sunnudagur, 19. ágúst 2007

Aftur í hversdagsmynstrið

Sumarfríið búið og allir komnir aftur heim. Hanna og krakkarnir áttu dásamlega daga á Íslandi og kominn er tími til að komast aftur í hversdaginn. Það er síður en svo tíðindalaust á heimilinu.

Margt er að gerast hjá litlu snillingunum þessa dagana. Ásta Lísa byrjaði í leikskólanum hans Baldurs þann 13. ágúst og gengur stórvel, enda nokkuðkunnug aðstæðum, krökkum og starfsfólkinu. Hún fékk strax eitt stykki verndarengil, hann Corantin vin hans Baldurs. Hann passar sko vel upp á Ástu og fylgir henni hvert fótmál, reimar skóna hennar o.s.frv. Svo knúsast þau að morgni og að kveldi, svaka rúsínur.

Sama dag og litla frökenin byrjaði í leikskólanum, þá gerði hún sér lítið fyrir og byrjaði að pissa í klósettið eins og ekkert væri. Sagði bara: ég þarf að pissa og skellti sér á gustafsberginn. Daginn eftir var hún búin að finna út úr því hvernig átti að gera númer tvö. Þó nokkuð af stórum viðburðum á þremur dögum.

Baldur er voðalega mikið að spekúlera þessa dagana, kannski eins og oft áður. Núna eru það unglingar sem eru heillandi viðfangsefni. Spurningarnar dynja á okkur: hvenær verður maður unglingur, hvað gera unglingar, eiga þeir kærustur og giftast og svona....

Tölurnar og klukkan eru stúderaðar stíft á heimilinu. Mikið verið að taka út tölur og tíma dagsins.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Fargo - Dagur 5

Langur svefntími frá fyrri nótt setti mynstrið eitthvað úr skorðum og það gekk erfiðlega að sofna og ég vaknaði snemma, upp úr fimm. Bylti mér þar til ég nennti því ekki lengur og greip í ítalsku löggusöguna um Zen fram að fótferðartíma.


Síðasti dagur námskeiðsins var bara nokkuð bærilegur. Ég var alveg bara með hátt í fulla athygli í að gramsa í öryggisstillingum Axapta og 4 tímar flugu hratt fram að mat. Úti fyrir var heldur betur búið að hitna vel og það var heiðskírt og ábyggilega nokkuð vel yfir 30 gráðum, alger veggur.

Við fórum aftur á Qdoba mexíkó hraðfóðurstöðina. Það verður að segjast að kaninn er orðinn gríðar framþróaður í að láta hlutina ganga hratt fyrir sig með toppþjónustu. Við mættum í eitthvað sem maður myndi kalla ágætis röð, en maður var bara kominn út á borð í sólina á 2 mínútum. Magnað.

Komum við í Barnes og Nobles, þar er sko hægt að gleyma sér svo dögum skiptir held ég bara við að skoða það sem til er. Fundum eina bók um bókhald sem við vorum að leita af og svo náði ég að finna svolítið handa litlu ormunum mínum tveimur. Eftir svona góða verslunarferð þá var um að gera að verðlauna sig og heimsækja hið óðdauðlega fyrirbæri Krispy Kreme, sérstaklega þegar við vorum ekki með ónot í maga og með matarlyst. Þetta er bara ofvaxin kleinuhringjafabrikka sem hægt er að fá allar mögulegar og ómögulegar samsetningar af sykri og fitu með deigbindingu. Fékk mér orginalinn með glassúr og svo eina kremfyllta bollu. Það var nóg fyrir mig, lagði sko ekki í bláberja- og súkkulaðihringina.

Síðustu kvöldmáltíðina snæddum við á hinu stórfína Timber Lodge steikhúsi. Þar eru sko buffalóhausar á veggjum, hreindýrshornaljósakrónur og steikur hátt að hálfu kílói! Við fengum þó alveg bara passilega skammta og komumst alveg óskaðaðir út. Þetta var rosa fínt kjöt, meyrt og gott. Samuel Adams bjórinn alveg prýðilegur með steikinni.

Á morgun fljúgum við svo heim að loknum nokkrum fundum sem við John höfum stillt upp fyrir hádegið. Þetta er líka að vera gott, orðið hálfgerður ground hog day þar sem allir dagar eru eins. Morgunverður, námskeið, hvað eigum við að borða í hádegisverð, námskeið, upp á hótel eða versla, hvað eigum við að fá okkur í kvöldverð, upp á hótel, sjónvarp, dund og sofa. Spennandi, ekki satt....?

