laugardagur, 31. desember 2005

Áramótaandvarpið

Jæja, enn og aftur fer senn að líða að óumflýjanlegum árskiptum í okkar nútímalega Gregoríska tímatali....


... og við hjúin sitjum hér við tölvuskjáinn og höfum rétt nýverið skolað niður skammtinum af innlenda fréttaannálnum. Það var ágætis hressing og góð upprifjun á atburðum sem við vissum bæði um og vissum ekki um. Lofuð sé stafræn útgeislun RÚV.

Í gærkvöldi fóru svo Jakob, Oddný og Anja heim á leið til Íslands. Það gekk nú ekki alveg áfallalaust frekar en koman hingað. Við kíktum samviskusamlega á http://www.cph.dk/ og www.textavarp.is til að staðfesta brottfaratímana áður en Hanna skutlaði út á völl. En allt kom fyrir ekki, það var svo búið að fresta fluginu um klukkustund. En það var bara byrjunin því enn og aftur var frestað í klukkutíma og klukkutíma. Í stað þess að gefa bara réttar upplýsingar strax, drattaðist Iceland Express vélin í loftið að verða tvö í nótt í stað áætlað 20:25. En vélin var víst búin að liggja biluð heima á Íslandi allan daginn án þess að nokkrum dytti í hug að láta þær upplýsingar komast til skila til farþeganna. Heim komust þau að lokum, en þetta var ekki alveg stjarna í barm Iceland Express. Hauskúpa!

Í dag rúlluðum við svo til Hróarskeldu til Jónasar, Áslaugar og barna á hinum forláta Citroen bíl sem fékkst í skiptum eftir plássþröngan varabíl hins bilaða fáks hér um daginn. Það var alveg frábært að hitta þau og við áttum virkilega góðan dag. Umhugsunarvert að það tók okkur um 30 mínútur að keyra þetta á móti þeim 2 klukkutímum sem það tekur að skrölta í strætó, S-tog og lest. Það fékk hinn trausti Thinkpad fartölvulangur minn nýtt heimili eftir rúmlega 5 ára trygga þjónustu. Margrét Sól er nýr og stoltur eigandi hennar. Til hamingju.

Nú eru ostarnir frá Höng að taka sig á disknum og Rioja vínið Marques del Puerto árg 1996 bragðast alveg prýðisvel. Passilegt að horfa á erlenda annálinn og svo skaupið áður en við leggjumst til hvílu í nýju, dúnmjúku sængunum okkar sem komu fyrir algert kraftaverk í ferðatöskum síðustu gesta okkar.

Búmm búmm, bamm bamm. Við óskum öllum vinum og vandamönnum gleðilegs nýs árs og gleði og farsældar á hinu nýja og rísandi ári. Við sjáumst svo, í hvaða mynd eða formi sem það verður.

mánudagur, 26. desember 2005

Fall er....

Vertinn sagði:

fararheill. Ekki satt? Í þessum töluðu orðum er glorsoltinn og slæptur hópur fólks á leið upp í Sölleröd eftir Helsiningör hraðbrautinni.


Já í dag lentu Anja, Oddný og Jakob á Kastrup. Hanna og Baldur Freyr fóru og tóku á móti þeim. Ég og Ásta Lísa biðum heima og biðum spennt eftir komu þeirra. Ásta tók sína spennu út í svefni því hún hefur verið sofandi síðustu 4 tímana, svaka dugleg að sofa stelpan.

En ég var búinn að gera klárt fyrir smurbrauðssnæðinginn og farinn að undrast lítið eitt um liðið þegar síminn hringdi. Það var Hanna. Bílaleigubíllinn bilaði og þau biðu eftir Falck bíl til að draga skrjóðinn á braut en svo átti eftir að fara niður á Kastrup að fá nýjan bíl. Við sjáum hvað setur, ég ætla að setja brauðið á borðið og sjá til hvort Ásta Lísa ætli ekki að fara að rumska.

Hér er allt hið jólalegasta, snjónum kyngir niður síðan um hádegi. Gleðileg jól öll saman til sjávar og sveita. Jólakortin eru í vinnslu......

föstudagur, 23. desember 2005

Þorláksmessa

Sveinki sagði:
Það er aldrei að vita nema við munum hlusta á hann Bubba í kvöld því að það verður að segjast að okkur vantar svolítið íslensku jólalögin og íslensku stemninguna. En þrátt fyrir það höfum við það stórgott og hlökkum til að halda okkar eigin jól. Ég má nú til að segja ykkur aðeins frá upplifun Baldurs á jólaveininum.

