana undir arminum klukkan tíu mínútur í níu. VIð áttum að vera mætt í Nærum skole kl. 9.Allt róaðist og við tók fínn tími í skólanum. Þar sem ég stóð og fylgdist með Baldri reka nagla í spýtuna sem hann var búin að saga, sá ég allt í einu helv... pottinn fyrir mér á hellunni og þá voru liðnir tveir tímar. Ég þaut í loftköstum út á leiksvæði þar sem Finnur var og þegar hann sagðist ekki heldur hafa slökkt undir, var rokið af stað. Finnur keyrði heim í flýti og á meðan beið ég í mínar lengstu 5-10 mín. Þegar ég náði sambandi við hann fékk ég að vita að það eina sem gerst hafði var að potturinn var brunninn kolsvartur ásamt hrísgrjónunum og mikill reykur og lykt væri inni. Þvílíkur léttir!! Ég var búin að sjá heimili okkar fuðra upp og það var hreint út sagt hræðileg tilfinning. En lukkan var yfir okkur í þetta sinnið og við höfum lært okkar lexíu - aldrei að bregða út af vananum.

Ég hef svo, eins og planið gerði ráð fyrir, setið yfir bókum í dag. Finnur fór með krakkana niður á Nørrebro til Hjartar og Kolbeins. Planið hjá þeim bauð upp á útiveru og Hakkebøf med løg. Ég vona að þeir njóti vel!

Knús
Hanna

fimmtudagur, 12. júní 2008

Tímamót

Það var stór dagur hérna þann 3. Júní en þá varð Baldur Freyr 6 ára. Við héldum upp á afmælið þann 1. júní á dásamlegum sumar-sunnudegi. Á útisvæðinu við leiksvæðið var stillt upp bekkjum í skugganum til að kökukremið færi nú ekki flæðandi um allar jarðir vegna stingandi sólar.
Þetta var frábært afmæli þar sem Baldur Freyr var svo sáttur við sitt. Hann fékk fótbolta, barcelonabúning (sem hann fer bara úr yfir hánóttina til að þvo), hjólabretti, bók, geisladisk, fótboltaskó ofl. Svo var bara hlaupið um og leikið í boltaleikjum aðallega þó. Kærar þakkir fyrir okkur!

Við það að verða 6 ára fylgir að nú er komið að grunnskólastarti. Baldur Freyr er mjög spenntur fyrir því og telur niður dagana. Við erum búin að fá bekkjalistann þar sem hann er núna sem sagt formlega kominn í 0.A. Og það segir hann hverjum sem vill (og ekki vill) heyra. Á laugardaginn er svo prufudagur þar sem krakkarnir fá að koma, sjá og prufa að sitja í kennslustund með bekknum sínum. Mjög spennandi, fyrir alla nota bene.

Baldur ætlar ekki að vera eftir á í neinu og reiknar, skrifar, stautar og teiknar sem mest þessa dagana. Athyglisvert er að hann er aðallega í samlagningu tvíundatalna (veldi af 2) þar sem hann yfirheyrir okkur um hvað 64+64, 128+128 o.s.frv. er. Hann hefur kannski smitast af einhverjum tölvuvírus af pabba sínum? Annars erum við komnir á kaf í norræna goðafræði þar sem ég fór út í það eitt kvöldið að segja honum frá því að nafn hans væri samsett úr 2 guðanöfnum. Þá varð ekki aftur snúið og ég þurfti að þylja meginefni Snorra Eddu varðandi uppbyggingu heims guða, jötna o.s.frv. Við sóttum nokkrar myndasögur úr Goðafræðinni til að lesa á kvöldin. Baldur er ekki sáttur við Loka, enda sá hann til að Baldur var skotinn niður og drepinn með mistilteinsör af hinum blinda og óheppna Heði. Loki er ekki í náðinni, það er á hreinu!

mánudagur, 2. júní 2008

Metin falla...


Það er kannski orðin temmilega þreytt þjóðaríþrótt að stæra sig af sól og blíðu en nú get ég ekki orða bundist yfir nýjasta metinu á dmi. Ég get alveg trúað þeim þegar þeir segja að þetta sé sólríkasti maímánuður og vor frá upphafi mælinga 1920 hér sem ég japla á strandsandinum. Held ég hafi aldrei verið svo snemma að stikna á strönd og busla í sjó eins og um helgina og í dag. Algert bráðn. Og spáin: sól og heiðskírt út vikuna.


miðvikudagur, 28. maí 2008

Bibba á Brávallagötunni

Ásta Lísa á það til að ruglast svolítið í ríminu þegar hún er að tala og núna stendur hún alveg gallhörð á eftirfarandi staðreynd: "jeg bliver 4 år til jordbær" - í stað: "jeg bliver 4 år til oktober".

Svo talar hún um wiki og syming - hvað skyldi hún meina??