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Fargo - Dagur 4

Líðanin var nokkru betri eftir 12 tíma hvíldina og matarlystin að mestu komin aftur. Ég gat því fengið mér eitthvað annað bara eitt epli í morgunmat. Af öllu sykurkruðeríinu valdi ég mér hafragrautinn sem er alveg bara prýðisgóður.


Enn einn dagurinn í kennslustofunni framundan og ég fékk mér verkja og hitalækkandi til að slá á hausverkinn og stífleikann í hnakkanum. Það hlýtur bara að vera annað hvort eitthvað slævandi í þessu dufti og pillum eða að kennslu efnið var svona leiðinlegt, því ég var gersamlega að sofna. Dottaði bara þó nokkuð oft undir hádegið.

Við fórum á Godfather's pizzustað í hádeginu en þeir voru með hlaðborð. Það sem sló mig þar var ein pizza sem er ætluð í eftirverð. Svona sykurhlaðið deig með glassúr og M&M kúlum en það var líka hægt að fá deigkúlur í kanilsykurhjúp, úúghhh. Ég bara næstum ældi, þetta er alveg týpiskt bandarískt, alveg löðrandi í sykri, enda gat maður séð það á 80% af matargestum að þar voru menn svolítið yfir kjörþyngdinni. John prófaði deigkúlurnar og fannst þær fínar en deigpizzan þótti honum hræðileg og sagðist hafa meitt sig bókstaflega í tönnunm.

Seinnipartinn á leiðinni frá námskeiðinu fórum við í gegnum möguleika okkar í kvöldmatar málum. Möguleikarnir eru óendanlegir því allt er nú hægt að fá, allan sólarhringinn, allan ársins hring. Við ákváðum því að taka ameríska pólinn í þetta og fara á alþjóðlega pönnukökuhúsið sem kvöldmat. Það virtist nú ekki vera svo óalgengt hjá fólki því eitthvað var nú af gestunum. Þjónustustúlkan var eitthvað svo rosalega kammó og í rúllandi rullu að mér fannst það bara hálf pínlegt. Næstum eins og hún væri aðeins þroskaheft, en það var nú ekki raunin því hún breyttist aftur í venjulega manneskju þegar hún sópaði gólfið. John hlýtur að hafa séð eitthvað skrýtinn svip á mér því hann kom með athugasemd um að hér væri unnið fyrir þjórfé. Við tókum smá umræðu um það hversu þjónusta getur verið aðeins of ágeng. Maturinn var alveg allt í lagi, eggjabaka með fyllingu og svo pönnukökur. Að sjálfsögðu allt of mikið, svona passlegt fyrir tvo og komið með auka gosglas þegar við erum komnir hálfa leið niður úr því fyrra.
Ég held bara svei mér þá að ég myndi grennast hérna í Bandaríkjunum þar sem ég er kominn með hálfgert ógeð á mat þar sem þetta er allstaðar í andlitinu á manni (matsölustaðir og auglýsingar) og í allt of stórum skömmtum í yfirgengnum útfærslum (feitt og sykrað). Maður verður beinlínis frábitinn mat þegar allar þessar auglýsingar og neysluhvatning gera þetta að hálfgerðu klámi.

Það var ekki annað hægt en að kíkja í móðurskip verslanna, Wal-Mart. John átti eftir að klára nokkur innkaup af listanum. Eins og allt í Ameríku var þetta náttúrulega risastórt og allt til í óteljandi úrvali og vöruflokkum. Rakinn úti skall á okkur þegar við höfðum lokið verslunarrápinu, það var reyndar svo heitt í lofti að regndroparnir nánast gufuðu upp jafnóðum.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Fargo - Dagur 3

Um miðnætti skall á með skjálfta hérna í hitamollunni í Fargo. Ég skaust fram og tók sængina af hinu rúminu og setti hitann í botn. Já, ég var bara að fá bullandi hita.


Ég komst einhvern vegin í gegnum nóttina þar sem skiptist á skjálfti og hitakóf eins og vaninn er þegar maður fær hita. Mér leið svona bærilega í morgunsárið og ákvað að prófa að fara á námskeiðið og sjá svo bara til hvort það gengi. Matarlystin var samt nærri núllinu og ég fékk mér epli og te í morgunmat, alveg hámark af því sem ég gat sett ofan í mig. John fór með mér í súpermarkaðinn að kaupa eitthvað verkja og hitalækkandi. Þar klikkar kaninn ekki, allt gersamlega flæðandi í úrvalinu af alls kyns lyfjum. Mesta vandamálið var að velja eitthvað úr hillunni. Þar kom sér vel að hafa John á kantinum.