Málið er nefnilega að fyrstu nóttina kom sveinki með mandarínu og piparkökur. Hrifningin var ekki meira en svo að kökurnar voru teknar en mandarínan fékk að liggja í skónum áfram. Sveinki ákvað því að næstu nótt skyldi vera e-ð sem eflaust fengi meiri viðbrögð og viti menn, næsta morgun lá þar einn lítill hlauppoki. Baldur var mikið ánægður og næsta morgun er hann opnaði augun, néri hann saman höndunum, dæsti og sagði nautnalega: "hvað ætli sé í skónum??". Þegar hann sá að ekki var nammipoki, heldur e-ð Batman belti (sem Sveinki hélt að hann yrði svo ánægður með) þá létu viðbrögðin ekki á sér standa. Baldur lagðist í gólfið, grenjaði og skammaðist, sagðist sko ekki vilja sjá þetta og allt var á þennan veg. Mikil vonbrigði. Þessi uppákoma tók dágóða stund og ekki var minn ungi maður hress þennan morguninn. Þegar heim var komið eftir dag í skólanum þá voru þessi mál rætt, annað hvort að skrifa jólasveininum og afþakka gjafir eða þá taka þakklátur á móti þeim gjöfum sem berast. Baldur komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að þiggja en neita og hefur þetta sveinkamál gengið vel eftir þessa uppákomu. Í kvöld mun Sveinki verða svo heppinn að fá kanelsnúð að launum fyrir allar fallegu gjafirnar.

Ég hef þetta ekki lengra í bili. Ungi maðurinn kallar ítrekað á mig og vill fá athygli.

Ástarkveðjur og hátíðarkveðjur
Hanna

mánudagur, 19. desember 2005

Jólakveðjur

Sveinki sagði:

Ég held að ég noti þessa rólegu stund sem gefist hefur á heimilinu til þess að óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Einnig óska ég þess að árið sem í vændum er verði okkur öllum hamingju- og gleðiríkt.

Við ætlum ekkert að breyta útaf venju og vera svolítið sein fyrir og því munu jólakort berast í seinna falli þetta árið og etv. barasta á nýju ári.

Það er nú bara þannig, eins og hann Freysi myndi segja.

Ástarkveðjur og knús frá Søllerød Park
Hanna


föstudagur, 16. desember 2005

Er líða fer að jólum

Stúfur sagði:

Tíminn krafsar sig hægt og bítandi áfram og nú er barasta að koma að jólum. Við feðgarnir fengum meira að segja smá snjómuggu í andlitið í morgunsárið á leiðinni í leikskóla og vinnu.


Æ fleiri teikn eru á lofti um komu jólanna. Við erum búin að fara á 'julehygge' hjá bæði Baldri og Ástu í skólunum þeirra. Þar er jafnan trompað fram hinum ljúffengu eplaskífum (sem innihalda að vísu engin epli), kirsjuberjasultu og flórsykri. Piparkökurnar eru heldur aldrei langt undan. Ef við víkjum aftur að eplalausu eplaskífunum þá er skýringin sú að áður fyrr var það venjan að baka þessar ljúffengu fitubolta á eplaskífupönnum þar sem eplabitum var stungið í hverja skífu. Það var tilfellið þegar fólk bjó þetta til sjálft en nú til dags er þessu gjarnan sleppt, sérstaklega í fjöldaframleiðsluumhverfinu.

Svo erum við búin að fara á jólaskemmtun hjá Microsoft og svo fékk ég smá jólaglögg í dag (og að sjálfsögðu eplaskífur) í vinnunni. Hanna var svo að hræra í 'honninghjerte' sem merkilegt nokk innihalda velflest annað en hunang. En þannig er nú margt skrýtið í henni Danmörku.

Jæja nú fer uppáhaldsþátturinn minn að byrja í sjónvarpinu. Dolph og Wulff eru að fara að taka út spítalana í kvöld. Dolph ætlar í lýtaraðgerð til að fá sama útlit og Jean Claude Van Damme.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Verslunardagur frá helv....