Gaman :-)

laugardagur, 24. maí 2008

Svefnþjófur


Þegar ég hafði lokið við að lesa Vernon G. þá var ég uppiskroppa með lesefni. Hanna hafði fyrir nokkru löngu síðan keypt hinn landsfræga þríleik (Klinkevalsen, Julianne Jensen, Oven Vande) Jane Aamund þar sem hún rekur fjölskyldukróníku um Julianne Jensen. Bókin lá í náttborðinu og rykféll þar óflett. Ég greip hana eitt kvöldið.

Það er skemmst frá því að segja að ég hvarf hratt inn í heim barnings fátækrar fjölskyldunnar í Kristjánshöfn undir lok 19. aldar. Ég þurfti að beita mig hörðum aga að lesa ekki mikið lengur en til klukkan eitt að nóttu undanfarna daga. Jane er sterk í persónusköpun og hún sver sig sterkt í dönsku fjölskyldukróníkuhefðina. Ég lauk við bókina í nótt og er búinn að plana bókasafnsferð í dag til að krækja mér í meira.

Maður er bara rétt nýbúinn að spóla í gegnum 637 blaðsíður og vill samt fá meira. Að vera búinn að innbyrða helling en vilja samt meira fær mig til að minnast veikleika míns (og annarra) gagnvart ís. Eitt sinn át ég fullmikið af ís hjá mömmu og ropaði bara vanillu og jarðaberjabragði fram eftir kvöldi. Ég bar mig aumlega og nefndi það við eina góða konu hversu rosalegt það væri að ropa upp ís. Hún svaraði: "Já, finnst þér það ekki gott!" Ég hafði hitt ofjarl minn í ísáti!

fimmtudagur, 22. maí 2008

Flugdrekadauði

Það er ansi margt gott í gangi í tónlistarflórunni í Danmörku eins og um allan heim. Ég stundaði það svolítið að hlusta á netútvarp DR og var Modern Rock stöðin ötul í að kynna nýtt og spennandi efni til sögunnar.

Þar heyrði ég einmitt BHF Asta melódíuna frá Death by kite sem greip mig eins og skot. Þetta er kraftmikið tríó sem gæti minnt þónokkuð á Placebo í hraðara tempóinu. Endilega tékkið á þessu ef ykkur vantar smá hristing í hljóðhimnurnar, þó ekki væri nema til að hreinsa út merginn....

miðvikudagur, 21. maí 2008

Skroppið yfir sundið

Síðasta sunnudag skruppum við yfir til Helsingborg til að eiga góðan dag í Sofiero garðinum þar sem skemmtileg blanda af blómum og bílum var í boði. Þrátt fyrir sólarglennuna var úlpu-/peysuveður vegna kalsaroks og skýjafars sem skyggði á helíumboltann inn á milli. Smá sýnishorn má finna í myndaalbúminu....
Posted by Picasa

Íslenska fyrir Íslendinga

Var að velta fyrir mér málinu okkar góða. Ekki það að ég eigi að vera að spá í því núna þar sem hugur minn ætti að vera heltekinn af frumum, hormónum, hvötum og iðramauki svo sittlítið sé nefnt. En ástæða hugleiðingar minnar er sú að ég var að hringja í Lögreglustjóra þar sem ég gleymdi ökuskírteininu mínu í litla Skodanum okkar.

Samtalið hófst á þessa leið:

Rls: "Dag"

Ég: "Góðan daginn, ég heiti Jóhanna"

Rls: "Dag"

Ég: "Mig langar að athuga með staðfestingu á ökuskírteininu mínu. Ég bý úti og gleymdi því þar."
Rls: "Gleymdirðu því úti?"

Ég: "Já"

Rls: "Þá er best að þú komir niður í Borgartún"

og svo videre.... En ég fór að hugsa, hvað er þetta með að segja "Dag" - ég hélt í fyrstu að mér hefði misheyrst en hún endurtók það nú samt. Og svo þetta með að geta sagt "ég bý úti" - hvað þýðir það eiginlega; er ég útigangskona, bý ég erlendis, úti í geimi eða hvað. Eða er ég bara orðin túttífrúttí?? Eins og þegar ég fell í þá gryfju að segja "engu staðar" í staðinn fyrir "hvergi" - hversu lengi ætlar barnamálið að fylgja mér - leifar liðinna tíma.

Jæja ætli ég þurfi ekki að tussast af stað á ný í lestur fysíólógíuna.

Kæmpekrammer
Blöbbý

laugardagur, 17. maí 2008

Niðurhal í maí

Hérna er svo það helsta sem ég er að hlusta á af niðurhali mínu í maímánuði. Ef þið viljið prófa áskrif hjá eMusic þá get ég skotið á ykkur boði um mánaðarprufu með 50 niðurhölum.

Mountain Battles
Artist: The Breeders
Release Date: 6. april 2008
Genre: Alternative/Punk
Label: 4AD

fjórða á 20 árum og bara mjög lofandi! Eiginlega bara mjög góð plata. Inn á milli eru lög sem færa mig í huganum til baka til Bossanova plötu Pixies.