Maður sigldi einhvern veginn í gegnum daginn en þegar ég kom upp á hótel þá lagðist ég fyrir og var byrjaður að dotta upp úr klukkan sex. Ég ákvað að sleppa því að fara í kvöldmat og vera bara inni á herbergi og ná upp hvíld. Það gekk alveg eftir og ég svaf hátt í 12 tíma og hefði alveg getað sofið meira. Ekki mikið fjörið á manni þennan daginn...

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Fargo - Dagur 2

Það var ekki upp á marga fiska næturhvíldin, ef það mætti kalla það sem svo. Líkamsklukkan eitthvað bjöguð og ræsti mig fram að pissa eins og einu stykki syndaflóði tveim tímum eftir að ég sofnaði þrátt fyrir samviskusamlegt fyrir-nóttina-piss. Mætti halda að maður væri bara óléttur?


Í dagsbirtunni sést enn betur hversu rosa flatt og rúðustrikuð Fargo er, eða það sem ég hef séð af borginni. Breiðar og hornrétt stræti og götur ná ekki að þekja mikið af sléttunum hér. Sjaldan séð eins mikið magn af matsölustöðum og verslunum samankomið á einum stað. Merkilega margir að fá sér McDonalds í morgunmat í bílalúgunni hérna á staðum við hliðina í morgun. Það var meira að segja ein konan sem kom inn í morgunverðasalinn með Mc poka með sér. Glætan maður hefði lyst á svoleiðis brasi fyrir hádegi.

Fundum Microsoft hérna ekki langt frá úti á sléttunni. Ég þurfti að fylla reglulega á kaffi og kólabirgðirnar við hliðina á mér í kennslustofunni til að halda meðvitundarstiginu fyrir ofan núllið. En þetta hafðist nú allt saman þrátt fyrir að ég og John neyttum ýmissa sleggjuaðferða við að fá uppsetninguna á Axapta í gegn, sem var eitt verkefnanna. Ég sat svolítið áfram til að fylgja eftir nokkrum málum og skaut póstum út í geim og kom á fundi með nokkrum heimamönnum á föstudaginn.

Ég lagðist svo upp í rúm á hótelherberginu í klukkutíma til að aðeins að reyna að komast upp fyrir núllið í meðvitundarstiginu. Stillti klukkuna og tók smá hring á þessum 50+ rásum og sá þar frétt um hörmulegt gengi á flugvöllum með tilliti til þess að vera á tíma. Júnímánuður sl. var víst sá alversti í áraraðir og það fer víst ekki batnandi. Chicago flugvöllur kom víst alverst út úr þessu með rétt um 55% fluga á áætlun. Hljómar alveg kunnulega.

Eitthvað fór klukkustillingin úr skorðum því ég rankaði við mér við það að John bankaði á dyrnar hjá mér um hálf sjö. Við fórum á einn indverskan veitingastað, The Indian Passage. John var eitthvað slæmur í maganum og borðaði nánast ekkert af sínum mat. Mér leið ekki sem best heldur og borðaði jú eitthvað en ekki mikið. Þjónustustúlkan gat ekki orða bundist: "what happened"? Við gáfum skýringarnar en John bjargaði ærunni með því að biðja um að taka matinn með út úr húsi. Held að hann ætli að fara beint í rúmið, skil það vel.

Uppi á herbergi nýtti ég mér hina inniföldu nettengingu til að skrifa niður og setja á netið þessa dagbókarbrot. Ennþá frekar ómögulegur í maganum, á í mestu erfiðleikum með að finna sjónvarpsstöð sem er ekki að hella yfir mann fitulöðrandi matarauglýsingum. Hef dottið niður á Survivor Man á Discovery sem hefur nánast engan mat fyrir augunum, enda er hann alltaf hálf allslaus í eyðilendum.

Fargo - Dagur 1

Þá var komið að því að skella sér til Fargo. Skemmtileg tilviljun að hin ódauðlega mynd Cohen bræðra hafði einmitt verið á dagskrá kvöldið áður á TV film. Ég tók lestina frá Klampenborg niður á Kastrup upp úr hálf eitt. DSB bara nokkurn vegin á áætlun, til hamingju!