Grenjuskjóða sagði:
Já ég skal sko segja ykkur það. Það var verslað í dag og ég verð að viðurkenna að ég er bara ekki kona sem nýt þess að fara búð úr búð og versla af mér rassgatið. Enda skaust í huga mér svolítil hugsun í dag, og þykja það nú tíðindi ....

Ég hugsaði sísvona með mér að nú hlyti ég að ganga með þríburana og ef svo væri þá skyldi ég nú aldeilis eiga samtal við hann Þórð Óskars (sem er kvensjúkdómalæknirinn) því að hann ber ábyrgð á þessum málum, ef svo má að orði komast. Ástæðan fyrir spökuleríngum mínum varðandi óléttu kom til vegna þess að ég fór nú barasta að grenja í Lyngby í dag. Ég var að reyna að ná strætó til þess að komast til Gentofte, þar sem eru m.a. Elkó, Rúmfó og Ikea og tókst ekki betur til en svo að strætó leggur af stað er ég er uþb. að koma að honum. Ég geri með handahreyfingum ljóst að ég biðji um leyfi til þess að koma með en aumingja maðurinn sem var að keyra vagninn horfir á mig, eins og það væri ég sem væri auminginn, og hristir bara höfuðið; "nei nei þú færð ekki koma með mínum vagni!!!" Og vonbrigðin, reiðin og allt sem þessu fylgir helltist yfir mig og áður en ég vissi af voru tárin farin að renna. Ekkert sem ég gat gert eða hugsað gat stöðvað tárin en mikið fannst mér þetta hallærislegt. Hér stóð ég fullorðin manneskjan og grenjaði yfir því að missa af strætó. Já maður spyr sig??

Að öðru leyti var þetta ansi erfiður dagur (eins og þetta hafi verið svaka auðvelt), því að hann fólst í verslun af ýmsu tagi eins og áður kom fram. Þegar ég er í svona leiðangri gæti ég þess oft ekki að borða nóg svo að áður en ég veit af er ég komin með hausverk og á skjálftavaktinni. Þegar svo er komið þá fer þolinmæðisþröskuldur minn ansi lágt. Hann var eiginlega í lágmarki þegar ég hafði verslað í Ikea og ég gerðist bæði óheiðarleg og dónaleg. En ég get fullvissað ykkur um að ég fékk að borga fyrir það.

Málið er að ég var komin að kössunum í Ikea með þær vörur sem ég þurfti á að halda, þar á meðal var öryggishlið fyrir stigann - þar sem daman er farin að klöngrast upp á stigapall). Ég setti allar vörurnar upp á bandið nema hliðið sem var enn í kerrunni og ég ætlaði að láta afgreiðslustúlkuna lesa af strikamerkinu. Eitthvað gekk afgreiðslan hægt útaf e-u Dankorti og ég var farin að stara út í loftið. Síðan kom röðin að mér og ég tók á móti vörunum mínum og setti þær í töskuna, borgaði og gekk út. Þegar ég kom út varð mér litið í innkaupakerruna og þar var hliðið, algerlega óborgað. Ég byrjaði á að pirrast gríðarlega og ætlaði að fara inn, klukkan var orðin ansi margt og ég hugsaði svo bara með mér: fjandakornið, ég nenni ekki aftur inn, heillöng biðröð, ég verð seinni en ég nú þegar er og þetta er bara hennar mistök, bla bla bla - s.s. fór auðveldu og óheiðarlegu leiðina að þessu. Ég fór svo með innkaupakerruna og skilaði henni þar sem aðrar innkaupakerrur voru. Þar kom að starfsmaður Ikea (á kerrusviði) og benti mér á að þarna væru kerrur frá Ikea en ekki frá Toy's R'Us, en þaðan var kerran sem ég var með. Ég gerðist því líka dónarleg (eins og óheiðarleikinn hafi ekki verið nóg) og sagði að ég ætlaði mér nú samt að skilja eftir kerruna og þeir sem sæju um verslanirnar þyrftu bara að sjá um þetta. Og við það gekk ég í burtu. Á þessari stundu var ég búin að hringja eftir leigubíl og var því að bíða eftir honum þegar mér verður litið á hliðið og sé að á plastið hefur verið skrifað; defekt. Ég leit því betur á hliðið og sá að það var allt beyglað. Þetta var nú orðið ljóta vesenið, ekki nóg með að ég hafi ákveðið að stela vöru heldur stal ég gallaðri vöru. Og heim fór helv... hliðið og þegar ég hef jafnað mig á þessu þá mun ég kíkja betur á hliðið og sjá hvort við getum notað það. Nú annars fær það að fjúka út með ruslinu og Ikea er örugglega hlæjandi eins og púki, ánægt með að hafa losnað við gallaða vöru.