Motorcade of Generosity
Artist: Cake
Release Date: 7. februar 1994
Genre: Alternative/Punk
Styles: Alternative
Label: Upbeat Records / IODA

Eftir að hafa náð mér í glymskrattaskífuna b-sides and rarities um daginn gat ég ekki annað en sótt þessa líka. Klassískt Cake. Mæli með að sækja b-sides diskinn, kryddar öll partí og samfagnaði með frábæru blandi af sveitatónlist, gömlum rokkhundum og allt þess á milli.

In The Future

Artist: Black Mountain
Genre: Alternative/Punk
Styles: Indie Rock
Label: Jagjaguwar / SC Distribution

Klassastykki sem fær mann til að kíkja á dagatalið undir eins. Er nokkuð ennþá sjötíuogeitthvað? Ofskynjunar-, sýru- og hipparokk að hætti Black Sabbath, Zeppelin og fleiri. Óhætt að mæla með þessari nýjustu frá Black Mountain.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Vernon G. Little


Í einni tiltektinni um daginn þá fann ég litla skrifblokk í náttborðinu. Þar kenndi ýmissa grasa. Hálfar og heilar hugleiðingar um allt og ekkert. Kannski fáum við sýnishorn hér síðar...

Nema hvað, þar fann ég hripað niður nafn á bók sem yrði að lesast: Vernon G. Little eftir D.B.C. Pierre. Í einni bókasafnsferðinni um daginn sá ég þessari stillt upp í danskri þýðingu úti í einu horninu. Sú var nú fljótt gripin og hesthúsuð sem nætursnarl næstu vikurnar.

Þetta er nokkuð góð bók og sýnir á margan og kaldhæðinn hátt hversu langt hálfsannleikur getur leitt firringuna. Sérstaklega þegar hefja sig upp á eymd og varnarleysi annarra til að verða "meiri" maður og að sjálfsögðu upplifa bandaríska drauminn um frægð og péninga. Pierre tekst að stilla upp aðstæðum og atburðarrás sem er í senn bland pínleg, sorgleg og fyndin.

miðvikudagur, 14. maí 2008

Hrossakaup

Þá er loksins búið að láta verða af því: að skipta út hjólhestinum. Held barasta að Hanna hafi verið orðin langeygð eftir framgangi í því máli. Núverandi hjól hefur dugað lengi og fékk ég það frá Jakob tengdó í kringum síðustu aldamót en hann hafði fengið það í einhverjum bílaviðskiptum.

Hipoint hjólið hefur skilað sínu enda búið að spæna upp einum dekkjaumgangi, skipta út bremsuklossum að aftan, taka frambremsuklossana niður í járn (næ þeim ekki af), gírarnir sannkölluð gestaþraut, brotinn vinstri pedali (sem næst ekki af) ofl séreinkenni prýða fákinn. Það er sem sagt löngu kominn tími á þetta. Verandi svona mishagvanur hjólaviðgerðamaður þá læt ég fljóta með eitt ráð úr reynslubankanum: það er öfugur skrúfgangur á vinstri pedölum. Þessi reynsla varð til þess að það er ekki séns að þessi brotni pedali fari af!

Ég skrapaði http://www.dba.dk/ enn einu sinni í leit að nýjum hjólhesti. Var kominn með 4 í sigtið og fór ferð í kvöld til að skoða 3 stk. Eins og ég hafði vonað var fyrsta hjólið bara nokkuð gott og ég kýldi á það. Bláa Marin Bear Valley húkir því hérna í hjólarekkanum með gömlu Kildermoes og Hipoint jálkunum, væntanlega hálf ringlað eftir keyrsluna frá Hróarskeldu...

föstudagur, 9. maí 2008

Í frjóan svörð


Jæja þá er nú aldeilis tíðin góð og hentug til sáningar og slíkrar garðvinnu. Kartöflur, baunir, spínat, gulrætur ofl. var sáð í vikunni. Jarðaberjaplönturnar eru í blóma þannig við fáum vonandi að sjá litla knappa brátt. Þetta er svo allt að koma með restina af garðinum varðandi tiltekt, illgresi og stígagerð.

Það er helst sólbruni og moskítóbitin sem hrjá vinnufólkið þessa dagana en plönturnar kalla eftir góðri vökvun þar sem ekki er útlit fyrir að sólarblíðan og þurrkurinn sé á undanhaldi.

Ég hef græjað myndaalbúm sem hægt er að fylgjast með framganginum...

mánudagur, 5. maí 2008

Prinsinn kemur og smyr konfekti í eyrun


Það kom að því að maður fengi að sjá prinsinn í eigin persónu. Hann mætir í tónleikasal Tívolísins þann 8. júlí og þá mun ég sitja úti í myrkrinu og leyfa Bill að smyrja konfekti í eyrun.