Innritunarröðin var ekki svo slæm, en alveg sá ég fyrir að fjórmenningarnir á undan mér væru svona vesen fólk. Miðaldra ráðvilltar kerlingar með körlunum sínum. Frúin var með allt of þunga tösku, meira segja fyrir economy extra! Þá var byrjað að tína upp drasl bara þar sem hún stóð, jæja hvað skal maður þurfa að bíða lengi eftir að þetta rugl leysist. Á hinu innritunarborðinu voru tveir félagar að stefna hraðbyri í seinni afmælisdaginn sinn. Eitthvað droll á þeim.

Hugsanir mínar voru lesnar og röskur SAS starfsmaður kallaði á mig inn á næsta checkin borð og græjaði innritunina á 5 mínútum, gluggasætið klárt og hægt að strunsa upp í öryggishlið. Ég sá að það var sennilega hægt að fara í gegnum SAS hraðbrautina á Economy Extra miðanum og svo reyndist vera. Var kominn í gegn á 7 mínútum.

Hitti John inni á vappinu og við fórum út að hliði 40 að bíða eftir innritun. Loks kom að því og ég tyllti mér niður með Dynamics AX doðrantinn og þrælaði mér strax af stað í lesturinn, sjáandi fyrir mér kvikmyndasýningu á eftir sem gulrótarverðlaun. Lesa í 2 tíma og fá svo 1-2 góðar kvikmyndir í þessu nýja og endurbætta skemmtikerfi SAS manna. Frá árinu 2007 er Nú er hægt að sækja og sjá kvikmyndirnar eftir þörfum og vild. Stoppa og taka teygju og pissustopp og allt. Það eru svo sannarlega framfarir frá því ég flaug síðast til Redmond. En öllum framförum geta fylgt vaxtaverkir og mér til mikilla vonbrigða tilkynnti yfir flugfreyjan skömmu eftir flugtakið að kvikmyndasýningahluti skemmtikerfisins væri bilaður, því miður. Ojojojoj, nú fauk gulrótin sem dögg fyrir sólu. Bara vinna, ekkert fjör og um níu tímar í háloftunum framundan. Svo hafði ég í þokkabót nú óvart vistað word skjölin á rangt snið á fartölvuna þannig að ekki var hægt að lesa um skýrslu notendarannsóknanna. Bara einn vistaður póstræfill og jú MapPoint sem hægt var að skoða hvar hótelið er og svona.

Þannig að farið var í smá fornleifagröft. Gat skoðað ansi magnaðar hreyfimyndir af gríslingunum og alveg ótrúlegt að sjá Ástu Lísu skríða á rassinum með snuddu í munni og mállausa með Baldur stóra bróðir að drösla henni inn og út af baðherberginu í hestaleik. Ómetanlegt.

Það er samt ekki hægt að kvarta yfir dúlleríinu í fóðurdeildinni hér. Búið að fá smá fyrir mat snakk, kjötbollur með mús og trönuberjum, kaka og kaffi á eftir, sífellt verið að bera í mann vatn og safa og nú rétt í þessu kom sælgætismoli og ítalskur ís. Nammi namm. Svolítið huggulegra á Economy Extra. Hvernig ætli lífið sé þarna hinu megin við tjaldið á Business Class?

Hitamollan skall á okkur á Chicagoflugvelli við komuna um 18 að staðartíma. Þessi flugvöllur er ekkert smávægis flæmi og allt á kafi í flugvélum að koma og fara. Vængirnir snerta nánast hvor annann þegar vélarnar mætast á leið sinni til og frá flugbrautunum.

Erillinn átti eftir að sýna sína verri hlið þegar fluginu okkar til Fargo var frestað í sífellu og flutt milli hliða a.m.k. fjórum sinnum. Við máttum bíða í 3 tíma umfram áætlaðan flugtíma og við virtumst ekki vera eina flugið sem var í þeirri stöðu. Bara stórmerkilegt að heyra innritunarmanninn á hliði 12 reyna að selja farþegunum það að þetta væri alveg að koma. Flugvélin komin, bara eftir að fá áhöfnina, hún er bara rétt ókomin frá Newark. Reglulega ómuðu tilboð flugfélaganna um að gefa eftir sæti sitt fyrir frá fría gistingu, uppihald í Chicago og flugmiða til að bjarga yfirbókunum.

Það voru þokkalega rauðeygðir og steiktir tvímenningar sem innrituðu sig inn á Fairfield Inn hótelið um eitt eftir miðnætti á staðartíma (átta að morgni í Danmörku). Orðið bara ágætt eftir tæplega sólarhringsvöku 19 tíma þvæling.