Það er nú alveg orðin spurning hvort ég ætti ekki bara að gerast kaþólsk og nota skriftarstólinn til þess að létta á syndum mínum .... eða nei nei, ég nota bara þetta blogg ;o)

Eitt svona smá af BFF áður en ég kveð. Eða tvennt. Hann er að taka heilmiklum framförum í dönskunni og slær um sig með orðum eins og: hold op, undskyld, hue på og farvel. Hitt var að það er svolítið skemmtilegt þegar hann fer á klósettið til þess að kúka. Þá er hann nefnilega með e-ð ljósasystem og yfirleitt er rautt ljós í upphafi en svo segir hann: "þegar græna/bláa ljósið kemur, þá kemur kúkurinn." Svo bíður hann smástund og segir svo: "nú er ljósið komið" og lætur þá vaða. Skemmtilegt??

Ég sendi ykkur ástarkveðjur á þessum annars yndislega degi og vona að þið njótið hans.
Hanna

þriðjudagur, 13. desember 2005

Blámi selst hæstbjóðanda

Bílasveinninn sagði:

{mosimage}Jæja þá er um að gera að nýta sér möguleika netsins og auglýsa bláma okkar falan til kaups. Um er að ræða bláan 1999 árgerð af Mitsubishi Lancer, mjög góður bíll. Ekinn 103 þúsund, áhvílandi 300 þús hagstætt gengislán. Afborgun er tæplega 16 þús á mánuði.

Jólatilboð: 500 þúsund

Áhugasamir hafi samband við okkur gegnum tölvupóst (finnur@finnur.com) eða með öðrum hætti að eigin vali.


sunnudagur, 11. desember 2005

Tívolí ferð

Snigillinn sagði:

Þau ykkar sem þekkið til hennar Sibbýjar minnar munið eflaust eftir eftirminnilegri ferð hennar til USA hér um árið.....

 


en þar var komið fram við þennan "ljóshærða engil" eins og hinn argasta kriminal og hefur hún enn ekki lagt í ferðalag vestur um haf. Í dag var Sibbý á ferð í Tivoli og þar komu kriminal-taktar hennar glögglega í ljós. Hún vogaði sér að standa upp á bekk til þess að ná betri mynd af frænda sínum, honum Baldri Frey en hann var í mikilli innlifun að stýra flugvél. Manninum, sem stýrði flugvéla-tækinu, fannst þetta uppátæki hennar ávíta vert og gargaði hástöfum. En Sibbý greyið var náttúrulega með hugann við frændann að hún heyrði ekki í honum. Hann ákvað því bara að garga enn hærra, í stað þess að nálgast krimmann og loks hnippti konan, sem stóð við hliðina á Sibbý, í hana og sagði henni að ekki væri leyfilegt að standa upp á bekknum. Ef ekki hefði verið fyrir þessa konu hefðu tveir grímuklæddir vopnaberar mætt til þess að vísa Sibbý á dyr úr Tivoli.

Eftir að hafa jafnað okkur á sjokkinu þá hefur þetta verið hinn frábærasti dagur og ég vildi helst að hún Sibbý mín væri ekki á heimleið á morgun.

Ástarkveðjur til ykkur um allan geim.
Hanna

laugardagur, 10. desember 2005

Hva, er ekkert að gerast?

Tíðindamaðurinn sagði:

Jú jú, þrátt fyrir slaka uppfærslutíðni á vefnum hefur nú ýmislegt verið að gerast undanfarna viku og er enn að eiga sér stað...


Fyrir rétt um viku síðan komu Jakob og Oddný í heimsókn til okkar hérna upp í Sölleröd. Heppin vorum við að vinnan hans Jakobs, Nýsir, hafði slegið til og splæst ferð fyrir starfsfólkið til kóngsins Kaupmannahafnar. Það urðu miklir fagnaðarfundir og áttum við góðar stundir saman. Fórum til dæmis saman á jólaball hjá Microsoft þar sem blöðrumaðurinn alræmdi framkvæmdi ógjörlega gjörninga af mikilli list.