Þeir sem hafa ekki kynnt sér öll alter-egó Will ættu að krækja sér í perlur eins og I see a darkness, Valgeirsframleiðsluna Letting go, ease down the road o.s.frv.

sunnudagur, 27. apríl 2008

Kraumandi kollvik

Það er aldeilis að kollvikin krauma núna, eins og ég sé með tvö rauð teppasýnishorn í kollvikakrókunum. Upphandleggir, handabök og hnakki eru í sama djúprauða stílnum, "þökk" sé garðvinnunni í sólinni í gær. Besti dagur ársins hingað til, ekki spurning. Krakkarnir voru meira að segja með bjartsýnni sólardýrkendum og hlupu um ber að ofan á garðstígunum.

Mikill árangur varð í garðræktinni um helgina enda erum við með mömmu hérna í heimsókn sem er ansi hreint hagvön á gaffal, skóflu og klóru. Frá því á laugardagsmorgun hafa hátt í 10 hjólbörur með garðaúrgangi fengið að fjúka út í safnhaug, pælt upp ræktunarsvæði og beð afmörkuð. Risastór hola var líka grafin af mömmu til að hýsa tilvonandi sólberjarunna úr óleigða garðskikanum sem okkur áskotnaðist í gær í gegnum varaformann garðafélagsins. Það féll reyndar um sjálft sig í dag þegar talhólfsskilaboð frá Annette tjáðu okkur að leigjendur hefðu tekið við garðinum og sólberjarunninn því ekki lengur í boði.

Við komum við á bensínstöð á heimleiðinni frá náttúruleiksvæðinu og var fyllt á skóda litla sem og farþegana þar sem sólberjarunnadramað krafðist bland í poka til að komast yfir áfallið. Allir í bílnum voru hæstánægðir með þau kaup, sérstaklega Ásta og Baldur.

Hanna fékk svo yfirgripsmikla leiðsögn í plöntugreiningum, nytjum og góðráðum seinnipartinn úti í garði frá einni nágrannakonu. Þar voru sko ýmis góð ráð gefin og vonandi fer þetta nú allt að spretta og blómstra svo unun verði af. Án sólberjarunnans þó...

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Uppfærsla og fréttir

Hvað er nú í fréttum, það vantar ekki frásagnir....

Nú, byrjum á bömmernum. Það skall hér á verkfall fyrir viku og gerði leikskólann okkar hálflamaðann. Við getum haft Baldur og Ástu 4 daga aðra hverja viku. Þessa vikuna er 0 pössun. Þá voru nú góð ráð dýr og hjálparsveitin var ræst út frá Íslandi. Mamma kom með sólina með sér á sunnudaginn og síðan hafa gríslingarnir verið heima hjá ömmu alla vikuna og líkar bara vel. Verður bara erfitt að snúa þeim til baka í leikskólann þegar að því kemur... Svo gott hafa þau það.

Veðrið hefur verið svo æðislegt að hér er blár himinn og blaðgrænan vellur úr brumhnöppunum, allt er því að fá á sig sumarlitina. Ýmislegt annað er í hröðum þroska. Baldur Freyr steig skrefið til fulls á laugardaginn og hjólaði án hjálparadekkja eða nokkurs stuðnings! Það var ótrúlega mikil viðbrigði og frelsi, enda hefur hann varla sleppt stýrinu síðan og gleymir að horfa á barnaefnið vegna spennu yfir að fara út að hjóla.

Hér hefur umhverfið þann ótvíræða kost að margt er um krakka á svipuðum aldri og er mikið um leik úti þessa dagana. Baldur og Ásta eru smátt og smátt að ná upp útivistaþoli bræðranna hér ská á móti: Oliver og Nikolaj. Þeir eru bara alltaf úti. Enda er búið að vera í fótbolta, tálgi, róló, hjólakeppnum ofl. á hverjum degi. Dúndur!

Svo ekki sé minnst á nágrannan ská neðan við okkur sem varð sér úti um trambolín (sem tekur allan bakgarðinn hans) og er það vinsælt að banka hjá Jóhannesi þegar hann er heima og taka nokkur vökur vinstri hopp.

Fleira var ekki í fréttum að sinni, en Glóbjört mun segja fréttir af veðri eftir auglýsingar...

þriðjudagur, 25. mars 2008

Nekt

Það bar nokkuð á nektinni yfir páskadagana tvo í margvíslegum fjölbreytileika og öllum aldurshópum.

Krump
Á páskadag skutluðum við krakkarnir afa Sæma og Guðurúnu frænku út á lestarstöð. Eftir að hafa vinkað bless í vorsólinni rúlluðum við út á Vedbæk höfn. Við spókuðum okkur innan um frumskóg bátanna sem liggja nú uppi á bílastæðum í viðhaldi. Eftir að hafa skoðað báta, fólk og ferfætlinga enduðum við á gamalkunna strandstaðnum þar sem rólurnar eru. Upphófst mikið dund með sjórekna múrsteina sem notaðir voru í varnagarða. Ásta rölti sér yfir að rólunum og sveiflaðist þar fram og til baka bæði ein og með sjálfskipuðum leikfélögum.


Eins og flesta sunnudaga voru vetrarbuslarar á ferðinni en vegna kuldans voru dýfurnar í styttra lagi. Baldur Freyr veitti þessu lengi vel enga athygli en þegar heila fjölskyldan var þarna samankomin (2 stk afar, 2 stk ömmur, dætur, tengdasynir, börn og ég veit ekki hvað) og ljósmyndaði allt í bak og fyrir, fór snáði að spá. Enda rauk dóttirinn út á göngubryggjuna með myndavélina ásamt barnabörnunum til að mynda öll herlegheitin þegar amma og afi dýfðu sér nakin í sjóinn. Baldur hefur örugglega verið að spekúlera svipað og ég með það hvaða djúpstæðu áhrif það getur haft að horfa á ömmu og afa allsnakin og mis krumpaða æðri líkamshlutana. Í öllu falli steinhætti hann að brjóta grýlukertin af göngubrúnni og horfði dolfallinn á þau, sjóblautur í öðrum skónum. Ásta rólaði bara sem mest þar til hún hætti vegna þreytu í höndum.


Kátir krakkar
Í gær, annan í páskum, prófuðum við krakkarnir svolítið nýtt: fara á þjóðminjasafnið. Þar er svona ljómandi sniðug deild sem er "krakkasafn". Þar eru eftirgerðir af alvöru dótinu þannig að það má leika og djöflast alveg að vild. Riddaradeild, víkingaskip, Pakistanskt kaupfélag o.s.frv. Það var rosa gaman og hitnaði ennþá meira í hamsi þegar Kolbeinn Hrafn mætti á svæðið, þá fyrst fór stuðið á flug. Og það var ekki að spyrja að því: Ásta Lísa var orðin rjóð, með sveitt nef og búin að rífa sig úr að ofan. Hún hljóp því um allt safnið hálfnakin og kafrjóð. Ég og Hjörtur vorum ábyggilega vafasömustu foreldrarnir með þessa þrjá strumpa í eltingaleik innan um þjóðargersemarnar.

föstudagur, 21. mars 2008

Páskalambið

Páskarnir komnir og lítið eitt hret með. Hér hefur verið svo ljúft og gott í vetur en svo þurfti að skella á með snjó þessa vikuna. Þeim mesta í vetur, bara hríð hérna heim á mánudeginum.

Það hefur verið gestkvæmt hjá okkur og er enn. Ásta var hjá okkur í viku en flaug svo á miðvikudaginn suður á bóginn til Kanarí, burt úr snjómuggunni. Í staðinn komu pabbi og Guðrún systir. Það voru aldeilis fagnaðarfundir og ýmislegt er búið að bralla.

Í gær fórum við í Frilandsmuseet (sbr Árbæjarsafnið) og röltum um í ratleik. Ásta Lísa var í Emmu öfugsnúna gírnum og náði að verða á öndverðum meiði með velflest samtöl og athafnir. Eftir safnaheimsóknina ákvað ég að sýna pabba litlu skonsuna sem við bjuggum í í Virum fyrir um ári síðan. Á leiðinni keyrðum við fram hjá rólóinum vinsæla þannig að aftur í var lögð fram eindregin ósk um að leika þar.

Þegar það átti svo að fara heim var Ásta Lísa í þvera gírnum og gerði sig sko ekki líklega til að koma með. Þrjóskusvipurinn var alveg magnaður, svona bland af þvermóðsku og glotti. Ægilega kunnulegir tilburðir, hvar hef ég séð þetta áður? Þá ljóst það mig, íslenska sauðkindin!

Kannski fullgróft að segja að dóttir mín sé eitt stykki íslensk sauðkind, hún er nú ljúf og góð stelpa, bara "svolítið" sjálfstæð og þrjósk. Eiginlega bara svolítið páskalamb.

sunnudagur, 9. mars 2008

Pókerfésið á stigapallinum

Það var svo ljómandi gott veður í gær, sól og blíða. Við krakkarnir fórum í innkaupaleiðangur eins og 86,56% Dana ástunda á laugardagsformiðdögum. Gekk líka svona ljómandi vel og ég keypti ýmislegt girnilegt "gúrme" í tagliarini réttinn úr Jamie bókinni. Hanna gaf mér hana nefnilega á fimmtudagskvöldið áður en hún skrapp til Stokkhólma með Elvu. Ég sveif því um á milli hillnanna í Super Best með krökkunum að tína stórblöðótt sellerí, ólívur, sítrónur, pecorino og parmesan ost og svo framvegis.