Hanna byrjaði svo í nýju vinnunni eftir helgina en þurfti að byrja á því að vera heima fyrsta daginn með Ástu Lísu sem hafði gripið í sig einhverja pest. En svo komst hún til vinnu í Barnahuset Egehegnet á þriðjudaginn og gekk það nú bara með ágætum og er þetta prýðis vinnustaður. Ekki skemmir fyrir að leikskólinn er við hliðina á Joan, dagmömmu hennar Ástu Lísu.

Í dag rann svo loksins upp langþráður dagur. Loksins er komið að því að Ásta frænka snúi til baka úr mánaðarferð sinni til Marokkó. Við Ásta Lísa fórum út á götu og tókum á móti svefnvana frænku í leigubílnum beint frá London, með kúkableyju í poka svona til að hjálpa Ástu við að ná jarðtengingu.

Eftir að Ásta náði að leggja sig smá stund í dag hefur meðvindundarstigið aukist verulega og erum við tilbúin að eiga notalega kvöldstund saman eftir ljúffenga máltíð.

laugardagur, 3. desember 2005

Glært

Geiri glæri sagði:

Nú er það ekki svart, heldur glært. Eða þannig...


Hér í Danaveldi virðist það vera óskráð lög að jólaljósaperurnar skuli vera glærar. Okkar íslensku og marglitu seríur hljóta að vekja undrun, aðdáun og gleði. Líkt og þegar konurnar á leikskólanum hans Baldurs Freys gátu ekki varist því að fylgjast með og brosa að skriðtækni Ástu Lísu sem skaust áfram um öll gólfin á rassinum eins og krabbi á 'julehygge' í síðustu viku.

Einn af indversku samstarfsfélögum mínum varð samferða mér í strætó heim á föstudeginum. Hann var hálf glær af þreytu, enda sagði hann mér að það væri líka raunin. Hann býr með nokkrum öðrum starfsnemum og þar er víst oft glatt á hjalla. Reyndar hefur hann verið að skrifa bók, en sú vinna hefur alveg setið á hakanum þar sem ekki hefur skapast tímarými milli veisluhalda og vinnu. Hann vonaði að hann yrði nú ekki glærþunnur um helgina þar sem hann var nú að vonast til að vinirnir færu nú ekki að hringja og bjóða í fjör. Það er víst erfitt að standast það, stöðug togstreitan í mannskepnunni er eilíft vandamál.

Svo má ég til með að deila með ykkur einstakri upplifun úr þvottahúsi Sölleröd Park. Ég fór þangað í kvöld að þurrka þvottinn í þurrkurum 1 og 2. Ég hafði bara rétt sett þurrkarana í gang og tyllt mér í biðhornið við hliðina á Greenpeace plakatinu frá nítjánhundruðsjötíuogsúrkál, þegar annar maður kemur inn. Aðkomumaðurinn var klæddur gulum uppþvottahanskum og gekk beint til verks. Þvotturinn var í a.m.k. þremur ofurþvottavélum og var samviskusamlega færður í þeytivindu (klæddur gúmmíhönskunum), upp á frágangsborð og svo troðið í aðeins einn þurrkara. Heljarinnar stórþvottur hér á ferð.

Augabrýr mínar lyftust um 5 mm þegar ég sá fjöldann af skyrtum sem hann hengdi upp við frágangsborðið, svona 17 stykki eða svo. Augabrýrnar nörtuðu svo bókstaflega í hársvörðinn þegar ég sá hann svo við þurrkarann þar sem hann var að taka síðustu 'flíkurnar' úr körfunni. Það voru nefnilega 3 pör af uppþvottahönskum, gulum eins og hann klæddist þá þegar. Þeir hafa verið hálf þvældir eftir volkið í þvottavélinni, en hann handlék þá með alúð og hellti vatninu úr þeim. Mig undraði þó að hann skuli hafa íhugað þann möguleika að setja þá líka í þurrkarann.

Nújá, þá var minn þvottur búinn að rúlla sinn tíma í þurrkaranum og tími til kominn að halda heim í kot með þurran þvottinn, kitlandi smásögusafn Asimovs og minningar um gúmmíhanskaklædda stórþvottamanninn.