Þegar við roguðumst upp með pokana sat Anders úti og sleikti sólina. Ásta var fljót að hlaupa til hans og byrjaði að blaðra út í eitt við hann að venju. Ég var aðeins meira til baka en spjallaði þó svolítið við hann. Anders var ekki mjög skrafhreifinn og horfði meira upp í himinbláan en á okkur. Það var algert pókerfés á kallinum og ekkert að heyra minnst á hinn nýja almannaróm um að forsetisráðherra vor væri helsti frambjóðandinn í stól forseta Evrópu. Engin svipbrigði, alger póker.

sunnudagur, 2. mars 2008

Andspænis Anders

Hnarreistur stóð Baldur Freyr andspænis Anders hérna úti á stigapalli. Dró andann djúpt og gekk fjögur skref til móts við hann, rosalega hugrakkur. Ásta Lísa var hinsvegar alveg að kæfa Anders með knúsi þannig að móður hans fannst ekki annað hægt en að bjóða okkur inn fyrir.

Baldur Freyr var eitthvað smeykur við galsann í Anders þannig að úr varð að hann var settur afsíðis inn í herbergi um sinn. Við spjölluðum við mömmu hans um daginn og veginn. Svo hepping vorum við að fá að sjá helstu viðfangsefni og gleðigjafa hans sem geymdir eru í skálinni inn í stofu. Krakkarnir voru forvitnir og handfjötluðu dýrgripina. Anders heyrði strax í gegnum hurðina að verið væri að fikta með eigur hans og varð svolítið órólegur. Mamma hans teygði sig upp í skáp bak við nokkrar þykkar ritraðir og fiskaði út merkilegan grip. Þetta var jólagjöfin hans Anders sem er í miklu uppáhaldi hjá honum og halda verður til hliðar til að hann verði ekki of æstur. Þessi gula gaddakylfa er líka ekkert smá flott.

Við vorum leyst út með marsipanpáskanammi og á morgun ætlum við að hittast aftur. Vonandi verður hægt að hafa Anders inn í stofu með okkur í næstu framtíð. Hann hefur ábyggilega margt merkilegt að segja.

Höfðinu styttri

Afhöfðunin var greinilega nýyfirstaðin því stubburinn lá í vegakantinum. Engin birta myndi framar stafa frá toppstykkinu, hlutverki hans lokið í þessu lífi.

Enda langt síðan Dong skipti út ljósastaurunum á Grísastígnum sem og meirihluta gatnakerfis kommúnunnar. Hinir stílhreinu og reffilegu svörtu stálstaurar beygja höfuð sitt í lotningu yfir hjólreiðamenn og aðra vegfarendur á stígnum. Gömlu timburstaurarnir gera það ekki meir og eru nokkrir eftir á stangli inn á milli. Meðal þeirra var sá afhöfðaði sem var gerður metranum styttri til að rýma til fyrir hinu alsjáandi stafræna auga.

Á svörtu stílstaurunum hefur nefnilega verið komið fyrir tveimur settum af nýtísku eftirlitsmyndavélum sem filma alla umferð um stíginn sem rúllar framhjá granna vorum Anders Fogh Rasmussen. Nú er spurning hvort löggimann hætti að hnita hringina þarna uppfrá eða ekki með tilkomu þessarar nýjungar? Eða er þessi viðbót tilkomin vegna nýlegrar heimsóknar AFR til Bush í Texas í síðustu viku eða endurprentanna víðfrægu?

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Íbúðarskipti - checked!

Til hamingju kæru Hveragerðisvinir - mikið hlökkum við til að sjá ykkur hér ytra í sumar! Það verður margt og mikið brallað.

Að öðru en þó að sumrinu - við erum, í samráði við Inger og Flemming, búin að leigja okkur bústað í Lalandia í sumar. Þetta verður um vikudvöl og aldrei að vita nema við bætum e-m öðrum viðkomustöðum, t.d. Møns Klint, við á leiðinni. Ef þið viljið forvitnast um bústað og umhverfi, þá er heimasíðan www.lalandia.dk. Ekki slæmt það!

Annars er lítið að frétta, lífið gengur sinn vanagang. Það styttist í húsmæðraorlofið og brátt mun birta til hér á bæ.......

Kæmpekrammer
Blöbbý

föstudagur, 15. febrúar 2008

Góðir grannar

Það var loksins að ég sá framan í nágrannan okkar hérna hinu megin götunnar. Síðasta föstudag hjólaði ég hina vanabundu leið eftir grísastígnum á leið úr vinnunni. Þennan spotta hef ég hjólað ósjaldan síðustu 2,5 árin og það er oftast einn löggimann á vappinu í brekkunni neðan við stíginn. Fyrstu skiptin furðaði ég mig á því að lögga í fullum skrúða væri að birtast á miðjum hjólastígnum. Eru menn algerlega að tapa sér í hjólaljósaeftirlitinu? Skýringuna fékk ég síðar frá Gunnari í vinnunni...

Nema hvað, á föstudaginn síðasta sá ég lögguna sem fyrr við stíginn. Hann var á spjalli við skokkara sem var sko með ljósin í lagi. Blikk á höndum og fótum svo að svartklæddi kroppurinn væri nú sýnilegur. Eftir því sem ég nálgaðist varð ljóst hver skokkarinn var. Augu okkar Anders Fogh mættust og sameiginlegur skilningur okkar á alheiminum flæddi milli í köldu loftinu á þessum fáu sekúndum. Það er gott að eiga góða granna sem eiga eitthvað undir sér. Nú er málið að redda sér skokkmúnderingu og reyna að trimma með Fogh. Gæti komið sér vel síðar...

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Húsnæðisskipti í sumar

Bekkjarsystir mín hún Stine ætlar í heimsókn til Íslands í sumar. Með í för verða Morten, kærastinn hennar, tengdamamma og mágur hennar. Þau vilja upplifa sem mest og flest og þar sem allt kostar peninga á Íslandi, þá benti ég henni á að eflaust væru e-r sem gjarnan vildu skipta við þau á húsnæði og bíl. Þannig gæti það komið sér vel fyrir e-a heppna Íslendinga sem vildu kíkja til Danmerkur í sumarfríinu sínu.

Svo að ég lýsi hér með eftir e-u ykkar sem vilja skipta á húsnæði og bíl við fjóra trausta Dani. Tímabilið er 14. júlí til 27. júlí. Þau vilja gjarnan vera í Reykjavík eða í nágrenni við höfuðborgina. Stine og Morten búa í einbýlishúsi, í rólegu og fallegu hverfi í Herlev. Það er innan við 5 mín. gangur á lestarstöðina og frá Herlev tekur 20 mín að komast niður í miðbæ Kaupmannahafnar.

Ef þetta vekur áhuga ykkar, hafið endilega samband við mig í tölvupósti (hannajakobs@gmail.com) eða síma (0045 - 3031 6774).
KramHanna

föstudagur, 8. febrúar 2008

Veðurofsi

Er þetta ekki barasta grín, þetta veðurfar á landi ísa? Ég sá á mbl.is að fólk er beðið um að halda sig inni, að varasamt geti verið að vera úti. Það held ég að verði spennandi að sjá hversu margir djammfíklar láti veðri stöðva sig......

.... og hér er vor í lofti...

megi algóður guð bless'ykkur og vernda
amen
Blöbbz

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Duglegar!!

Við Elva tókum ákvörðun, eftir að hafa báðar kvartað undan febrúarsleni, að kaupa okkur far til Stokkhólms í byrjun mars. Ekki amalegt það, ég sé fyrir mér; kaffihús, verslanir, veitingastaði, söfn, kristilegt hótel, skemmtistaði, helling af nýjum andlitum og að sjálfsögðu hina gullfallegu sænsku tungu.

Det blir jättekul!!

Pussar och krammar
Blöbbý

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Avacado

.... ef ég vissi ekki betur, héldi ég að ég væri siglétt! Ég er gjörsamlega sjúk í avacado í formi guacamole. Þetta er orðið pínlegt.....

Börnin á leið inn í draumalandið sem er ekki í frásögur færandi nema hvað að nú hefur Ásta Lísa slegist í hóp Baldurs Freys og neitar náttfötum. Þau hafa komist að því að betra sé hreinlega að sofa í hversdagsfötum. BFF er íklæddur hermannabuxum og er ber að ofan, ÁLF er berleggjuð í brúnu flauelspilsi og í agalega fínum rauðum jakka. Trendsetter eða hvað??

laugardagur, 2. febrúar 2008

Mugi..... bomba!

Við vorum að koma neðan úr Vega og það suðar ennþá í eyrunum á okkur. Mugison kom sá og sigraði á sviði litla Vega í kvöld. Þvílík bomba.

Ég og Hanna vorum í fremstu röð og létum dynja yfir okkur dásemdirnar sem þeyttust úr mögnurum og skinnum strákanna á sviðinu. Pétur, Aggi, Mugison, Davíð Þór og Gunni áttu ótrúlegan samleik þar sem farið var vítt og breitt um tónsvið og hljóðstyrk. Sveitamúsík og sárróma söngvar fikruðu sig yfir í murr murr sem gaf upptaktinn að þyngri deildinni. Þar sýndi sveitin að hún gefur ekkert síðhærðum svartbolum eftir í þungu rymrokki sem væri fullfallið til að hljóma á The Rock í köben.

Takk, takk, takk Mugison og fylgisveinar fyrir frábært kvöld! Þetta var út úr korti góð kvöldstund en því miður höfðum við ekki tíma til að dvelja við og kaupa diskinn af þér. Það gerum við um hæl á netinu!

föstudagur, 1. febrúar 2008

Rok og rigning

já það verður að segjast að hér sé drulluveður - en það þekkið þið víst ansi vel á klakanum, ik? Það er kannski meira snjór, rok, hagl, hríð og frost - eigum við nokkuð að halda áfram?

Vitið þið að ég er í svo spennandi námi að stundum trúi ég því varla. Verst er að ég get víst ekki verið endalaust í því og lok námsins munu verða staðreynd. Ég veit líka að þá verð ég búin að öðlast enn meiri þekkingu (ja, það ætla ég allavega að vona þrátt fyrir efasemdirnir sem læðast inn undir sjálfstraustsskikkjuna.....) og verð enn betur í stakk búin til að takast á við vandamál heimsins.

En þrátt fyrir að vera í þessu líka frábæra námi, þá getur það stundum drepið mig að þurfa að gera verkefni. Þá verð ég nefnilega (og sérstaklega ef ég hef ekki fókus í verkefninu) algerlega ofvirk, þjáist af athyglisskorti, finn fyrir gríðarlegum verkkvíða og kveiki á frestunaráráttunni í mér. Kannski að þetta hangi með að nú sé janúar á enda runninn og febrúar að byrja...., allavegna veit ég fátt betra en að borða súkkulaði.....

smá jákvætt, smá neikvætt og dásamleg helgi framundan - ég hlakka svo til & vona að þið gerið það líka.

Kæmpekrammer
Hanna

p.s. ...og Njörður, ég er víst Dani ;-)
>vi er røde, vi er hvide, vi står ..... <

sunnudagur, 27. janúar 2008

EM 2008

Djöfulzinz znilld!! Djöfulli er ég ztolt af því að vera Dani.......

mánudagur, 21. janúar 2008

Garg

hvernig er hægt að sóa heilum degi án þess að verða neitt almennilega úr verki???

mánudagur, 14. janúar 2008

Jóla og áramótamyndirnar


Var að skella inn nokkrum myndum frá jólum og áramótum okkar heima á Íslandi. Hér kennir ýmissa grasa: heimsóknir til vina- og frændfólks, jólin, áramót, mannfagnaðir ofl.
Posted by Picasa

laugardagur, 12. janúar 2008

Heima

Þrátt fyrir það hve ágætt það var að vera á Íslandi um jólin, var alveg asssssgoti gott að koma aftur heim í Rundforbiparken hér í Danmörku. Um vikutími hefur svo farið í að trappa niður ungviðið og reyna að fá svefn og aðra rútínu á rétt ról. Við vorum að ná ákveðnum áfanga að þau séu bæði sofnuð klukkan tíu. Heima á Íslandi var þetta komið í tómt rugl, verið að skríða á fætur upp úr hádegi enda farið í bælið um miðnætti.

Kassar, húsgagnasamsetningar, gardínu- og ljósapælingar hafa verið gegnugangandi í vikunni enda var bara búið að setja upp gardínur í svefnherbergjunum og eitt stykki ljós hjá gríslingunum.

Hvað er svo meira viðeigandi en að kúra sig í sófann heima og horfa á Heima eftir Sigur Rós í kvöld!

föstudagur, 4. janúar 2008

Úr framtíðinni

Í gær hitti ég konu úr framtíðinni, nánar tiltekið frá árinu 2064. Hún Dipa hans Eiríks er nefnilega að fara halda upp á nýtt ár (2065) eftir 3 mánuði samkvæmt Bikram Samwat dagatalinu. Ekki nóg með það heldur eru tvö önnur dagatöl í gangi í Nepal, eins gott að taka fram hvaða dagatal er átt við þegar maður mælir sér mót....

Ég var í heimsókn hjá Laufbrekkubændum í gær og átti þar frábæra kvöldstund með bræðrunum og Dipu. Fékk að smakka hið ljómandi góða Achar sem Eíríkur gaf mér með smá í nesti til að sannfæra Hönnu endanlega um að sérferð þurfi að gera til landsins til að koma í mat upp í Laufbrekku. Sleeeef.

miðvikudagur, 2. janúar 2008

2. janúar 2008

Velkomin í ískaldan heim raunveruleikans. Vona að þið eigið góða vinnustundir - heheheh.....

Við erum enn stödd hér á landi í góðu yfirlæti, eigum orðið í vandræðum með að vakna fyrir hádegi en verðum að bæta úr því. Því í fyrramálið er stefnan sett á að vera mætt kl. 11 til Írisar, Möggu og Arons Loga.

Við bíðum spennt eftir komu Hólmaranna í höfuðborgina og ég veit að BFF bíður sérstaklega eftir henni Söru. E-ð hefur slegið saman hjá honum því hann tilkynnti það í morgun að hann vissi alveg hversu gömul hún væri... 10 ára! Við leiðréttum þetta pent. Það verður gaman að sjá viðbrögð hans á laugardaginn þegar hann fær að sjá Söru live! Ætli hann fari ekki í baklás eins og þegar tekin var mynd af honum með Hara-systrunum.

Föstudagskvöldinu bíð ég eftir í ofvæni en þá verður síðasta Íslandsdjammið í bili og við munum skilja allt eftir í reyk.....

Jæja mér er ekki til setunnar boðið - verð að fara að lesa fyrir Kropstræningprófið í næstu viku.
Kys og knus
Hanna